17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1937 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

104. mál, starfsemi IBM hér á landi

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þessi fsp. er í 5 liðum. Svar við fyrsta lið er svohljóðandi:

I.B.M. World Trade Corporation í New York sótti um leyfi til að stunda atvinnurekstur á Íslandi 19. des. 1966. Með bréfi félmrn., dags. 5. jan. 1967, var félaginu veitt heimild til atvinnurekstrar á sviði skýrsluvélaþjónustu skv. 6. gr. l. nr. 39/1951, um rétt erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi. Félagið stofnaði útibú hér á landi skv. lögum um hlutafélög og tók það til starfa 1. maí 1967. Leyfi félagsins til atvinnurekstrar hefur síðan verið framlengt og gildir nú til 31. des. 1977. Útibú félagsins sér um allt sem viðkemur tölvum nema sölu á þeim, en hana annast umboðsmaður I.B.M. World Trade Corporation hér, Ottó Michelsen.

Svar við 2. lið:

Áður en útibú félagsins var stofnað hér á landi árið 1967 voru leigusamningar um vélar gerðir beint við aðalskrifstofu félagsins í New York með milligöngu umboðsmanns hér. Var þetta fyrirkomulag frá 1951 er leiga véla hófst hér á landi. Samningar voru um leigu í dollurum og fór greiðsla fram með yfirfærslu mánaðarlega til New York í gegnum íslenskan banka. Eftir að útibúið kom varð sú breyting gerð, að leigusamningar voru undirritaðir hér á landi og leigugreiðslur inntar af höndum til útibúsins, en ekki beint til New York. Jafnframt varð starfsemin skattskyld hér á landi. Mikill hluti kostnaðar í sambandi við leigu vélanna er í erlendum gjaldeyri. Leigureikningar eru miðaðir við hina föstu mánaðarleigu í dollurum og gerðir í Ísl. kr. eftir gengi á útgáfudegi reikninga. I.B.M. hefur aldrei gert kröfu um að reikningsupphæð í krónum væri breytt þótt gengisbreyting yrði eftir að reikningur var gefinn út, segir í þessu skjali sem ég hef fengið í hendur, þannig að það má segja að í reyndinni hafi þetta verið þannig, að dollaragrundvöllur leigunnar hafi verið einungis verðstaðall, en ekki sem greiðslustaðall gagnvart leigutökum. Það hefur ekki komið kvörtun, svo að kunnugt sé, yfir þessu greiðslufyrirkomulagi frá viðsemjendum I.B.M. hér á landi. Augljóst hagræði virðist af starfsemi útibúsins hér á landi fyrir viðskiptamenn fyrirtækisins, auk þess sem það greiðir skatta af starfseminni eins og áður var sagt.

Svar við 3. lið a er svo hljóðandi:

Þegar útibú I.B.M. World Trade Corporation tók til starfa hinn 1. maí 1967 var því falin umsjón með skýrsluvinnsluvélum og varahlutum sem móðurfyrirtækið hafði leigt íslenskum aðilum. Útibúið hér getur leitað eftir fjárhagsstuðningi móðurfyrirtækisins í New York að tilskildu samþykki íslenskra gjaldeyrisyfirvalda í hvert skipti. Ef frá er talinn skrifstofubúnaður til eigin nota hefur útibúið ekki fjárfest í öðru en eigin vélum og varahlutum sem flutt eru inn frá móðurfyrirtækinu eða deildum þess. Félagið á engar fasteignir hér á landi og mundi þurfa sérstakt leyfi stjórnvalda til þess.

Um 3. lið b:

Útibú I.B.M. World Trade Corporation hér á landi yfirfærir rekstrarafgang, þ.e. leigutekjur og aðrar rekstrartekjur að frádreginni fjárfestingu, rekstrarkostnaði og opinberum gjöldum, til móðurfyrirtækisins í New York um íslenskan gjaldeyrisbanka samkv. heimildum sem fengnar eru hjá íslenskum gjaldeyrisyfirvöldum hverju sinni.

Svar við 4. lið er svo hljóðandi:

Skýrsluvinnsluvélar eru boðnar til sölu jafnt og til leigu. Reynsla hér og erlendis hefur verið sú, að flestum notendum þykir hagkvæmara að leigja þessar vélar en að kaupa þær.

Við 5. lið er svarið þetta:

44 aðilar hér á landi munu nú hafa á leigu skýrsluvinnsluvélar frá I.B.M. Helstu aðilar eru: Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar. S.Í.S. Flugleiðir hf. Reikningsstofa bankanna. Háskóli Íslands. Landsbanki Íslands. Olíufélagið hf. Olíuverslun Íslands hf. Skeljungur hf. og Sjóvátryggingarfélag Íslands hf. saman. Almennar tryggingar hf. og Iðnaðarbanki Íslands hf. saman. Verslunarbanki Íslands hf. og hf. Eimskipafélag Íslands saman. Auk þess eru smærri aðilar.

Rn. er ekki kunnugt um hlutdeild I. B M. í íslenska tölvumarkaðnum, en auk I. B. M. eru hér á markaði tölvur frá Barrows Corporation, Texas Instruments, D.P.E., Wang og fleiri aðilum.

Þett eru þær upplýsingar sem ég get í té látið til svars við fsp. hv. þm.