23.02.1976
Sameinað þing: 54. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2058 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

166. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir íslendingar. Í síðustu bók sinni, „Í túninu heima“, segir Halldór Laxnes: „Þjóðfélagið var ekki einu sinni til þegar ég var að alast upp: við skulum vona að það sé til núna svo hægt sé að bæta það þó áritun þess sé óþekkt og ekki hægt að fara í mál við það. Um daginn spurði ég gáfaðan kunningja minn hvaða félagsskapur þetta væri — hvort það væri þjóðin eða ríkið, eða ríkisstj.eða Alþ., kannske summan af öllu þessu. Þessi gáfaði vinur bretti heldur en ekki brúnirnar og svaraði að lokum: Ætli það sé ekki einna helst lögreglan? Eitt er víst, að oft þegar menn tala um þjóðfélag, meina þeir stríðsfélag eða ófriðarfélag, þar sem einlægt er verið að jagast og fljúgast á: annað ekki. Einu sinni var kot í Hafnarfirði og hét Ófriðarstaðir af því þar bjuggu karlar sem voru einlægt í áflogum. Betri menn skírðu bæinn upp og kölluðu hann Jófriðarstaði. Ef þjóðfélagið er sama og ófriðarfélag mætti kannske skíra það Jófríðarfélagið.“

Svo mörg eru þau orð skáldsins. Skyldi hugsandi mönnum ekki koma hitt og þetta í hug þegar þeir heyra þessi orð? Er ekki kominn tími til þess að menn hugleiði í alvöru hvernig þjóðfélagið á Íslandi er orðið, hvers konar þjóðfélag hefur verið að þróast á Íslandi á undanförnum árum, hvers konar gervimynd af réttlátum þjóðfélagsháttum og heilbrigðu réttarríki hér er orðíð um að ræða? Þegar Alþingi ræðir till. um vantraust á ríkisstj., er þá ekki einmitt rétti tíminn til þess að gera nokkra úttekt á þjóðfélaginu og stjórnarháttum?

Engum sanngjörnum manni dettur í hug að kenna ríkisstj. um allt það sem raflaga fer í þjóðfélagi. En þegar við blasir annar eins glundroði og nú einkennir íslenskt þjóðfélag, þegar sumir komast upp með að raka saman fé og svíkja undan skatti meðan eldra fólk á erfitt með að draga fram lífið, meðan augljóst er að menn eru ekki jafnir fyrir lögunum, þannig að réttlætiskennd heiðvirðs borgara ofbýður, er þá óeðlilegt að spurt sé hvort stjórn landsins hafi reynst vanda sínum vaxin?

Við skulum byrja á því að líta stuttlega á efnahagsmálin. Á s.l. ári var hér 45–50% verðbólga, sem hefur þó, sem betur fer, farið nokkuð minnkandi. Hún brennir á báli verulegan hluta af sparifé landsmanna. En jafnvel sú verðbólga, sem nú er hér, hefur ekki þekkst nema með frumstæðum þjóðum sem búa annaðhvort við stjórnleysi eða spillt stjórnarfar. Í hóp slíkra ríkja er menningarþjóðin íslendingar nú komin.

Og hvernig er háttað viðskiptum þjóðarinnar við önnur lönd? Í fyrra var viðskiptahalli við útlönd 22 milljarðar. Um s.l. áramót höfðu íslendingar safnað skuldum erlendis sem námu 73 milljörðum. Innan fárra ára verðum við að greiða fimmtu hverja krónu, sem við öflum okkur með útflutningi, í afborganir og vexti af erlendum skuldum.

Skyldi nú ekki allt þetta hafa valdið því að stjórnvöld rönkuðu eitthvað við sér og tækju að beita aðsjálni í meðferð ríkisfjár, sameiginlegs fjár okkar allra landsmanna? Ekki aldeilis. Á s.l. ári var greiðsluhalli ríkissjóðs yfir 5 milljarða. Um áramótin var skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hvorki meiri né minni en 10 milljarðar. Í fyrra varð ríkissjóður að greiða Seðlabankanum 900 millj. kr. í vexti og afborganir af skuldaaukningu á því ári.

En skyldi þá ekki þetta botnleysi í efnahagsástandinu l:afa opnað augu ríkisstj. fyrir því að fyrirhyggju þurfi að gæta varðandi opinberar framkvæmdir? Ekki er því heldur að heilsa. Skal eitt dæmi nefnt því til sönnunar, málefni Kröfluvirkjunar. Hér skal látið liggja milli hluta að mikið skortir á að tæmandi og skýr grein hafi verið gerð fyrir vafasömum viðskiptaaðferðum í sambandi við undirbúning þessara framkvæmda. Hins vegar skal bent á nokkrar staðreyndir í sambandi við virkjunina.

