12.02.1976
Neðri deild: 56. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1868 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

113. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. minni hl. (Vilborg Harðardóttir):

Forseti. Hv. þm. hafa nú heyrt álit meiri hl. iðnn. sem er samþykkur frv. Ég er ein í minni hl. og hef lýst mig andvíga frv. og hef meira en lítið við það að athuga.

Frv. var til meðferðar á þremur fundum n. Þrátt fyrir lengd sína er það að mínu mati bæði óskýrt og yfirborðskennt og lagði ég því fyrir hönd Alþb. á fyrsta nefndarfundinum fram nokkrar spurningar varðandi viðskipti álversins við íslenska aðila, þ. e. a. s. um orkusölu til þess, skattgjaldsgreiðslur þess og mengunarvarnir, og óskaði eftir útreikningum Þjóðhagsstofnunar. Ekki fékkst í n. samþykki fyrir því, að Þjóðhagsstofnun annaðist útreikninga, en þess í stað var Garðari Ingvarssyni hagfræðingi, sem unnið hefur að breytingunum á álsamningnum með viðræðunefnd um orkufrekan iðnað, falið að svara spurningum sem snertu orkusölu og framleiðslugjald, en heilbrn. þeim er vörðuðu hreinsibúnað. Einnig gáfu forustumenn Náttúruverndarráðs og verkfræðingur Heilbrigðiseftirlitsins upplýsingar um mengunarvarnir eða öllu heldur skort á slíku er þeir mættu á fundi nefndarinnar.

Þótt heita eigi, að um frv. hafi verið rætt á þremur fundum iðnn., tel ég langt frá að um það hafi verið fjallað til hlítar. Mörgum spurningum um þetta mál er enn ósvarað, bæði sumum þeirra, sem lagðar voru fram, og öðrum, sem nm. komu ekki í hug þá, e. t. v. vegna þess hraða sem áhersla var lögð á að hafður væri við afgreiðslu frv. gegnum n. Hlýt ég reyndar að átelja slíkan afgreiðslumáta í jafnveigamiklu máli. En svo langt var gengið að reynt var að þrýsta frv. í gegnum n. á einum nefndarfundi sem haldinn var daginn eftir að mælt var fyrir frv. í d., og áttu nm. þá að vera búnir að kynna sér öll atriði málsins.

Meðal þess, sem aldrei bar á góma í n., var t. d. staða Hafnarfjarðarbæjar í þessu sambandi, en þótt bærinn sé stór aðili að álsamningnum og eigi þarna mikilla hagsmuna að gæta var algerlega gengið fram hjá bæjarráði Hafnarfjarðar við endurskoðun samningsins. Einnig var gengið fram hjá Náttúruverndarráði og áttu fulltrúar þess sjálfir frumkvæði að fundum með nefndinni.

Eitt þeirra atriða, sem þurft hefði að upplýsa í sambandi við skoðun þessa máls í n., er raunveruleg rekstrarstaða álfyrirtækisins í Straumsvík, en sem kunnugt er er það sagt rekið með tapi og hefur þannig skv. fyrri samningi myndað skattinneign og það svo háa árin 1973 og 1974, að fyrrv. iðnrh. og núv. iðnrh. sáu ástæðu til að fara fram á endurskoðun reikninga fyrirtækisins. Sú endurskoðun varð að vinnast af svokölluðum viðurkenndum endurskoðendum, alþjóðlega viðurkenndum endurskoðendum, og var leitað til slíkra í London.

Að því er fram kemur í svari við spurningum Alþb. um, hvaða deilur hafi verið milli Álfélagsins og stjórnvalda varðandi útreikninga á skattgjaldi, var við endurskoðun reikninganna einkum athugað hvort viðskipti ÍSALs við móður- og systurfyrirtæki væru í samræmi við ákvæði samningsins um að slík viðskipti skyldu verða með sama hætti og tíðkast milli óskyldra aðila. Endurskoðunin 1973 gaf ekki tilefni til aths., segir í svarinu, en endurskoðunin 1974 leiddi til ágreinings um kaupverð á súráli. „Túlkuðu aðilar samningsákvæðin á mismunandi hátt,“ segir orðrétt í svarinu, og hætt er við að fleiri muni þau atriði vera sem aðilar túlka á mismunandi hátt ef til kastanna kemur. T.d. kom fram hjá Hirti Torfasyni, sem vann með viðræðunefnd um orkufrekan iðnað og kom á fund hjá iðnn., að mismunandi túlkun aðila er á því hvernig og hvenær skattinneignin greiðist í lokin.

Að því er ég hef næst komist hafa niðurstöður umræddrar endurskoðunar á reikningum ÍSALs hvergi birst opinberlega, og hljóta þm. að fara fram á að fá nánari upplýsingar varðandi þetta atriði. Það hefði ég reyndar sjálf gert í n. ef tækifæri hefði gefist til og reyndar viljað fá mun nákvæmari skýringar á ýmsum atriðum en gefnar voru í svörunum. En meðnm. mínir höfðu því miður ekki áhuga á að fara nánar í þessi atriði, heldur vildu samþ. drögin strax og vísuðu til að ég gæti gert mínar aths. í nál. og á deildarfundi. Verð ég enn að harma slíka flaustursafgreiðslu, en vonast jafnframt til að hv. þm. Ed. og iðnn. þeirrar d. liggi ekki alveg eins mikið á og leyfi nánari skoðun.

