27.10.1975
Efri deild: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

24. mál, sóknargjöld

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Frv. um þetta efni, frv. til l. um sóknargjöld, var lagt fyrir síðasta Alþ., en svo seint á því þingi að það náði þá ekki afgreiðslu. Þau lög, sem nú eru í gildi um sóknargjöld frá árinu 1948, eru að ýmsu leyti orðin úrelt ef miðað er við aðstæður nú og nokkuð orðin einstæð í gjaldakerfi því sem við búum við.

Þessu frv. er ætlað að breyta þeirri skipan og leysa þessi lög frá 1948 af hólmi. Samkv. þeim lögum, sem nú gilda, lögunum frá 1948, eru sóknargjöld persónugjöld eða nefskattur sem allir menn á aldrinum 16–67 ára eiga að greiða. Þau geta verið mismunandi eftir einstökum sóknum, því að söfnuðirnir hafa innan vissra marka ákvörðunarvald um álagningu gjaldsins. Eftir þá lagabreytingu, sem gerð var árið 1972, þegar almannatryggingagjaldið var fellt niður, mun sóknargjaldið vera eini nefskatturinn sem enn er lagður á. Þetta veldur m. a. óhagræði og auknum kostnaði við framkvæmd álagningar og innheimtu opinberra gjalda og þá ekki hvað síst hér í Reykjavík, þar sem allmargir tekjulitlir gjaldendur greiða nú engan annan skatt en sóknargjald.

Breytingin, sem felst í þessu frv., er sú að horfið er frá því að leggja sóknargjöld á sem nefskatt, en í stað þess á það að leggjast á sem ákveðinn hundraðshluti af útsvari gjaldanda. Kosturinn við þessa tilhögun er sá að hún tryggir sjálfkrafa hækkun á sóknargjöldum í samræmi við hækkun á verðlagi og í samræmi við útgjöld safnaðanna og nemur auk þess af það óhagræði sem fylgt hefur innheimtu þessa nefskatts.

Í frv. er sem sagt gert ráð fyrir því að sóknargjöld verði framvegis greidd aðeins af útsvarsgjaldendum og að gjaldið nemi ákveðnum hundraðshluta af útsvari, 1%, en getur þó undir vissum kringumstæðum verið heimilað að hækka það í 11/2%. En jafnframt er tekið fram að jafnan skuli þó gjaldandi sóknargjalds greiða tiltekna lágmarksfjárhæð, 600 kr. fyrir einstakling og 1000 kr. fyrir hjón.

Kirkjuþing hefur fjallað um þessi mál og þar var samþ. frv. um þetta efni. Það frv., sem hér er nú lagt fram, er í meginatriðum sniðið eftir því frv. sem Kirkjuþing gekk frá á sínum tíma, a. m. k., eins og ég sagði, í öllum aðalatriðum. En það eru þó gerðar á því nokkrar hreyt. og þær breyt. miða helst í þá átt að það er gengið nokkru skemmra í gjaldheimtunni en gert var ráð fyrir í frv. því sem afgr. var á Kirkjuþingi.

Þetta frv., er auk þess að vera sniðið í meginatriðum, eins og sagt var, eftir frv. því sem Kirkjuþingið samþ. á sínum tíma, samið af dóms- eða kirkjumrn. og fjmrn., þ. e. a. s. að menn frá báðum þeim rn. hafa um það fjallað og gert þær breyt. á því, eins og það kom frá Kirkjuþingi, sem eðlilegra þótti og þóttu horfa til nokkurs hagræðis. Í aths. þeim, sem fylgja frv., er gerð grein fyrir þessum breyt., í athugasemdum við einstakar gr., og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv, menntmn.