Á þessu ári er gert ráð fyrir því að ríkisframkvæmdir, sem fjármagna á með lánsfé, nemi tæpum 10 milljörðum. Ríkisstj. aflaði sér skömmu fyrir jól heimildar til þess að nota rúma 4 milljarða af þessari fjárhæð vegna Kröfluvirkjunar, og er þar um að ræða stærstu framkvæmdina sem áætluð er að muni kosta alls um 7 milljarða kr. Kröfluvirkjun er byggð af þremur aðilum: Kröfluvirkjunarnefnd, sem skipuð er út frá stjórnmálasjónarmiðum og byggir orkuverið, Jarðhitadeild Orkustofnunar sem borar og virkjar gufuholur og Rafmagnsveitum ríkisins sem byggja háspennulínur og sjá um orkuflutninginn. Hins vegar hefur enn engin ákvörðun verið tekin um það, hvaða aðili eigi að reka þetta risafyrirtæki. Það kann að eiga sér eðlilegar skýringar, En hitt er alþjóð eflaust ekki kunnugt, að engin rekstrar- eða greiðsluáætlun er til um þetta risafyrirtæki fram í tímann. Slíkt hefur aldrei gerst áður í sambandi við meiri háttar virkjunarframkvæmdir hér á lendi og er vafalaust einsdæmi með þjóðum þar sem telja má sómasamlegt stjórnarfar og efnahagskerfi. Því hefur verið marglýst opinberlega af sérfræðingum, að framleiðslugetan verði fyrstu árin langt umfram rafmagnsþörfina, jafnvel þótt Austurland verði tengt virkjuninni. Afleiðingin er augljós: annaðhvort gífurlegur rekstrarhalli eða geysihátt rafmagnsverð. En hvað varðar pólitíska spákaupmenn um slíkar staðreyndir? Þeir eru í kapphlaupi um að eyða sem mestu fé í framkvæmdir í sínu kjördæmi. Og þó er sagan ekki öll sögð með þessu. Hörmulegar náttúruhamfarir hafa valdið því að vísindamenn hafa hvatt til varkárni varðandi áframhaldandi framkvæmdir. En hvað skyldi stjórnmálamenn, sem eru í kapphlaupi um kjósendur, varða um slíkt?

Eigum við að líta svolítið á ástandið í skattamálum ríkisins? Á þessu ári er gert ráð fyrir því að einstaklingar greiði 5.6 milljarða í tekjuskatt, en öll félög í landinu aðeins 1 milljarð. Í fyrra greiddu aðeins 55–60% þeirra félaga og einstaklinga, sem stunda atvinnurekstur, tekjuskatt, alls um 1600–1700 millj. kr. Talið hefur verið að af 100–130 milljarða veltu í ýmsum atvinnurekstri hafi í fyrra alls enginn tekjuskattur verið greiddur. Hins vegar verður launamaðurinn að greiða skatt af svo að segja hverri krónu sem hann aflar sér. Er við því að búast að talað sé um félagslegt réttlæti í slíku þjóðfélagi?

En verðbólgan, sem ríkisstj. hefur ekki ráðið við, er samt ekki hið versta sem verið hefur að gerast, ekki heldur skuldasöfnunin erlendis sem ríkisstj. hefði átt að geta haldið í skefjum, ekki sukkið hjá ríkissjóði og ekki einu sinni glæframennskan í Kröflumálinu sem nokkrir stjórnmálamenn bera ábyrgð á. Það, sem er mest ógnvekjandi í þróun mála á Íslandi undanfarið, er að það hefur verið að gerast sem varla nokkur maður hefði trúað fyrir fáeinum árum að gæti gerst á Íslandi. Það hriktir í sjálfum siðferðisgrundvelli þjóðfélagsins. Til hafa orðið hópar afbrotamanna sem safna auði á smygli, fíkniefnasölu, að ekki sé talað um skattsvik, og virðast jafnvel ekki skirrast við óhugnanlegustu glæpum. Engum dettur í hug að kenna stjórnvöldum þessa þróun mála. En sá uggur læðist nú að æ fleirum að hvorki þau né þjóðin sjálf hafi verið nægilega vel á verði. Viðskiptafrömuðir, sem til skamms tíma virtust njóta virðingar í þjóðfélaginu og voru vinmargir og veitulir og umgengust jafnvel áhrifamenn í stjórnmálum, hafa nú orðið að sæta alverlegum ákærum og verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Um suma gildir það að þeir hafa fengið stórt bankalán nokkru áður en þeir voru hnepptir í gæsluvarðhald, um aðra að þeir hafa gefið út háar innistæðulausar ávísanir rétt áður. Slíkir menn hafa orðið uppvísir að nokkurra ára gömlum skattsvikum án þess þó að hafa enn verið ákærðir, hvað þá að þeir hafi greitt hinn ógoldna skatt eða sekt. Getur hjá því farið að almenning setji hljóðan við slík tíðindi? Hvað er hér á ferðinni? Erum við ekki lent á ægilegum villigötum?