Það er vissulega til bóta, að í þessum nýju samningsdrögum er stuðst við fyrri hrapallega reynslu og ekki tekið tillit til bókhaldslegs taps hjá fyrirtækinu ÍSAL sem er deild í auðhringnum Alusuisse, en áður voru íslendingar hvað skattgjaldið snertir háðir geðþótta hringsins, þ. e. a. s. hvernig honum þóknaðist að hagræða afkomu deildarinnar á Íslandi. Þetta kemur glöggt í ljós á því, að á starfstíma ÍSALs hefur fyrirtækið með framleiðslugjaldsgreiðslum sínum í rauninni aðeins verið að lána íslendingum fé, þannig að eftir fyrstu 6 starfsárin nemur skattinneign þess hærri upphæð en samanlagðar framleiðslugjaldsgreiðslur fyrirtækisins allan tímann, — hærri upphæð. Framleiðslugjaldsgreiðslur nema skv. upplýsingum ríkisbókhaldsins samanlagt árið 1970 til 1. nóv. 1975 rúmlega 617 millj. kr., en skattinneignin 748 millj. kr. skv. gengi í árslok 1975. Þetta kemur fram annars vegar í grg. með frv., á bls. 27, þar sem segir að inneignin fram til 1. okt. 1975 nemi 4.4 millj. dollara, og hins vegar í margnefndum svörum Garðars Ingvarssonar hagfræðings fyrir hönd viðræðunefndar um orkufrekan iðnað skv. bréfhausnum, — svörum við spurningum Alþb., en þar kemur fram að framleiðslugjaldsgreiðslur hafa verið sem hér segir, með leyfi forseta, þetta er skv. upplýsingum ríkisbókhaldsins:

„Árið

1970

41136057

kr.

1971

66 968 277

1972

52 989 912

1973

90 222 992

1974

256 192 446

1975

fram að 1. nóv. 119 726 338 kr.

Samanlagt rúmlega 617 millj. kr.“

Ég ætla aðeins að halda áfram í sambandi við myndun inneignarinnar. Um hana segir svo:

„Framleiðslugjaldsinneign Álfélagsins myndaðist einkum á árunum 1973 og 1974. Ástæðan var sú, að verð á áli hækkaði mjög verulega, einkum 1974, en framleiðslugjaldið hækkar um 7 dollara fyrir hvert 1 cent sem skráð heimsmarkaðsverð á áli hækkar. Skv. samningum skal félagið ekki greiða meira framleiðslugjald en nemur 50% af hagnaði. Þó skal framleiðslugjald aldrei vera lægra en 235 þús. á ári. Vegna hækkandi framleiðslukostnaðar á undanförnum árum hefur hagnaður ekki aukist til jafns við hækkað álverð og því hefur 50% hámarksreglan orðið til að mynda inneign félagsins. Á yfirstandandi ári“ — þ. e. a. s. árið 1975 — „hefur félagið verið rekið með verulegu tapi, þannig að jafnvel lágmarksframleiðslugjaldsgreiðsla hefur orðið til þess að mynda inneign.“

Þetta verulega tap 1975 nýtist nú forsvarsmönnum álversins ekki aðeins til skattinneignar fyrir meiri hluta þess árs, heldur kemur sér einnig bærilega í yfirstandandi kjarasamningum, enda óspart notað í viðræðum við fulltrúa verkamannanna og iðnaðarmannanna sem hjá fyrirtækinu starfa, hef ég fregnað. Nokkrir hafa þegar verið látnir hætta störfum, enda hefur atvinnurekendum löngum þótt þægilegt að semja með atvinnuleysisógnunina að vopni.

Varðandi framleiðslugjaldið er það tvennt sem ég tel mjög ámælisvert í þessum samningsdrögum. í fyrsta lagi, að þessi svonefnda skattinneign skyldi ekki vera strikuð út, heldur skuli þetta fært áfram sem eins konar lántaka íslenskra opinberra aðila frá auðhringnum og endurgreiðast með tiltölulega háum vöxtum. Í öðru lagi, hvernig samið var um stighækkun framleiðslugjalds eftir álverði. Í fskj. frv. kemur fram að gert er ráð fyrir verðbólguhækkun á áli og kann það út af fyrir sig að vera raunhæft, en hins vegar á framleiðslugjaldið ekki að hækka í sama hlutfalli, heldur í sílækkandi prósentu af hlutfallslegri hækkun álverðsins. Með þessu móti verður framleiðslugjaldið síminnkandi byrði fyrir auðhringinn eftir því sem almennt verðlag stigur, en að sama skapi minnkandi tekjur fyrir íslendinga í raunverulegum verðmætum. Um þetta geta hv. þm. sannfærst með því að líta á bls. 26 í frv. sem liggur fyrir framan þá, en þar er í aths. sýnd tafla þar sem þetta kemur glöggt í ljós. Þar segir, með leyfi forseta:

