23.02.1976
Sameinað þing: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2038 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

166. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það bar við sama dag og till. um stjórnmálaslit við breta var til umr. í utanrmn. og landhelgisnefnd að stjórnarandstöðunni þótti hæfa að flytja vantrauststill. ú ríkisstj. Stjórnarandstaðan hefur sjálfsagt viljað með þessum hætti sýna hinum erlenda andstæðingi hversu mikil og sterk eining væri hér á landi í baráttunni við hann og styrkja með slíku móti stöðu okkar út á við.

Þá var það einnig á öðrum degi almennasta verkfalls hér á landi sem þessi till. var lögð fram hér á Alþ. Ekki ber að efa að það hafi verið gert einnig í þeim tilgangi að styrkja okkur íslendinga inn á við, samheldni okkar og möguleika til þess að ná sáttum í yfirstandandi kjaradeilu. Ekki verður hv. stjórnarandstaða væntanlega grunuð um það að vilja nota sér svo almenna kjaradeilu í pólitískum tilgangi stjórnmálaflokkum sínum til framdráttum.

En fleirum en mér finnst hátterni og framkoma stjórnarandstöðunnar lítt bera vitni ábyrgðartilfinningu þegar við íslendingar stöndum í örlagaríkri baráttu út á við og viðkvæmri kjaradeilu inn á við. Og óneitanlega læðist að mönnum sá grunur, að stjórnarandstaðan hafi í rauninni ætlað að notfæra sér þá stöðu, sem við vorum í út á við og inn á við, til pólitísks ávinnings. Gríman féll a.m.k. af stjórnarandstöðunni þegar bráðræðið var svo mikið að fjölrita þurfti till. svo að hún næði framlagningu á miðvikudag og krafist var að umr. færu fram um vantrauststill. innan tveggja daga. Það var eins og stjórnarandstæðingar væru hræddir um að kjaradeilan yrði e.t.v. leyst og því væri ekki hægt að nota verkfallið lengur sér til framdráttar ef umr. drægjust.

Því miður stendur kjaradeilan enn yfir, þótt töluvert hafi þokast í samkomulagsátt og vonir standi til að henni fari að ljúka. En víst er um það, að okkur íslendingum ber brýn nauðsyn til að setja niður deilur okkar inn á við, hvort sem það eru kjaradeilur eða pólitískar deilur, til þess að standa sterkir og sameinaðir út á við í baráttunni fyrir lífshagsmunum okkar og sigri í 200 mílna fiskveiðilögsögunni.

Stjórnarandstaðan hefur hlutverki að gegna. Því hlutverki hefur núv. stjórnarandstaða gersamlega brugðist. Það væri því nær að samþykkja vantraust á stjórnarandstöðuna en ríkisstj. Vantrausti á stjórnarandstöðuna verður fyrst fram komið í næstu almennu kosningum, og það er trú mín að það litla traust, sem stjórnarandstaðan kunni að hafa haft, sé nú ekki fyrir hendi hjá kjósendum og þeir muni sýna það í verki.

Við höfum nú heyrt rökstuðning 1. flm. vantrauststill., hv. þm. Ragnars Arnalds. Haft er á orði að ríkisstj. hafi ekki haldið á landhelgismálinu eins og vera ber.

Núv. ríkisstj. lýsti því yfir 28 ágúst 1974 að fiskveiðilögsaga Íslands yrði færð út í 200 mílur fyrir árslok 1975. Með reglugerð frá 15. júlí s.l. var ákveðið að útfærslan ætti sér stað 15. okt. s.l. Ríkisstj. hefur þess vegna staðíð að fullu og öllu við það fyrirheit í stjórnarsáttmálanum að færa fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur.

