17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

56. mál, útgjöld til menntamála

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseti. Fsp., sem ég flyt á þskj. 60, lagði ég fram í nóv. s.l., að mig minnir, svo að það hefur dregist allnokkuð að fá við henni svör. En það breytir þó ekki því, að hún er ekki síður tímabær nú en þegar hún var fram borin. En fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hver hafa verið útgjöld hins opinbera til fræðslumála, menningarmála og rannsókna (samtals rekstrarútgjöld og stofnkostnaður) sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu á árunum 1972, 1973, 1974 og 1975?

2. Hverjar eru nýjustu sambærilegar tölur fyrir lönd í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku og meðaltal slíkra útgjalda fyrir lönd í Vestur-Evrópu í hlutfalli við þjóðarframleiðslu samkv. skýrslum OECD?“

Það er talinn gildur mælikvarði á stöðu menningar og mennta meðal þjóðar hversu miklu fé er varið úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til menntamála. Þjóðir, sem telja sig menningarþjóðir, leggja áherslu á að efla mennt í landi sínu með ríflegum fjárframlögum. Það mun vera viðurkennd viðmiðun um fjárframlög til menntamála að reikna hana í hlutfalli af þjóðarframleiðslu. Þannig fæst gildur samanburður um stöðu menntamálanna milli ára innan sama þjóðríkis og þá ekki síður raunhæfur samanburður á stöðu menntamála í einstökum þjóðlöndum. Þar sem hér er um hlutfallstölur að ræða, en ekki magntölur, verður ekki ósamræmi í samanburði milli fámennrar þjóðar og fjölmennrar, svo að dæmi sé tekið. Hlutfallstölur þessar sýna aðeins þá áherslu sem hver þjóð leggur á uppbyggingu menntamála í landi sínu. Því hærra sem hlutfall útgjaldanna til menntamála er af þjóðarframleiðslu, þeim mun meiri áhersla er lögð af hálfu viðkomandi ríkis á uppbyggingu menningar og mennta í landinu.

Ég tók eftir því mér til furðu í nóv. s.l., að þar var nokkuð fjallað um menningarmál á Íslandi í dagblaðinu Tímanum, málgagni hæstv. menntmrh. Þar var því haldið fram m.a. að hlutur Íslands í menntamálum, þ.e.a.s. framlög til menntamála reiknuð sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu, væri talsvert lægri en í Noregi og talið kostur að svo væri, því að þetta sýndi hve mikillar sparsemi væri gætt. Þetta kom mér nokkuð á óvart því að ég mundi ekki betur en ég hefði undir höndum upplýsingar sem sýndu að Ísland væri í fremstu röð Evrópuríkja í þessu tilliti. Ég fór að leita að þessum upplýsingum og vildi til gamans leyfa þm. að heyra að hverju ég komst.

Efnahagsstofnunin þáverandi gerði skýrslu um ástandið í menntamálum og fjárframlög til menntamála, að mig minnir árið 1.971. Þar kom m.a. fram að útgjöld til menntamála sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu stóðu svo til í stað á árunum frá 1946–1956. Á árinu 1946 nam þetta hlutfall 3.1%, á árinu 1956 nam hlutfallið 3.4%. Þetta ár, 1956, tók Alþfl. við stjórn menntamála. Þegar hann lét af stjórn þeirra árið 1971 hafði hlutfall þetta, hlutfall framlaga hins opinbera til fræðslumála, menningarmála og rannsókna, hækkað úr 3.4% upp í 6%. Þar af hafði hlutfall framlaga til fræðslumála tvöfaldast og hlutfall framlaga til rannsóknarmála einnig tvöfaldast.

Í þessari sömu skýrslu er einnig gerður samanburður á slíkum prósentum framlaga til menntamála af vergri þjóðarframleiðslu í ýmsum Evrópulöndum. Þar kemur m.a. í ljós að árið 1970 er þetta hlutfall á Íslandi 5.0%. Þá er það í Svíþjóð 4.7%, í Bretlandi 4.7%, Danmörku 3.9%, Noregi 4.4%, Þýskalandi 3.2%, Kanada 4.9%, Bandaríkjunum 5.3%. Ísland er sem sé af þessum ríkjum, sem ég hef hér talið upp, árið 1970 komið í annað sæti hvað varðar framlög til menningar- og menntamála, næst á eftir Bandaríkjum Norður-Ameríku. Nú leikur mér forvitni á að vita, hver þróun þessara mála hefur orðið á þeim árum sem líðið hafa frá því að Alþfl. lét af stjórn menntamálanna á Íslandi.