„Frá 1. jan. 1978 til 1. okt. 1994 fylgir orkuverðið álverði þannig:

Álverð 40 cent eða minna (það er miðað við cent á pundið) 1%, þó ekki undir 3.5 mill. 40–50 0.85% af viðbót. 50–60 0.70% af viðbót. 60–70 0.55% af viðbót. Yfir 70 0.40% af viðbót.“

Og ef hv. þm. vildu síðan fletta á bls. 30 sést útkoman. Tökum t. d. töluna 40 cent fyrir álpundið. Þá er framleiðslugjaldið 20 dollarar á tonnið, en 80 centa álverð gefur aðeins 35 dollara framleiðslugjald, en ekki helmingi hærra eins og ætla mætti.

Alls staðar í útreikningum í þessu frv. gefa semjendur sér að ál hækki um 2.5% á ári. En hvaðan fá þeir þá tölu og hvað felur hún raunverulega í sér? Talan stendur þarna algjörlega ein án tillits til annarrar verðþróunar, enda varla fært neinum að fullyrða að ál muni hækka né hafi hækkað u.m 2.5% umfram aðra vöru, svo að ekki er hægt að taka þessa hækkun nema sem hluta af almennri verðbólguhækkun. Á sama hátt má reikna hver sé líkleg prósentuhækkun á verðlagi rafmagns á heimsmarkaði nú eða hér innanlands, þar sem það mun fyrirsjáanlega hækka allmikið með nýjum og dýrari virkjunarframkvæmdum, fyrir utan almenna verðbólgu. Í þessu sambandi má benda á upplýsingar um framleiðsluverð á rafmagni sem fram koma í viðtali við Jakob Björnsson orkumálastjóra í jólablaði Þjóðviljans 1975, en þar segir hann m. a., með leyfi forseta:

„Búrfellsvirkjun er okkar langstærsta orkuver til þessa, tekið í notkun á árunum 1969-1972. Það er 240 mw að afli, en orkuframleiðslan í fyrra nam 1437 gwst. Sogsvirkjanirnar allar þrjár eru samtals 89 mw. og framleiddu í fyrra 558 gwst. rafmagns. Byrjað var að virkja við Sog fyrir um 40 árum og síðasta samstæðan tekin í notkun fyrir 12 árum. Virkjanirnar við Búrfell og Sog eru í eigu Landsvirkjunar sem einnig rekur varastöðvar í Reykjavík og í Straumsvík. Skv. reikningum Landsvirkjunar í fyrra nam heildarkostnaður fyrirtækisins á hverja framleidda kwst. þá tæpum 60 aurum að meðaltali, en vitanlega segir sú stærð ekki mikið í samanburði við einingarverð frá orkuverum, sem síðar eru byggð, vegna allt annars verðlags á byggingartíma.

Vatnsaflsstöðin við Sigöldu verður 150 mw. að afli og árleg orkuvinnslugeta á að nema 850 gwst. Gert er ráð fyrir að kwst. komi út með 1.80 kr. Jarðgufustöðin við Kröflu verður 70 mw. eftir nýjustu ákvörðunum og árleg orkuvinnsla talin geta orðið 580 gwst. Kostnaðarverð hverrar kwst. er metið 1.70–1.80 kr. Þessi tala er nokkuð óviss þar eð óvíst er hver rekstrar- og viðhaldskostnaður verður sökum þess að reynslu skortir enn af rekstri sambærilegra stöðva hérlendis.

Fyrirhuguð virkjun við Hrauneyjarfoss á að verða 230 mw. og árleg orkuvinnsla 950 gwst. Kostnaður á kwst. þar yrði svipaður og frá Sigöldu“ — en hann hafði sagt að kostnaðurinn við Sigöldu yrði 1.80 kr. — “ miðað við sama verðlag á byggingartíma. Framkvæmdir við Þórisvatn eru þá ekki að neinu leyti teknar með reiknuðum kostnaði þar og ekki heldur við Sigöldu, heldur falla þær allar á Búrfellsvirkjun.

Ég skal þá nefna þessar helstu stærðir fyrir þrjár virkjanir sem nokkuð eru í umtali og er þá farið eftir lauslegum áætlunum. Virkjun í Blöndu: 135 mw., árleg orkuvinnsla 800 gwst. kostnaðarverð 1.56 kr. á kwst. Virkjun við Villinganes í Skagafirði: 32 mw., árleg orkuvinnsla 175 gwst., kostnaðarverð 2.18 kr. á kwst. Dettifoss: L61 mw., 1140 gwst., 1.41 kr. á kwst.