Þess er skemmst að minnast, að stjórnarandstaðan gekk með hangandi hendi og lítilli hrifningu til þess að vinna að framgangi 200 mílnanna, eins og þegar hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði, með leyfi forseta: „Í dag stöndum við í baráttu um 50 mílna landhelgi. Þessi barátta skiptir nú öllu máli. Hitt er allt annað mál, hvort við íslendingar tökum okkur 200 mílna landhelgi einhvern tíma í framtíðinni þegar slíkt er heimilt samkv. breyttum alþjóðalögum eða að aflokinni Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.“

Virða má þó við núv. stjórnarandstöðu, að hún sá að sér í afstöðu sinni til 200 mílnanna. Á hinn bóginn urðu einkum alþb.-menn til þess að reyna með ýmsum hætti að gera útfærsluna örðugri en ella með því að ekki ætti að ræða við aðrar þjóðir eða a.m.k. skyldi ekki gera samning um fiskveiðiréttindi erlendra þjóða innan 200 mílnanna.

Afstaða stjórnarandstöðunnar var algerlega gagnstæð þessu þegar fiskveiðilögsagan var færð út í 50 mílur. Þá stóðu þeir allir að margra mánaða samningaviðræðum við aðrar þjóðir um fiskveiðiréttindi innan þeirra og síðan að samningsgerð um fiskveiðiréttindi á því svæði. Lítið samræmi er í þessum málflutningi.

Núv. ríkisstj. hefur ekki látið þessa óábyrgu framkomu stjórnarandstæðinga á sig fá. Eftir að reglugerðin um 200 mílna útfærslu var gefin út lét ég í ljós eftirfarandi:

„Við megum ekki færa andstæðingum okkar vopn í hendur með því að vilja ekki ræða við aðrar þjóðir og kanna möguleika á því, hvort við náum samkomulagi við þær. Það er ekki síst nauðsynlegt með tilliti til þess að störfum Hafréttarráðstefnunnar er ekki lokið og varðveita þarf einhliða rétt strandríkis til yfirráða innan fiskveiðilögsögunnar. Ósveigjanleg stefna gagnvart viðræðum við aðrar þjóðir kynni að leiða til þess, að þau öfl fengju stuðning við málstað sinn sem vilja skerða sem mest rétt strandríkisins, t.d. með því að fela gerðardómi ákvörðunarvald um skiptingu fiskveiða innan 200 mílna. Við verðum af kaldri skynsemi að meta hvort við í raun náum aukinni hlutdeild í fiskafla á Íslandsmiðum með samningum eða án samninga.“

Víðræður við aðrar þjóðir hafa farið fram. Nú er svo komið að allar þjóðir viðurkenna í raun yfirráð okkar yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu með því að halda sér utan þeirra eða hafa gert samning um fiskveiðiréttindi innan þeirra, með einni undantekningu. Óbilgirni breta í samningaviðræðum okkar hefur verið slík, að óviðunandi hefur verið, og þeir hafa slitið samningaviðræðunum með því að senda herskip sín inn í íslenska fiskveiðilögsögu í þriðja sinn á 18 árum.

Stjórnarandstaðan telur að um hik hafi verið að ræða hjá íslenskum stjórnvöldum við stjórnmálaslitin. En það er síður en svo hik að hugsa vel ráð sitt og haga aðgerðum sínum þannig að málstað okkar verði að sem mestu gagni.

Slit á stjórnmálasambandi eru annars vegar tæki til að knýja breta til að láta af ofbeldi sínu og hins vegar, ef það ekki dugar, til að mótmæla ofbeldi þeirra út á við með áhrifamiklum hætti. Fyrra markmiðinu hefði verið æskilegra að ná, og meðan gengið var úr skugga um það í viðræðum við breta, hvort það væri unnt, var auðvitað ekki gengið til slíta stjórnmálasambandsins. Þegar fullreynt þótti að lágmarkssamkomulagsvilji var ekki til staðar hjá bretum og vegna ítrekaðra ásiglinga þeirra á íslensk varðskip og veiðar þeirra á friðuðum svæðum var stjórnmálasambandi slitið. Þessi tími hefur orðið til þess, að athygli hefur verið vakin á málstað okkar og honum hefur verið unnið fylgi. Þeir, sem tala um hik, hafa hins vegar verið of bráðir og ekki gefið sér tíma til þess að nota stjórnmálaslitin og aðdraganda þeirra sem tæki í þágu okkar eigin málstaðar. Þeir hafa þannig látið taka sig á taugum.

