18.02.1976
Efri deild: 58. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

157. mál, aðild Íslands að samningi um aðstoðarsjóð Efnahags- og framfarastofnunarinnar

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um aðild Íslands að samningi um stofnun aðstoðarsjóðs á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, hefur verið samið í viðskrn. Þótti rétt að hafa þetta frv. til l., en ekki þáltill., þar sem skv. samningnum eru hugsanlega nokkrar ábyrgðarskyldur á lántökuheimildum.

Á síðasta vetri var unnið að samningi þeim, sem hér er lagt til að fullgiltur verði af Íslands hálfu, á vegum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París. Leiddu viðræður og athuganir sérfræðinga aðildarríkjanna til samningsgerðarinnar, en samningurinn var undirritaður af flestum aðildarríkjum, þ. á m. Íslands, í París 9. apríl s.l., að áskildri fullgildingu eftir reglum hinna einstöku landa. Öll aðildarríkin hafa nú undirritað samninginn og nokkur gengið frá fullgildingu.

Aðalröksemd fyrir stofnun sjóðsins er sú, að þeir gjaldeyriserfiðleikar, sem stafa af olíuverðhækkunum og fleiri orsökum, hafi ekki ýkjaalvarlegar afleiðingar fyrir aðildarríkin sem heild, þar sem olíuútflutningslöndin muni aftur yfirfæra fjármuni sína til OECD-landanna, en þetta geti komið illa niður á einstökum ríkjum og gæti þá aðstoðarsjóður komið til hjálpar.

Gert er ráð fyrir að sjóðurinn afli sér fjár með lántökum innan aðildarríkjanna eða á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði, en endurláni féð til einstakra aðildarríkja. Mundu aðildarríkin bera ábyrgð á lántökum í hlutfalli við kvóta sinn í sjóðnum. Þó er gert ráð fyrir að ríki, sem á í mjög miklum gjaldeyriserfiðleikum, geti verið undanþegið slíkri ábyrgð.

Útlánskjör sjóðsins miðast við lánskjör sem hann þarf að sæta. Gert er ráð fyrir því að aðildarríki, sem sækir um lán úr sjóðnum, hafi gengið verulega á eigin gjaldeyrisforða og notað aðra lánamöguleika sem bjóðast með sanngjörnum skilmálum.

Uppbygging sjóðsins er miðuð við að skipta byrðunum eftir getu hvers aðildarríkis. Kvótarnir eru byggðir á svokallaðri vergri þjóðarframleiðslu og utanríkisviðskiptum hvers aðildarríkis.

Sjóðurinn er 20 milljarðar sérstakra dráttareininga, þannig að hluti Íslands er 20 millj. sérstakra dráttareininga, en bað mun samsvara á gengi í dag um 4 þús. millj. kr. Ekki er gert ráð fyrir greiðslu stofnframlaga. Sérstakar dráttareiningar eru vegnar eftir reglum eða kerfi Alþjóðagjaldeyríssjóðsins og hafa verið notaðar í skiptum við hann.

Hámarkslánstími er 7 ár og vextir a.m.k. jafnháir þeim sem sjóðurinn þarf að greiða í hverju tilfelli. Heimilt er að reikna lántökugjald til þess að standa undir kostnaði við stjórn sjóðsins.

Vegna hinna miklu verðhækkana, sem orðið hafa á olíu og ýmsum öðrum vörum, hefur mjög gengið á gjaldeyrisforða landsins eins og kunnugt er. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur veitt fyrirgreiðslu í þessu sambandi síðustu tvö ár. Ríkisstj. telur rétt að taka þátt í stofnun þessa aðstoðarsjóðs og eiga þannig kost á lánum hjá honum, en jafnframt verðum við að vera reiðubúnir að taka þátt í ábyrgð á lánum annarra aðildarríkja ef til kemur.

Það hefur þótt rétt að viðskrh., sem fer með skipti Íslands við þau alþjóðlegu efnahags- og viðskiptasamtök, sem hér er um að ræða, skipi fulltrúa Íslands í stjórn sjóðsins.

Að öðru leyti leyfi ég mér, herra forseti, að vísa til aths. við frv. og þó fyrst og fremst til samþingsins sem fylgir því sem fskj.

Ég vil svo að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.