Þess ber að geta“, segir orkumálastjóri að lokum, „að ofangreindar tölur gefa ekki tæmandi samanburð milli orkuveranna þar eð hlutfallið milli árlegrar vinnslugetu og uppsetts afls (svonefndur nýtingartími uppsetts afls) er ekki hið sama í öllum dæmunum. Kostnaður á orkueiningu er mjög háður þessum nýtingartíma.“

Þar með er rétt að snúa sér að raforkuverðinu til þessa erlenda fyrirtækis sem seld er orka á lægra verði en nokkrum innlendum aðila, einkaneytendum eða iðnfyrirtækjum, enda finnst almenningi óneitanlega oft sem það sé stefna ríkisstj. að virkja meira og meira til þess eins að geta séð erlendum orkufrekum iðnaði fyrir meira og ódýrara rafmagni. Látið er í veðri vaka að með því að setja svo og svo mikið til útlendinga sé verið að halda rafmagnsverðinu niðri fyrir okkur sjálf. En hver sér slíks merki? Mér er spurn. Ekki ber á öðru en rafmagnsverð til almennra neytenda hækki í sífellu.

Samningsdrögin fela í sér að í stað orkuverðsins 3 mill á kwst., sem gilti fyrstu 6 ár starfstímans, kemur lágmarksverðið 3.5 mill frá 1. jan. 1978 og hreyfist til hækkunar með nokkru tilliti til álverðs, en nú um tveggja ára skeið eiga að gilda sérstakar reglur. Þess má geta, að hér sem víðar er reynt að slá ryki í augu og í frv. talað um nýtt orkuverð frá 1. okt. 1975, og í svörunum til iðnn. er gengið svo langt að tala um hækkun 1. okt. og meira að segja reiknaðar prósentur út frá því, þótt í rauninni sé um að ræða óbreytt verð frá 1. okt. til 1. jan. frá því sem verið hefur öll 6 árin, 3 mill. Þótt verðið hafi skv. fyrri samningi átt að lækka 1. okt. og ekki gert það skv. þessu, er samt alls ekki hægt að tala um hækkun, þar sem ekki er um hækkun að ræða, og síst að reikna prósentustigshækkun út frá því. En þetta er bara smádæmi um vinnubrögðin. Hitt er varhugaverðara og athugaverðara, að hækkunin úr 3 í 3.5 mill er allt of lítil og ekki í nokkru samræmi við almenna hækkun á framleiðslukostnaði orku, hvort sem litið er til heimsmarkaðar eða ástands mála á íslenska raforkumarkaðnum, eins og fram kom áðan í því sem ég hafði eftir orkumálastjóra.

Eðlilegast hefði að sjálfsögðu verið að í orkusamningnum hefði verið tekið tillit til síhækkandi framleiðslukostnaðar í föstum verðmætum á rafmagni frá íslenskum orkulindum, sem stafar af því að taka verður til hagnýtingar æ óhagkvæmari virkjunarkosti eftir því sem tímar líða fram. En þetta er ekki gert og engin, alls engin ákvæði eru um endurskoðun raforkuverðsins á samningstímanum. Er það hreint og beint hneykslanlegt miðað við aðstæður allar.

Um raforkuverðið gildir einnig sama röksemd og getið var í sambandi við framleiðslugjaldið, þar sem orkuverð hækkar um síhækkandi hlutfall af hækkun álverðs. Þetta er kannske svolítið flókið að skilja, en svona er þetta nú samt. Þetta sést í athugasemdunum með frv., á bls. 26 neðst, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Álverð og orkuverð“ — fyrirgefið, ég hef víst lesið þetta áðan, ég ætla nú samt að endurtaka það: „40 cent eða minna 1% hækkun, þó ekki undir 3.5 mill. 40–50 cent 0.85% af viðbót. 50–60 cent 0.70% af viðbót. 60–70 0.55 af viðbót. Yfir 70 0.40 af viðbót.“

Ég sé að ég hef ruglast hér áðan, ég verð þá að leiðrétta það, að þegar ég var að lesa um framleiðslugjaldið, þá var það reyndar annars staðar, á bls. 27. Það er best að ég endurtaki það þá líka til að leiðrétta þetta. Þar er álverðið miðað við cent á pund 40–50, taxtahækkun í dollurum á tonn 90%, 50–60 80%, 60–70 70%, yfir 70 60%. Það er sem sagt notuð sama regla.

Ef við lítum á bls. 31, þá sést að ef álverðið er 40 cent á pundið, þá verður útkoman úr dæminu á sama hátt og ég reiknaði út áðan úr framleiðslugjaldsdæminu. Ef álverðið er 40 cent á pundið og síðan 80 cent, þá gefur 40 centa álverðið orkuverðið 4 mill á kwst., en 80 centa álverðið ekki nema 6.51 mill.