Hv. þm. Ragnar Arnalds taldi ekki nóg að gert að slita stjórnmálasambandi við breta, heldur vildi segja okkur úr Atlantshafsbandalaginu og hefja aðgerðir gegn varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Það kemur ekki á óvart. Þetta er stefna þeirra alþb.-manna án tillits til landhelgismálsins. Þeir nota því það lífshagsmunamál til þess að koma varnarleysisstefnu sinni fram. Menn skyldu þess vegna varast að ljá till. þeirra eyra. Þær eru ekki settar fram af góðum huga. Við eigum að taka afstöðu til þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu miðað við öryggishagsmuni landsmanna á hverjum tíma. Annað á þar ekki að vera ákvörðunarástæða.

Sá er munurinn á slitum stjórnmálasambands við breta og öðrum aðgerðum sem alþb.- menn hafa nefnt, að slit stjórnmálasambands er aðgerð sem beinist gegn andstæðingi okkar í deilunni, en aðrar aðgerðir beinast gegn öðrum þjóðum sem við eigum ekkert sökótt við í sambandi við útfærsluna í 200 mílur og hafa raunar sýnt málstað okkar skilning og þrýst á breta í því skyni að fá þá til að láta af flotaíhlutun sinni.

Við eigum bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins og annarra alþjóðlegra samtaka að efla að mun upplýsingar um málstað okkar. Við eigum að upplýsa önnur ríki um allt atferli breta, hvernig þeir ganga gegn fiskverndunarsjónarmiðum sem þeir í orði þykjast játa, hvernig þeir beita herskipum sínum málstað okkar. Við eigum að upplýsa önnur þjóð. Með þeim hætti skulum við skapa áframhaldandi þrýsting á breta til þess að þeir fyrr en seinna hverfi á brott úr 200 mílna fiskveiðilögsögunni.

Við eigum að leggja áherslu á störfin á vettvangi Hafréttarráðstefnunnar til verndar hagsmunum okkar til að koma í veg fyrir gerðardómsákvæði eða hefðarréttarákvæði. Við eigum ekki að grípa til aðgerða umfram það sem við höfum þegar ákveðið ef ekki ber nýrra við. Við skulum sjá hvaða árangur verður á fyrsta fundi Hafréttarráðstefnunnar á þessu ári, sem standa mun frá 15. mars til 7. maí, og taka þá málið til yfirvegunar að nýju.

Við eigum að semja við færeyinga og norðmenn auk vestur-þjóðverja og belga. Með þeim hætti kemur í ljós enn skýrar en ella að við íslendingar viljum gjarnan leysa deilumál okkar við aðrar þjóðir friðsamlega og það er breta sök, en ekki okkar, að þetta hefur ekki tekist í deilu okkar við þá.

Við eigum að efla landhelgisgæslu okkar eftir megni. Það hefur sumpart þegar verið gert og verið er að vinna að tillögugerð hvernig frekar skuli að því unnið.

Landhelgisgæslan getur þó ekki með valdi komið algerlega í veg fyrir veiðar breskra togara. Þótt sjálfsagt sé að kosta kapps um eflingu landhelgisgæslunnar er ljóst að við vinnum ekki sigur á bretum með valdbeitingu. Fyrir hvert eitt skip, sem við bætum við varðskipaflota okkar, geta þeir auðveldlega bætt tveimur. En auðvitað getum við takmarkað veiðar breta og það hlýtur að verða keppikefli okkar. Það verður að hafa að leiðarljósi fyrst og fremst að hætta ekki mannslífum og enn fremur að koma í veg fyrir tjón á varðskipunum sem mega ekki verða fyrir stöðvun vegna viðgerða í langan tíma Við skulum ekki vara óþolinmóð. Hlutverk Davíðs er sigurstranglegt. Lipur skæruhernaður er sigurvænlegri en opin orrusta.

Öðrum þræði er nú haft á orði í þessum umr. að meðferð ríkisstj. á efnahagsmálunum sé ástæða vantrauststillögunnar.

