12.02.1976
Efri deild: 53. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

151. mál, gjald af gas- og brennsluolíum

Fjmrh. (Matthías A. Mathiesen) :

Herra forseti. Eins og kunnugt er hefur að undanförnu verið unnið að endurskoðun á sjóðakerfi sjávarútvegsins. Í till. þeirrar n-, sem um þau mál hefur fjallað, og frv. hæstv. ríkisstj., sem hæstv. sjútvrh. hefur mælt fyrir hér við 1. umr., er m. a. lagt til að Olíusjóður fiskiskipa verði lagður niður. Fram til þessa hefur verð á gasolíu til fiskiskipa verið greitt niður af Olíusjóði og hefur verð til fiskiskipanna numið kr. 5.80 á hvern lítra. Samkv. gildandi lögum og verðlagsákvörðunum skal greiða söluskatt af gasolíu til fiskiskipa. Er niðurgreiðslu á gasolíu til fiskiskipa hefur verið hætt mun verð til þeirra því hækka úr kr. 5.80 í 29 kr. á hvern lítra.

Með lagafrv. þessu um gjald af gas- og brennsluolíum er lagt til að söluskatti þeim, er íslensk fiskiskip mundu að óbreyttum lögum þurfa að greiða af gasolíunotkun sinni, verði jafnað niður á alla notendur gasolíu og brennsluolíu, enda er við það miðað að verði frv. þetta að lögum muni fjmrh. nota heimild í söluskattslögum til að fella niður söluskatt af gasolíu til fiskiskipa.

Hér er ekki um nein nýmæli að ræða. Frá 30. júlí 1971 til ársloka 1975 var framkvæmd jöfnun á verði gasolíu milli notenda, ekki ósvipuð því sem lagt er til í frv. Verðlagsnefnd ákvað 30. júlí 1971, í kjölfar niðurfellingar á söluskatti af húshitunarolíu, að innflutningsjöfnunarreikningur skyldi bera upphæð samsvarandi söluskatti af gasolíu til fiskiskipa. Af þessu leiddi að í raun og veru var lagt gjald á alla gasolíu, einnig hina söluskattsfrjálsu gasolíu til húshitunar, og nam það gjald kr. 1.58 á hvern lítra við síðustu áramót.

Frá áramótum hefur hins vegar ríkt millibilsástand í verðlagningarmálum á gasolíu. Verðlagsnefnd felldi fyrri ákvörðun úr gildi eða réttara sagt, fyrri ákvörðun var látin niður falla 15. des. s. l., en ákveðið um leið að olíuverði skyldi haldið óbreyttu vegna óhagstæðrar stöðu verðjöfnunarsjóðsreiknings gasolíu.

Með frv. þessu er lagt til að lögfest sé í breyttu formi sú meginregla sem gilti um söluskattsmeðferð á gasolíu til fiskiskipa frá 30. júlí 1971 til ársloka 1975, þó þannig, að skipan sú, sem lagt er til að upp verði tekin með frv. þessu, þ. e. að jafna gjaldinu einnig á svartolíu sem verður að telja eðlilegt, leiðir til lægra verðs á gasolíu til húshitunar og til fiskiskipa en orðið hefði ef áfram hefði verið haldið á fyrri braut. Þannig mun verð til fiskiskipa nema óniðurgreitt kr. 25.30 á lítra samkv. frv. þessu, svo og til húshitunar, en hefði numið kr. 25.75 á lítra ef ákvörðun sú, sem ég gat um áðan, frá 31. júlí 1971 stæði enn.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um frv. Það er nánar skýrt í grg. Ég vil þó geta þess, að ég hef orðið var við vissa gagnrýni á verðákvörðun olíu og er að sjálfsögðu reiðubúinn til að láta nm, í té þær upplýsingar sem þeir kunna að óska varðandi útreikning af hálfu verðlagsskrifstofunnar, með hvaða hætti verð á olíum er ákvarðað.

Ég legg svo til, herra forseti. að að lokinni umr. verði þessu máli vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn., og vil óska eftir því að hv. þd. geti afgr. frv. samtímis þeim frv. sem ég gat um áðan og hæstv. sjútvrh. hefur mælt fyrir, en þessi frv. öll tengjast saman.