Það er rétt að geta þess hér til fróðleiks fyrir hv. þm. og ekki síst fyrir almenning, þótt það komi kannske ekki þessum samningsdrögum beinlínis við, hvert er hlutfall orkunotkunar Straumsvíkurverksmiðjunnar í heildarnotkun landsins. Í ritinu Orkumál er sýnd í myndriti skipting orkunnar milli helstu flokka notenda árið 1974, og þar kemur fram að notkun álverksmiðjunnar er hvorki meira né minna en 52.5% af heildinni, almenn notkun er 38.1% og það, sem kallast þar önnur notkun, þ. e. a. s. notkun Áburðarverksmiðjunnar, Sementsverksmiðjunnar og Keflavíkurflugvallar, er 94%. En myndin af hlutfalli í heildargreiðslunum fyrir þessa sömu raforku er heldur betur öðruvísi. Fyrir almenna notkun voru greiddar 2935 millj. kr., álverksmiðjan greiddi 359 millj. kr. og fyrir aðra notkun var borguð 181 millj. Almennir notendur, sem fengu 38.1% orkunnar, greiddu hvorki meira né minna en 84.4% greiðslnanna. Þeir sem flokkast til annarra notenda og ég nefndi áðan, greiddu fyrir sín 9.4% 5.3% verðmætisins, en álverksmiðjan, sem notar meira en helming allrar okkar orku eða 52.5%, greiddi aðeins 10.3% heildarupphæðarinnar. Meðalverð raforku á kwst. árið 1974 frá Landsvirkjun til þeirra, sem kaupa í heildsölu, var svo sem segir í svörum við spurningum Alþb., til Álfélagsins 31 eyrir á kwst., til allra annarra kaupenda, að almenningsveitum meðtöldum, 132 aurar á kwst., til almenningsveitnanna 154 aurar á kwst.

Samningsdrögin fela í sér heimild til stækkunar og eiga öll þau ákvæði, sem gilda um núverandi verksmiðju, einnig að gilda um þessa viðbót. Í þessu sambandi er sérstaklega athyglisvert að viðbótarsmiðjan á að fá raforku á sama verði og eldri verksmiðjan. Samkv. fyrirliggjandi orkuáætlun svokallaðs fjórða áfanga er gerður greinarmunur á fastbundnu rafmagni eða forgangsorku og rjúfanlegu rafmagni eða afgangsorku. En sé nánar skoðað kemur í ljós að hér er raunverulega ekki um neina afgangsorku að ræða í venjulegum skilningi þess orðs, þar sem Landsvirkjun má að jafnaði ekki rjúfa afhendingu afgangsorkunnar nema um sé að ræða vatnsskort eða truflanir í veitukerfinu, auk óviðráðanlegra afla. Afhendingarskilmálar afgangsorkunnar eru því a. m. k. eins harðir og þeir skilmálar sem nú gilda um orkusölu gagnvart þeim íslensku aðilum sem mestan forgang hafa til raforku frá orkuverum Samkv. þessu eru afhendingarskilmálarnir enn harðari á forgangsorkunni til viðbótarverksmiðjunnar og skilmálarnir um raforku til eldri verksmiðjunnar eru væntanlega jafnharðir. Það má sem sagt ekki rjúfa rafmagn til álversins, jafnvel þótt vatnsskortur sé við orkuver Landsvirkjunar eða truflanir í veitukerfinu. Það eru innlendir notendur sem þá eiga að bera skellinn.

Athyglisvert er að enginn greinarmunur er gerður á verði forgangsorkunnar og afgangsorkunnar, enda þótt tilraun sé gerð í fylgiskjölum til að láta líta svo út. Og undan spurningu Alþb. um verðið á afgangsorkunni samkvæmt nýja samkomulaginu er farið í flæmingi. Svarið er svo hljóðandi: „Við útreikning á forgangsorkuverðinu hefur verið notað sama verð á afgangsorkunni eins og samið hefur verið um til járnblendiverksmiðjunnar.“ Engin tala nefnd. Hún er hvergi nefnd í frv. heldur og varla er það tilviljun. Sé reynt að reikna þetta dæmi út samkv. þeim loðnu skýringum sem grg. gefur, efst á bls. 28, kæmu út úr dæminu 0,5–0,6 mill. þ. e. a. s. tvö fyrstu árin. En slíkt dæmi þarf bara alls ekki að reikna því að hér er alls ekki um neina afgangsorku að ræða í venjulegum skilningi. Til þess eru afhendingarskilmálarnir allt of harðir.

Afgangsorkan til viðbótarsmiðjunnar í Straumsvík er afhent með harðari skilmálum en sjálf forgangsorkan til málmblendiverksmiðjunnar samkv. samningnum um bana. Um afhendingu orkunnar til málmblendiverksmiðjunnar segir svo í samningnum um hana, með leyfi forseta, og skal bent á að hér er ekki notað orðalagið .,forgangsorka“ eða „afgangsorka“, heldur „tryggður grundvöllur“ og „ótryggður“. Hér kemur tilvitnunin í málmblendisamninginn :

„Orkan á ótryggða grundvellinum á að afhendast þannig, að á engu einstöku ári má orkuafhending fara niður fyrir 153 gwst. eða 50% af því hámarki sem verksmiðjan getur tekið af slíkri orku. Enn fremur er tiltekið að afgangsorkusalan megi ekki á neinu samfelldu 4 ára tímabili fara niður fyrir 734 gwst., sem jafngildi árlegu meðaltali um 60% af áðurnefndu hámarki. Og að síðustu er tekið fram að orkuafhendingin fari ekki niður fyrir 80% að meðaltali yfir samningstímabilið sem er 20 ár.