Samtímis því að þessir ógnvekjandi hlutir eiga sér stað er farið að nota orðið „mafía“ í ríkari mæli á Íslandi en nokkru sinni fyrr. Það var sjálfur dómsmrh. Íslands sem var upphafsmaður að umr. um mafíu á Íslandi, En hann notaði ekki mafíu-orðið um þá menn sem rætt var um hér að framan. Hann notaði það um aðstandendur dagblaðs hér í Reykjavík, — dagblaðs sem ýmsir telja næststærsta blað landsins, - blaðs sem í ritstjórnargreinum styður samstarfsflokk dómsmrh. í ríkisstj.

Ég held að óhætt sé að segja að þjóðina hafi sett hljóða þegar hún heyrði dómsmrh. sinn í ríkisútvarpinu kenna aðstandendur eins aðalblaðs þjóðarinnar við glæpahringi. En öllum mönnum getur orðið á að segja orð í ógáti og allir eiga leiðréttingu orða sinna. Þess vegna trúðu menn varla eigin eyrum þegar dómsmrh. þjóðarinnar endurtók þessi orð á Alþ. daginn eftir og meira að segja með sýnu meiri þunga. Tilkynnt hefur verið að aðstandendur blaðsins og ritstjóri þess höfði mál á hendur ráðh. og verður þeim ekki láð það. En er nú von að menn spyrji einnig að gefnu þessu tilefni hvað sé eiginlega, að gerast á Íslandi, hvar á vegi við íslendingar séum staddir?

Í þessu sambandi verður ekki komist hjá að nefna að formaður Framsfl. lýsti því yfir fyrir skömmu hér á Alþ. að engin fjármálatengsl væru milli flokks hans og veitingastaðar hér í bæ sem gerst hefur sekur um margvísleg afbrot. Rétt á eftir birti ein af stofnunum flokksins, Húsbyggingasjóður hans, yfirlýsingu um að hann hefði átt fjárhagsviðskipti við þetta veitingahús. Þau voru vægast sagt undarleg og áttu sér einmitt stað meðan veitingahúsið var lokað að fyrirmælum lögregluyfirvalda og rétt áður en það var opnað aftur að tilhlutan dómsmrh. Hann hefur sagt að hér séu engin tengsl á milli. Áratugalöng kynni mín af Ólafi Jóhannessyni valda því að það hvarflar ekki að mér eitt andartak að hann segi annað en það sem hann veit sannast og réttast. Hitt er opinber staðreynd, að milli einnar stofnunar Framsfl. og veitingahúss, sem þá þegar stundaði vægast sagt vafasama starfsemi, hafa átt sér stað undarleg fjármálaviðskipti. Er jafnskýrum mönnum og forustumönnum Framsfl. virkilega ekki ljóst að venjulegum borgurum með heilbrigða dómgreind og réttlætiskennd finnst að hér þurfi nánari skýringa við? Er nema von að menn spyrji hvort öll kurl séu komin til grafar í þessu sambandi? Hvers vegna biður Framsfl. ekki sjálfur um rannsókn á þessu máli öllu til þess að firra sig öllum grunsemdum og sanna sakleysi sitt? Er það líklegt til þess að auka virðingu manna fyrir stjórnmálaflokkunum og efla traust á þeim að hann skuli ekki gera það?

Ég held að allt þetta, sem ég hef nefnt, hljóti að verða hugsandi mönnum á Íslandi alvarlegt íhugunarefni og það sé einmitt sérstök ástæða til þess að hugleiða þessi mál öll nú þegar Alþingi íslendinga ræðir stöðu ríkisstj. hér á þingi og með þjóðinni. Það er gömul saga að tveim stærstu flokkum þjóðarinnar hefur aldrei gengið vel að vinna saman. Milli þeirra ríkir áratugagömul tortryggni og reynslan hefur margleitt í ljós að þegar þeir standa saman að ríkisstj. magnast sundrung innan þeirra sjálfra sem gerir þeim erfitt að halda á málum af nægilega mikilli festu og með nógu heilsteyptu hugarfari. Oft hefur verið við alvarleg vandamál að glíma á Íslandi þegar þessir flokkar hafa farið með völd. Er skemmst að minnast áranna 1950–1956 þegar tvær ríkisstj. þessara flokka fóru með völd á 6 árum og sundruðust báðar áður en venjulegu kjörtímabili væri lokið. Það hafði örlagaríkar afleiðingar að þessar tvær ríkisstj. voru sjálfum sér sundurþykkar þótt þær hefðu mikinn þingmeirihluta að baki sér. Nú eru vandamálin á öllum sviðum margfalt alvarlegri en þá og auk þess komin til kjalanna ný vandamál sem þá voru óþekkt og enginn lét sér til hugar koma að upp gætu komið.