Við ræðum gjarnan kaup og kjaramál eins og við getum sjálfir skammtað okkur kjörin, hvort sem hlut eiga að máli einstaklingar, fjölskyldur eða þjóð. En sannleikurinn er sá, að kjör okkar ráðast af afla og framleiðsíu innanlands, sem oft er undir náttúruöflum komið, og hins vegar því verði sem við fáum greitt fyrir útflutning og þurfum að greiða fyrir innflutning okkar. Við ráðum ekki náttúruöflunum og því verðlagi erlendis sem við verðum að búa við, bæði í útflutningi og innflutningi okkar. Þess vegna er rangt að láta í veðri vaka og telja fólki trú um að við getum sjálf einhliða skammtað okkur kjörin, þótt við getum með framtaki og vinnusemi aukið framleiðsluna og skapað grundvöll bættra kjara.

Í þessum umr og oftar er stundum talað um að kaupmáttarskerðing sé um 25% frá kjarasamningum í febr. 1974, sem allir eru sammála um að hafi verið verðbólgusamningar. En sá kaupmáttur var aðeins skráður á pappír einn dag þegar kaupið var samþykkt, en hvarf fljótlega í hít verðbólgunnar og ýmiss konar verðhækkana sem fyrirsjáanlegar voru. Þessa kaupmáttar naut því enginn. Þessi kaupmáttur var falskur vegna þess að hann byggðist ekki á verðmætasköpun í þjóðfélaginu og bættum viðskiptakjörum. Alþb.- menn sjálfir viðurkenndu þetta í fyrri ríkisstj. með því að taka kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi, því að það var ekki ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, sem tók kaupgreiðsluvísitöluna úr sambandi, heldur ríkisstj. sem alþb.-menn sjálfir sátu í.

Alþb.- menn nefna heldur aldrei hina hlið málsins, að viðskiptakjörin hafa versnað frá ársbyrjun 1974, á síðasta ári um 16% og 10% árið áður. Viðskiptakjörin hafa því versnað um nær 30% á tveim árum frá því að þau voru best. Auðvitað hlýtur það að koma niður einhvers staðar. Að vísu neituðum við lengi að horfast í augu við þessi versnandi viðskiptakjör, og þrátt fyrir 10% verri viðskiptakjör 1974 en árið áðar jukum við þjóðarútgjöldin um 10%. Núv. ríkisstj. hefur snúið við blaði og aðgerðir hennar hafa orðið til þess að þjóðarútgjöldin minnkuðu um 10% á síðasta ári, en vegna samsvarandi lækkunar þjóðartekna leiddi það átak ekki til umtalsverðs bata viðskiptahalla.

Ljóst er að viljum við ná árangri við stjórn efnahagsmála þarf að samræma aðgerðir í fyrsta lagi í ríkisfjármálum með samþykkt fjárlaga, í öðru lagi peningamálum með gerð útlánaáætlunar sem í fyrsta sinn var gerð nú fyrir árið 1976 og tekur til útlána banka, fjárfestingarlánasjóða og erlendra lána, og í þriðja lagi við ákvörðun kaups og kjaramála í kjarasamningum. Með ákvörðunum í þessum þremur málaflokkum er kveðið á um það, hve þjóðarútgjöldin verða mikil.

Ríkisstj. hefur sett sér það mark að lækka hallann á viðskiptajöfnuðinum niður í 6–7% af þjóðarframleiðslu á yfirstandandi ári úr 12% undanfarin tvö ár og hyggst gera með því að samneysla og einkaneysla sé óbreytt að magni frá fyrra ári, en dregið verði úr fjárfestingu og framkvæmdum hins opinbera og einkaaðila til þess að draga úr þjóðarútgjöldum. Einkaneyslan stóð að mestu undir samdrætti þjóðarútgjalda á síðasta ári og þykir ekki fært að gera ráð fyrir að unnt sé að draga hana meira saman. Þess vegna er við það miðað að kaup- og kjarasamningar þeir, sem nú er verið að gera, hafi ekki meiri kauphækkanir í för með sér en sem nemur því að halda óbreyttum kaupmætti frá því sem hann var seint á síðasta ári, þó þannig, að einkum sé hægt farið í sakirnar fyrst framan af árinu.