Um þessa skilmála má segja það, að þeir eru innan þeirra marka sem Landsvirkjunarkerfið með Sigöldu getur annað, þó að miðað sé við að öll forgangsorka sé seld í kerfinu. Þetta á þó ekki við um 50% trygginguna í einstöku ári, en á því eru 5% líkur samkvæmt útreikningum að ekki sé hægt að standa við hana, ef miðað er við fullnýtt kerfi. Hér kemur hins vegar á móti, að meiri hluti tímans er einhver óseld forgangsorka til í kerfinu og má líta á slíka orku sem afgangsorku. Einnig eru þurrkar og ísar taldir til óviðráðanlegra afla og er Landsvirkjun í slíku tilfelli heimilt að skerða forgangsorkusöluna líka.

Það er látið hjá líða að skilgreina þurrka og ísa í samningsdrögum þessum og verður það að teljast Landsvirkjun í hag, þar sem með því móti virðist Landsvirkjunin hafa skilgreiningu þessa töluvert mikið á eigin hendi.“ Ég bið hv. þm. að taka vel eftir þessu atriði. — „Af framansögðu er því ljóst, að óhætt virðist vera fyrir Landsvirkjun að gera ofangreindan samning um afgangsorkusöluna hvað öryggi afhendingarinnar snertir.“

Ekkert ákvæði sambærilegt því síðasta er í samningsdrögunum um álverksmiðjuna, en ég ætla að lesa það upp líka svo að hv. þm. megi heyra hve miklu harðari skilmálarnir eru þar, með leyfi forseta:

„Að áskildu því, sem mælt er í neðanskráðum ákvæðum þessarar bókunar, skal Landsvirkjun heimilt hvenær sem er og á hverjum tíma að skerða eða rjúfa algjörlega afhendingu afgangsrafmagns, svo fremi að sú skerðing eða rof minnki eigi þá afgangsorku, sem tiltæk verði í heild á neinu einu almanaksári, niður fyrir 50% þeirrar árlegu afgangsorku sem tilgreind er í 1. málsgr. bókunar þessarar, að afgangsorka sú, sem tiltæk verði í heild á hverju samfelldu 4 ára tímabili, sé eigi minni að magni en 254 gwst., og að afgangsorka sú, sem tiltæk verði í heild á fyrstu 20 árunum eftir AR IV, sé eigi minni að magni en 1696 gwst.

Landsvirkjun mun yfirleitt eigi beita skerðingu“ — takið eftir: „Landsvirkjun mun yfirleitt eigi beita skerðingu eða rofi samkv. 2. málsgr. nema um sé að ræða: a) vatnsskort við orkuver hennar eða b) truflanir í hinu samtengda veitukerfi hennar og óviðráðanleg öfl. Landsvirkjun mun veita ÍSAL aðvörun um það með þeim fyrirvara, sem við verður komið hverju sinni, hvenær ætla má að skerðing eða rof sé yfirvofandi og hvað ætla megi um hversu viðtækt og langvinnt það ástand verði. Ef vatnsskortur veldur skal fyrirvarinn eigi vera skemmri en einn mánuður, en í öðrum tilvikum skal hann eigi skemmri en ein klukkustund ef mögulegt er. Eftir að lokatilkynning um skerðingu eða rof hefur verið gefin skal ÍSAL minnka álag hjá sér þegar í stað, og ber að telja upphaf skerðingar eða roftíma afgangsrafmagnsins frá þeim tíma. Skerðingar- eða roftímabili skal talið lokið strax og lokatilkynning hefur verið gefin þar að lútandi. Lokatilkynningar samkvæmt framanskráðu má gefa munnlega, enda séu þær síðan staðfestar skriflega.

Takmörkun á afhendingu afgangsrafmagns vegna skerðingar eða rofs skal eigi vera meiri en hlutfallsleg takmörkun afhendingar á sams konar rjúfanlegu rafmagni til annarra kaupenda en ÍSALs.

Sé skerðingu eða rofi beitt vegna vatnsskorts við orkuver Landsvirkjunar, er aðilum heimilt að óska þess, að afhendingu og notkun þeirrar föstu orku, sem áformað er að afhenda á skerðingartímunum, verði komið fyrir með þeim hætti sem veitir bræðslunni hagstæðust rekstrarskilyrði. Slíkt fyrirkomulag er háð gagnkvæmu samþykki.“

Það er athyglisvert í þessu sambandi og segir sína sögu, að það er verkfræðideild Landsvirkjunar sem stendur að því að semja um afhendingarskilmálana á rafmagni til málmblendiverksmiðjunnar, og dómur hennar er sá, að orkuafhendingarkvöðin sé innan marka sem hæfileg geta talist. Verkfræðideildin sem slík kemur hins vegar ekki nærri samningnum um afhendingarskilmálana til Straumsvíkur, hennar dóms er greinilega ekki óskað þar, né heldur leggur hún blessun sína yfir. Varla tilviljun — eða hvað?

