28.10.1975
Sameinað þing: 9. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

1. mál, fjárlög 1976

Sigurður Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls við þessa umr., ekki nema ég yrði fyrir alveg einhverri sérstakri uppljómun, hvað ég taldi mjög ólíklegt um jafnórómantískt málefni og fjárl. eru. En í gamni og alvöru — ég segi nú í gamni, ég ætla að leyfa mér að segja stutta sögu um atvik í gamansömum dúr. Það var fyrir mörgum árum þegar ég var við verk mitt heima og hlýddi á tal dætra minna tveggja, þá ungra, fjögurra og sex ára, þar sem þær voru að rísla sér álengdar og ræða um óráðna framtíð sína og ráðgátur lífsins. Eitt með mörgu skemmtilegu, sem ég heyrði þau segja, blessuð börnin, var að önnur stúlkan segir við hina: „Maður verður sterkur af því að drekka brennivín.“ Ég gerði enga aths. við mál þeirra, en segi svo við konu mína þegar ég kem inn, svona til að stríða henni, en hún er bindindismanneskja mikil, spyr hana: „Segir þú börnunum að maður verði sterkur af því að drekka brennivín?“ Henni hálfbrá, en þegar ég segi henni tilefnið, þá hlógum við bæði að. En okkur kom saman um að börnin hefðu fengið þessa hugmynd ljóslega vegna þess að um þessar mundir kom oft á heimili okkar kunningi okkar, heimilisvinur, ágætismaður, en hafði þann leiða ávana að hann var ávallt mjög drukkinn, þegar hann kom, gerði engum mein, en sló mikið um sig og barði í borðið, og þetta blekkti blessuð börnin eðlilega því að börn eru nú einu sinni börn, en taka þó vel eftir því sem þau sjá og heyra.

Mér hefði ekki dottið í hug þá að það ætti fyrir mér að liggja löngu seinna að koma inn í þingsali hins háa Alþ. og sjá þar og heyra með eigin augum og eyrum að svo væri ráð fyrir gert af hinum háu og vísu landsfeðrum, þegar þeir eru búnir með aðstoð sinna sérfræðinga að semja og leggja drög að ríkisreikningum okkar þjóðar, að þar stæði að því er séð verður best í tölum að maður yrði sterkur af því að drekka brennivín, kannske má segja í óbeinni merkingu, alla vega fjárhagslega sterkur. Reyndar skiptir fjárhagurinn kannske mestu máli, því að ég held að þessi stofnun eyði meiri tíma í að ræða um fjárhagspyngjuna heldur en hjartalagið eða heilsuna. Þótt vitanlega sé tekið alvarlega á málum, eins og heilbrigðismálum og tryggingamálum, þá virðist sem mikill blekkingarleikur sé í ýmsum tölum gjarnan og þar með í fjárlagafrv.

Ég er ákaflega mæddur yfir því að rekstrarreikningar fjárlaga skuli ávallt vera útfærðir með þeim hætti, eins og hér er nú, að það sé tíundað í áætlun sem hreinn ágóði af Áfengis-og tóbaksverslun ríkisins, sem er áætlað að muni nema allt að 6000 millj. kr. Þetta er vitanlega geysileg blekking því að gjaldamegin er um háar upphæðir á þessum sama reikningi að ræða, ef væru útreiknaðar, vegna þessa tekjuliðar, bæði á sviði heilbrigðismála og tryggingamála, dóms og löggæslu. Og það sem verra er, okkar þjóð mun einnig þurfa að gjalda fyrir þetta háar upphæðir sem ekki koma fram á þessum reikningi, því að þetta er aðeins reikningur yfir fjármál ríkisins, en ekki heimilanna og einstaklinganna í þjóðfélaginu, — háar upphæðir sem ekki verða metnar til fjár, bæði í heilsu og mannslífum, vinnutapi og tjóni á verðmætum. Mér finnst hryggilegt að reikningar skuli vera útfærðir svona og teldi mjög nauðsynlegt að það væri hægt, ef ekki verður öðru breytt, — og ég veit að í þessum efnum verður litlu breytt til hins betra í skjótri svipan, því miður, — að hægt væri að draga fram með nokkrum rökum á þessum reikningum hversu mikið má áætla að ýmsir gjaldaliðir hækki gjaldamegin á þessum rekstrarreikningi vegna þessa tekjuliðar.

Þá ætla ég aðeins að víkja að því sem hæstv. landbrh. vék áðan, að útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðir. Það er áætlað að það verði svipuð upphæð og á s. l. ári, eins og segir hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir hafa aukist að mun á undanförnum árum. Í frv. er reiknað með svipaðri fjárhæð og verður í raun á yfirstandandi ári. Stefnt verður að því að halda útflutningsuppbótum innan þeirra marka, en ef miða ætti við hámark verðtryggingar, þyrfti að auka fjárveitinguna um 870 millj. kr.“

Mér er nú ekki alveg ljóst hvað er hér átt við, þ. e. a. s. ef miða ætti við hámark verðtryggingar, en það kom fram í máli landbrh. að notaður hefði verið til fulls 10% kvótinn. Nú er vitað mál að það horfir svo að það muni verða flutt út um 1000 tonnum meira af dilkakjöti á komandi ári eða af þessa árs framleiðslu heldur en af framleiðslu ársins áður. Þá voru flutt út líklega rúmlega 8000 tonn og þá líklega rúmlega 4000 tonn nú. Þá væri þörf á síst minni útflutningsuppbótum. Nú er gert ráð fyrir að það standi í stað krónulega, en ég skil þessa tölu svo að þær yrðu að aukast um 870 millj. kr. miðað við sama útflutningsmagn. Nú verður útflutningsmagnið meira. Og ég vil benda á að þetta, að útflutningsuppbætur megi miðast við 10% af verðmæti landbúnaðarafurða, það er í lögum, að svo skuli gert ef þess þurfi. Þess þurfti s. l. ár og mun enn frekar fyllilega þurfa að nota það nú. Þetta er í lögum og ber því að gera það, nema lögum sé breytt. Ef þessu marki verður ekki náð, að útflutningsuppbæturnar miðist við 10%, þá mun það koma fram sem bein tekjuskerðing á nettótekjum bænda, mörg hundruð millj. — 800 millj. kr. kannske — bein tekjuskerðing á tekjum bænda. Það munar um minna fyrir þá láglaunuðu og fámennu stétt, og ég vona eindregið að ekki verði farið inn á þá braut að fara ekki í það minnsta eftir núgildandi lögum.