Nú er spurningin hvort vantrauststill. er flutt af hálfu stjórnarandstöðunnar vegna þess að hún sé ósammála þeim markmiðum, sem ríkisstj. og Alþ. hafa sett þjóðarbúinu á þessu ári. Þótt stjórnarandstaðan gagnrýni erlendar lántökur, þá hefur hún ekki bent á, að unnt væri að lækka hallann á viðskiptajöfnuði á einu ári meira en ætlunin er að gera. Hins vegar hefur stjórnarandstaðan gagnrýnt það við afgreiðslu fjárlaga að eigi var veitt til ýmiss konar útgjalda hærri upphæð en gert var. Stjórnarandstaðan hefur einnig gagnrýnt það að dregið hafi verið úr opinberum framkvæmdum, og varla líður svo vika hér á Alþ. að þessi gagnrýni heyrist ekki eða fárast sé yfir útlánatakmörkunum. Loks telur stjórnarandstaðan að kaup þurfi að hækka meira en sem nemur því að halda óbreyttum kaunmætti, þ.e.a.s. stjórnarandstaðan vill hærri þjóðarútgjöld Ef farið væri eftir gagnrýni stjórnarandstöðunnar leiddi það til þess að halli á viðskiptajöfnuði yrði meiri, verðbólgan yxi og atvinnuleysi skapaðist.

Þriðja málsástæðan fyrir flutningi þessarar vantraustill. er sú að núv. kjaradeila sé ríkisstj. að kenna, vegna þess að hún hafi ekki viljað hlusta á ábendingar aðila vinnumarkaðarins er hefðu getað komið í veg fyrir verkföllin. Í des. samþykkti Alþýðusamband Íslands kjaramálaályktun og var hún rædd á sameiginlegum fundi fulltrúa ríkisstj. og Alþýðusambandsins. Ríkisstj. gerði þá grein fyrir að hve miklu leyti hún gæti tekið tillit til þeirra ábendinga. Síðan ræddu aðilar vinnuveitenda og Alþýðusambandið saman og sendu sameiginlegar till. til ríkisstj. 20. jan. s.l., sem ríkisstj. svaraði á fundi 5. febr. s.l. Í svari ríkisstj. kemur fram að ríkisstj. og aðilar vinnumarkaðarins eru sammála um nauðsyn þeirra þriggja meginmarkmiða sem ríkisstj. frá upphafi hefur sett sér: í fyrsta lagi að tryggja fulla atvinnu, í öðru lagi að hamla á móti verðbólgu og í þriðja lagi að bæta viðskiptajöfnuðinn við útlönd og greiðslustöðu landsins.

En ríkisstj. bendir á að skilyrði til þess að þessum markmiðum verði náð sé að vinnufriður haldist og launabreytingum verði mjög í hóf stillt.

Rétt er að það komi fram, að ríkisstj. hefur tekið jákvætt undir endurskoðun lífeyrissjóðakerfisins og raunverulega haft frumkvæði og atbeina að samkomulagi því sem nú hefur verið gert. Þá hefur ríkisstj. haft forgöngu um og veitt atbeina til endurskoðunar sjóðakerfis sjávarútvegsins sem er grundvöllur þeirra kjarasamninga sem nú eiga sér hér stað og hagkvæmari rekstrar sjávarútvegsins í framtíðinni.

Það, sem á milli bar ábendinga aðila vinnumarkaðarins og undirtekta ríkisstj., var einkum varðandi lækkun ríkisútgjalda annars vegar og lækkun söluskatts, launaskatts og fasteignaskatta hins vegar. Ríkisstj. benti á að við gerð fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár var beitt ítrasta aðhaldi í útgjaldaákvörðunum og þeirri stefnu fylgt eftir við meðferð fjárlagafrv. á Alþ.