Með þessum samanburði á afhendingarskilmálunum ætti að vera ljóst að í rauninni er öll raforkusalan til Straumsvíkur og þar með einnig til fjórða áfanga samanburðarhæf við forgangsorkusöluna til málmblendiverksmiðjunnar. Samkvæmt gildandi samningum málmblendiverksmiðjunnar er forgangsorka seld á u. þ. b. 10 mill og er það sagt vera eðlilegt heimsmarkaðsverð á raforku til nýrra iðjuvera. Sé orkan til fjórða áfanga í Straumsvík reiknuð á slíku verði er niðurstaðan sú, að orkan til gömlu smiðjunnar er áfram seld á 3 mill. eða óbreyttu verði frá því sem nú er.

Í fylgiskjölum með frv. er hvergi að því vikið, hvaða verð væri eðlilegt á rafmagni til hins stækkaða álvers, þ.e a.s. til fjórða áfanga eins. Augljóst er að ábyrgðarmenn fjármagnsins hjá Alusuisse hljóta í sínum útreikningum að greina orkukaupin til Straumsvíkuriðjuversins sundur í tvo þætti: Annars vegar er orkan til þeirrar smiðju sem nú stendur þar og um var samið 1966–67 og 1969. Hins vegar er orkan til þeirrar viðbótarsmiðju sem æt1unin er að reisa þar á næstu missirum.

Alusuisse-mennirnir eru auðvitað ófúsir að greiða hærra rafmagnsverð til gömlu smiðjunnar. Það reiknast sem nýr kostnaðarauki á fjármagn sem ætlað er að skili í framtíðinni ekki minni arði en í fortíðinni. Varðandi nýju smiðjuna hugsa Alusuissarar sem svo: Á byggingartíma hennar gildir ákveðið heimsmarkaðsverð á raforku til nýrra iðjuvera. Í samningum getum við leyft okkur að fara upp að því marki, þótt æskilegra sé auðvitað að vera neðan heimsmarkaðsverðs nú sem áður í skiptum við íslendingana. Einhverju verði hljótum við þó að kaupa þessa heimild til stækkunar sem við sækjumst eftir. Spurningin er, hvort við sleppum við að greiða hærra verð fyrir rafmagnið til gömlu smiðjunnar. Séu íslendingar ekki orðnir þeim mun slyngari í viðskiptum, þá tekst okkur það.

Svona hljóta sem sagt hinir svissnesku viðsemjendur okkar að hugsa. Og nú þarf að reikna út úr þessu dæmi samkv. fyrirliggjandi samningsdrögum. Svissarar eru áreiðanlega búnir að því fyrir sig, og nú skulum við gera það fyrir okkur.

Fyrst þarf að gæta að því, hvert muni vera viðunandi heimsmarkaðsverð á raforku til nýrra iðjuvera um þessar mundir og hvernig á að fara með svonefnda afgangsorku í þessu sambandi.

Vitnað var hér að framan til orkusölusamningsins til málmblendiverksmiðjunnar og sýnt fram á að allt rafmagnið til fjórða áfanga í Straumsvík á í reynd að afhenda með forgangssölukjörum. Rétt er því að miða við gangverð á forgangsorku. En hvert er það gangverð? Enn kemur málmblendisamningurinn okkur til hjálpar, því að af fylgigögnum hans sést að verðið 10 mill á kwst. muni vera hæfileg viðmiðun í þessu sambandi — 10 mill á kwst. til nýrrar stóriðju sé eftir atvikum sæmilega gott heimsmarkaðsverð á þessum missirum.

Í fylgiskjölum fyrirliggjandi frv. kemur fram það mat, að um það bil sem fjórði áfangi yrði tekinn í notkun í Straumsvík verði einingarverð á rafmagni til allrar bræðslunnar, þ. e. 1.–4. áfanga, gömlu smiðjunnar, sem nú stendur þar, og hinnar nýju sem ráðgert er að reist verði samkv. frv., — einingaverðið muni þá standa í u. þ. b. 4.43 mill, og er þá miðað við að álverð verði af verðbólguvöldum eða annars orðin nokkru hærra en það er nú.

Setjum okkur nú aftur í spor Alusuissara og spyrjum: Ef við reiknum svona fyrir sjálfa okkur allt rafmagnið til nýju smiðjunnar á 10 mill, hvert er þá eiginlega verðið sem við greiðum fyrir rafmagnið til gömlu smiðjunnar?

Þetta er einfalt reikningsdæmi sem hægt er að leysa án nokkurra hjálpargagna, og ég er viss um að margir hv. samþm. mínir geti reiknað það í huganum, ef ég gef þeim upp að orkunotkun gömlu smiðjunnar sveiflast í kringum 1100 gwst. á ári, en orkunotkun nýju smiðjunnar, fjórða áfanga, verði 176 gwst., eins og fram kemur í fyrirliggjandi samningsdrögum. Útkoman úr þessu dæmi er mjög fróðleg. Hún er sú, að rafmagnsverðið til gömlu smiðjunnar sé 3 mill — eða óbreytt frá því verði sem gilti fyrstu sex starfsár álbræðslunnar.