Hafi nokkurn tíma verið þörf á styrkri, samhentri og heiðarlegri stjórn á íslandi, þá er það nú. Það þarf að stuðla að sanngjarnri lausn vinnudeilnanna sem nú geisa, viðtækustu vinnudeilna sem um getur í sögu þjóðarinnar. Auðvitað er hér fyrst og fremst um að ræða mál aðila vinnumarkaðsins sjálfs, en í öllum vinnudeilum undanfarinna áratuga hafa ríkisstj. átt hlut að máli er deilurnar hafa leysts. Engin ríkisstj. hefur fram til þessa verið jafnathafnalítil í þessu efni og sú, sem nú situr. Það verður að draga úr verðbólgunni og viðskiptahallanum við útlönd, það verður að hafa hemil á útgjöldum ríkissjóðs og erlendri skuldasöfnun, það verður að tryggja atvinnuvegunum traustan grundvöll að starfa á svo að öruggt sé að allir hafi verk að vinna. Á tæplega tveggja ára starfsferli sínum hafa núverandi stjórnarflokkar sýnt að þeim er um megn að leysa þetta verkefni.

En síðast, en ekki síst er nauðsynlegt að þjóðin glati ekki trú á það að hún búi í réttarríki. Íslendingar ætlast til þess að komið verði í veg fyrir starfsemi einstakra afbrotamanna og afhrotamannahópa. Hún krefst þess að þau sakamál, sem nú eru á döfinni, verði rannsökuð niður í kjölinn og ekki slegið þar slöku við, heldur hafður á fyllsti hraði, samtímis því auðvitað að réttaröryggis sé gætt. Takist ekki að upplýsa þau mál sem um er að ræða og sjái almenningur ekki svart á hvítu að þeir, sem sekir kunna að reynast, hljóti sinn dóm hefur íslenskt þjóðfélag hlotið það sár sem seint mun gróa. Það er skylda ríkisstj. og þá fyrst og fremst dómsmrh. að auðvelda rannsóknarlögreglu og dómstólum störf þeirra að þessum málum með því að láta þeim í té alla þá viðbótarstarfskrafta sem þeim eru nauðsynlegir, en opinberlega hefur verið undan því kvartað að skortur á starfskröftum tefji rannsóknarstörfin. Þjóðin vill láta vinna af hörku og alvöru gegn skattsvikum og smygli, fíkniefnaviðskiptum og fjársvikum, en ekki með neinum vettlingatökum. Ef ríkisstj. léti hendur standa fram úr ermum í þessum efnum hefði hún stuðning allra góðra manna á landinu.

Herra forseti. Til þess að geta tekist með árangri á við mikil vandamál er ekki nóg að hafa að nafninu til mikinn meiri hl. á Alþ. Stjórnvöld þurfa að hafa vit og vilja til þess að leita samstöðu við þau þjóðfélagsöfl sem geta stuðlað að því að snúa óheillaþróun í æskilegar framfarir og haft samstarf við þau. Nú þarf samstaðan og samstarfið að vera viðtækara en nokkru sinni fyrr því að nú er þjóðinni ekki aðeins efnahagsvandi á höndum, heldur siðferðilegur vandi. Spurningin er nú ekki aðeins um það hvort hér eigi að komast aftur á heilbrigt efnahagskerfi, Spurningin er einnig sú, hvort okkur tekst að halda uppi ótvíræðu réttarríki á Íslandi, hvort við megnum að varðveita þann siðgæðisgrundvöll þjóðfélagsins og þar með sjálfsvirðingu okkar. En án þess verða allar kjarabætur og allar efnahagsframfarir lítils virði þegar til lengdar lætur.

Ég á enga ósk heitari þjóð minni til handa en að takast megi að efla efnahagskerfið, varðveita réttarríkið og treysta það siðgæði sem þjóðfélag okkar verður að byggjast á og andleg heill okkar er undir komin. Með þessum orðum lýk ég máli mínu.

Ég þakka þeim, sem hlýddu.