Ég er að vísu þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að beita áfram fyllsta aðhaldi við ákvörðun ríkisútgjalda og vonir standi þá til að unnt sé að lækka ríkisútgjöld sem hlutfall af þjóðarframleiðslu með auknu aðhaldi, skipulagsbreytingum og sparnaði og að því verði stöðugt að vinna.

Þegar á heildina er litið er ljóst að það hefur ekki við rök að styðjast að ríkisvaldið hafi tekið neikvætt undir ábendingar aðila vinnumarkaðarins, heldur að meginhluta til svarað þeim jákvætt. En að svo miklu leyti sem um neikvæð svör var að ræða getur stjórnarandstaðan á Alþ. ekki gagnrýnt þau. Stjórnarandstaðan hefur ekki treyst sér til þess að standa að lægri ríkisútgjöldum, heldur þvert á móti viljað hafa þau hærri. Stjórnarandstaðan er því sjálfri sér ósamkvæm. Hún vill í senn hærri ríkisútgjöld og lægri skatta.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég láta það koma skýrt fram, að ég tel hagsmunasamtök í þjóðfélaginu hafa veigamiklu hlutverki að gegna og vera nauðsynlegan þátt lýðræðisskipulagsins.

Það er hlutverk stjórnvalda, ríkisstj. og Alþingis, að undirbúa, samþykkja fjárlög og gera heildaráætlun um útlán sem og að marka viðhorf sítt almennum orðum til kaups og kjaramála án þess að um bindandi valdboðnar fyrirskipanir sé að ræða. Hagsmunasamtökin sjálf, launþegar og vinnuveitendur, verða í samningum sín á milli fyrst og fremst að semja um kaup og kjör. Hvor aðili fyrir sig, ríkisvald og hagsmunasamtök, verður að virða verksvið hins.

Vegna þess að þrír málaþættir: fjármál ríkisins, peningamálin og kjaramálin, segja fyrir um þróun efnahagsmála þarf að vera náið samráð og samvinna milli stjórnvalda og hagsmunasamtaka. Án slíks samráðs næst ekki sú samræming í stjórn efnahagsmála sem nauðsynleg er til þess að ná þeim markmiðum sem allir t já sig í orði samþykka, þ.e.a.s. að tryggja fullt atvinnuöryggi, bætta greiðslustöðu út á við og stöðugt verðlag.

Yfirstandandi kjaradeilur sýna ljóslega að mikil þörf er endurbóta við gerð kjarasamninga, þegar út í verkföll er komið áður en aðilar hafa rætt nægilega ágreiningsmál sín og áður en gengið er úr skugga um hvort unnt sé að leysa þau án vinnustöðvunar sem öllum er til tjóns.

Í þessum kjarasamningum má ekki glata þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni gegn verðbólgunni. Sé lítið á tímabilið frá maí í fyrra til febr. nú er hækkunin um 19%, en það svarar til 26% hækkunar á einu ári miðað við 50% áður, og síðustu þrjá mánuðina er hækkunin mun minni.

Framhald þessarar þróunar er launþegum pg þjóðarbúinu nauðsynleg. Hagsmunasamtökin hljóta að gera sér grein fyrir því.

Herra forseti. Okkur íslendingum er gjarnt, bæði þegar við ræðum mál okkar á milli og við aðrar þjóðir, að bera fyrir okkur að við séum fáir, fátækir og smáir. Víst erum við það. En það er okkur engin afsökun. Við verðum að standa jafnir öðrum þjóðum ef við viljum vera sjálfstæð og ábyrg þjóð í samskiptum þjóða á milli. Það verðum við ekki nema við treystum efnahagsgrundvöll okkar og kunnum okkur hóf í samskiptum sjálfra okkar á milli, leitumst við að leysa deilumál okkar með friði inn á við og út á við.

Fram komin vantrausttill., þegar við stöndum í alvarlegri baráttu við breta og kjaradeilum inn á við, er ekki til þess fallin að styrkja stöðu okkar. Hún skiptir e.t.v. ekki miklu máli að öðru leyti en því að afhjúpa veika, ráðvillta og fljótfærna stjórnarandstöðu á Íslandi 1976. Ég þakka þeim sem hlýddu.