Alussuissarar hljóta að varpa öndinni léttar: Það kostaði okkur sem sé ekki neitt varðandi rafmagnsverð til gömlu smiðjunnar að kaupa af íslendingum þessa heimild til stækkunar. — En hvað um okkur þingmenn? Vörpum við öndinni léttar þegar við stöndum andspænis því, hvort við eigum að staðfesta eða staðfesta ekki þessi samningsdrög?

Þetta orkuverð, sem viðreisnarstjórnin samdi um á sínum tíma og almennt er viðurkennt að sé hneykslanlega lágt, getur Alþ. ekki staðfest.

Eitt af því marga, sem illþolandi er í samskiptunum við Straumsvíkurmenn, er að álbræðslan er ekki háð íslensku dómsvaldi og öllum deilumálum, sem upp koma, skal vísað til alþjóðlegs dómstóls. Þetta óviðunandi ákvæði virðist eiga að standa óbreytt og þarf Alþ. að koma í veg fyrir það.

Hve fráleitt þetta er hefur m. a. komið fram í viðskiptum ÍSALs við Náttúruverndarráð og Heilbrigðiseftirlítið. Forsvarsmenn verksmiðjunnar hafa ekki talið sig háða almennum íslenskum lögum í þessu efni, en aðeins lögunum um álsamninginn, þ. e. a. s. þann fyrri, en þar eru ákvæðin um mengunarvarnir allt of teygjanleg í túlkun, eins og sést á ákvæðinu um varnir, með leyfi forseta, það er svo hljóðandi:

„ÍSAL mun gera allar eðlilegar ráðstafanir til að hafa hemil á og draga úr skaðlegum áhrifum af rekstri bræðslunnar í samræmi við góðar venjur í iðnaði í öðrum löndum við svipuð skilyrði.“

En hver er það sem ætlar svo að dæma hvað eru „góðar“ venjur í öðrum löndum og hvað eru „svipuð“ skilyrði?

Reyndar koma heldur ákveðnari ákvæði í 13. gr. þessa gamla samnings þar sem segir að ÍSAL skuli byggja, útbúa og reka bræðsluna og halda henni við í samræmi við núgildandi og síðari lög og reglur á Íslandi varðandi öryggi í atvinnurekstri, heilbrigði og hreinlæti, og skal í þessum efnum vera háð eftirliti og opinberra stofnana sem ábyrgð bera á framkvæmd á slíkum reglum.

Þessi grein mætti gjarnan standa ein ef farið væri eftir henni. En þrátt fyrir þessi mislögðu ákvæði og þrátt fyrir samkomulag milli Álfélagsins og heilbrn. 1973, í tíð fyrri ríkisstj., hefur enn ekkert — . nákvæmlega ekkert raunhæft verið gert varðandi uppsetningu hreinsitækja við verksmiðjuna, og forsvarsmenn fyrirtækisins telja sig ekki bundna íslenskum lögum. Auðsjáanlega hefur fyrirtækið viljað spara sér sem lengst að leggja í þann kostnað sem hreinsibúnaður hefur í för með sér, bæði stofnkostnað við uppsetningu og árlegan rekstrarkostnað.

Af reynslu er því ástæða til að efast um vilja fyrirtækisins, jafnvel þótt það segi nú, eins og fram kemur í bréfi þess sem meiri hluti iðnn. hefur séð ástæðu til að prenta með nál. sinu, að fyrirhugað sé að hafa viðbótarsmiðjuna, ef til kemur, „búna fullkomnum hreinsitækjum frá öndverðu“, og einnig að nú sé unnið að framkvæmdaáætlun um þurrhreinsitæki á núverandi verksmiðju, en reyndar líka tekið fram, að hraði framkvæmda sé háður lánsfjárútvegun. Já, vegurinn til vítis var löngum varðaður góðum áformum, eins og Shakespeare karlinn orðaði það, og þótt eiturspýjandi stromparnir í Straumsvík og visnaður gróður á Hafnarfjarðarsvæðinu ættu að vera varnaðarmerki, er ekki að sjá að íslenskir viðsemjendur veiti slíku athygli.

Að sjálfsögðu hefði það átt að vera lágmarkskrafa af Alþ. hálfu nú er Alussuisse sækist eftir heimild til frekari stækkunar, að fullkominn hreinsibúnaður sé kominn á alla verksmiðjuna sem nú er í Straumsvík áður en hafist er handa um stækkun hennar.

Ég hef nú dregið fram flest þeirra atriða sem ég hef við frv. að athuga. Ég geri ráð fyrir að fleiri eigi eftir jafnvel að finna önnur atriði. Ég býst við að hv. þm. Reykjaneskjördæmis eigi eftir að gera athugasemdir við það, hvers vegna Hafnarfjarðarbær var ekki hafður með í ráðum við endurskoðun þessa samnings Kannske koma skýringar á því. En ég hef gert grein fyrir því sem liggur að baki mínu nál.