10.02.1976
Neðri deild: 52. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

148. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. sjútvrh. sagði áðan, hefur þetta mál átt sér nokkurn aðdraganda og þm. verið lengi kunnugt hvað til stóð, og þeir hafa fengið mjög nákvæmar upplýsingar um það sem hér býr að baki. M. a. hafa sjútvn. beggja d. átt fundi með n. þeirri sem samdi þær till. sem frv. þetta grundvallast á, þannig að ég býst við að þm. séu nokkuð vel heima í efni þessa máls og því ætti ekki að geta tekið langan tíma að afgreiða það héðan úr þinginu.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram, eru frv. þessi bæði, sem eru á dagskrá þessa fundar, byggð á till. n. þeirrar sem hann setti í haust til þess að endurskoða sjóðakerfi sjávarútvegsins. Í þessari n. áttu sæti fulltrúar hagsmunaaðila, m. a. þeir sem nú sitja sitt hvoru megin við samningaborðið. Fullt samkomulag tókst á milli þessara aðila um efnisatriði í nál. sem frv. þetta er byggt á, og ber því að líta svo á að hér sé um samkomulagsatriði milli hagsmunaaðila í sjávarútvegi að ræða. Hér er raunar um að ræða, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., nokkurs konar forsamning að þeim kjarasamningum sem yfir standa. Á þann veg hygg ég að Alþ. verði að líta á þetta mál, og það er mjög varhugavert að gera umtalsverðar breytingar á efni frv. sem þannig er til komið. Að sjálfsögðu ber að athuga einstakar gr. mjög vendilega í meðförum sjútvn., en ég legg áherslu á það, að ég tel mjög varhugavert að breyta mjög út frá efni frv. sem samkomulag hefur orðið um milli hagsmunaaðila í sjávarútvegi.

Þá finnst mér einnig rétt að taka það fram, þó að ég eigi sæti í þeirri n. sem fær þetta mál til meðferðar og geti fjallað um það nánar þar, að ég er meginstefnu þessara frv. samþykkur. Ég var einn af þeim stjórnarandstæðingum sem vöruðu mjög við því á síðasta Alþ. hversu hættulegt væri að byggja upp svo öflugt millífærslukerfi innan sjávarútvegsins, þetta sjóðakerfi væri komið á mjög hættulegt stig og bæri brýna nauðsyn til að taka það til endurskoðunar og reyna að vinda ofan af því aftur.

Það er að sjálfsögðu alveg ljóst, að þegar búið er einu sinni að byggja upp jafnöflugt millifærslukerfi í sjávarútveginum og gert hefur verið, þá getur verið nokkrum erfiðleikum háð að afnema það, enda hygg ég að ekki séu allir í útvegi á einu máli um það, að rétt sé að gera það sem hér er verið að gera, þó svo að meiri hl. útvegsmanna og sjómanna sé þeirrar skoðunar. En ég tel að það sé miklu heilbrigðara ástand að hafa ekki slíkt millifærslukerfi í sjávarútvegi heldur en hafa það og vil fyrir mitt leyti stuðla að því að það verði afnumið, m. a. með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Eins og ég sagði áðan, þá þarf að sjálfsögðu að athuga ýmsar gr. þessara frv. beggja nánar í meðförum n., en á þessu stigi málsins get ég lýst mig sammála meginatriðum frv. beggja.