17.02.1976
Sameinað þing: 51. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1944 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

56. mál, útgjöld til menntamála

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Virðulegi forseli. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Eins og hann réttilega tók fram, þá felast ekki í hans svörum nein svör við seinni líð fsp. minnar, þ.e.a.s. hvar Ísland sé statt í samanburði við önnur lönd. Það felast ekki í hans svörum jafnnákvæmar upplýsingar um þetta efni eins og í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar sem ég vitnaði í áðan, töflu 21, þar sem talin eru upp öll lönd í Vestur-Evrópu, síðan Vestur-Evrópumeðaltalið, síðan Ísland sérstaklega, þar næst Norður-Ameríkulöndin tvö og loks Sovétríkin. Heimild að þessu er OECD-stofnunin sjálf, þannig að þarna er reiknað eftir sömu aðferðum fyrir öll þessi lönd. Þessi samanburður árið 1970 leiðir í ljós, eins og ég sagði áðan, að Ísland stendur í öðru sæti, næst á eftir Bandaríkjunum sem það land sem ver mestum fjármunum í hlutfalli af þjóðartekjum til mennta- og menningarmála. Mér finnst mjög leitt að hafa ekki getað fengið svör um hvernig ástandið í þessum efnum er nú, en ég tek undir með hæstv. ráðh. að það er að sjálfsögðu rétt að það er mikið verk að gera slíkar tölulegar skýrslur. En mér fyndist eðlilegast, jafnmikill og snar þáttur í okkar þjóðlífi og mennta-, menningar- og fræðslumál eru, að slíkar skýrslur, samanburðarskýrslur, bæði við önnur lönd og eins skýrslur um ástandið í skólakerfinu sjálfu tölfræðilega, séu gerðar sem oftast og sem jafnast til þess að þm. geti haft þær í sínum höndum og fái séð hvort eitthvað hefur þokað fram á veg, hvort um hefur verið að ræða kyrrstöðu eða afturför.