24.02.1976
Efri deild: 61. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

177. mál, námslán og námsstyrkir

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er allefnismikið frv. sem hér hefur verið lagt fram til umr., en hins vegar hefur ekki gefist mikill tími til að kanna það. Ég var farinn af fundi Sþ. í gær þegar frv. var útbýtt og átti þess ekki kost að lesa þetta frv. fyrr en u.þ.b. sem fundir voru að hefjast hér í dag.

Um það leyti sem fundir hófust í dag var útbýtt bréfi til þm. frá kjarabaráttunefnd námsmanna. Það er opið bréf til allra alþm. með gagnrýni á það frv. sem hér er til umræðu. Þetta er allmikil lesning, eins og þm. munu sjá, 11 síður ásamt fjórum þykkum fskj., og er því ljóst að það er ýmislegt sem menn þurfa að athuga áður en þeir geta fjallað endanlega um þetta mál og tekið afstöðu til þess.

Ég vil þó ekki láta hjá líða að segja það sem skoðun mína að þetta frv. hafi svo áberandi galla að ekki sé árennilegt að samþ. það óbreytt. Ég tel að frv. beri það svo bersýnilega með sér, að ekki þurfi langrar umhugsunar við, að það sé meingallað í ákveðnum greinum, og þá á ég fyrst og fremst við hið harðneskjulega endurgreiðslukerfi sem gert er ráð fyrir að tekið sé upp með samþykkt þessa frv.

Endurskoðun námslánakerfisins hefur staðið yfir um margra árabil eða allt síðan 1972 og núverandi kerfi hefur verið gagnrýnt með margvíslegum rökum. Á það hefur verið bent, ekki hvað síst af námsmönnum, að um sé að ræða algjörlega ófullnægjandi lánafyrirgreiðslu og að setja þurfi ákveðnari fyrirmæli um það hvenær umframfjárþörf námsmanna verði fullnægt að fullu. Það orðalag, sem enn er í lögum, var sett árið 1967 og þá var kveðið svo á að stefnt skyldi að því að opinber aðstoð við námsmenn nægði hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefði verið tekið til allra aðstæðna, tekna og framfærslukostnaðar. Að þessu marki var stefnt í nokkrum áföngum fyrstu árin eftir setningu laganna. En staðreynd er að á seinustu árum hefur þessi þróun stöðvast og umframfjárþarfarprósentan, sem hefur komið út úr afgreiðslu fjárlaga hin seinni ár, hefur staðið nokkuð í stað og raunar lækkað á því ári sem nýlega er hafið. Menn hafa því talið að ekki yrði undan því vikist að Alþ. og ríkisstj. tækju af skarið um það hvenær þessu marki yrði náð, þannig að ekki drægist úr hömlu að umframfjárþörf námsmanna yrði fullnægt. Þar til viðbótar hafa námsmenn mjög kvartað yfir því að það kostnaðarmat, sem miðað hafi verið við, sé rangt og þarfnist endurskoðunar.

Í öðru lagi hefur verið á það bent, að núverandi námslánakerfi næði ekki til allra þeirra sem þyrftu þess með að fá lán. Hefur verið bent á ýmsa framhaldsskóla í því sambandi.

Í þriðja lagi hefur verið kvartað yfir því og þá að sjálfsögðu meira af hálfu fjárveitingavaldsins að endurgreiðslur námslána væru hverfandi litlar vegna verðbólguáhrifa og þörfin fyrir nýtt fjármagn yrði því stöðugt meiri, sjóðsmyndunin væri mjög lítil og færi því of mikið fjármagn á ári hverju til þessara þarfa. Námsmenn hafa að sínu leyti orðið að viðurkenna það með sjálfum sér að endurgreiðslukerfið hefur orðið til þess að draga úr möguleikum þess til að gegna hlutverki sínu vegna þess að fjárveitingavaldið hefur ekki útvegað nægilegt fjármagn. Þeir hafa því einnig litið á það sem vankant kerfisins að endurgreiðslan væri svo lítil sem raun ber vitni.

Í þessu sambandi er rétt að skýra hér frá því að í tíð vinstri stj. var lagt fram frv. um námslán og námsstyrki og við afgreiðslu þess frv. í menntmn. Ed. fóru fram miklar athuganir á því hvernig unnt væri að tryggja meiri endurgreiðslu lánanna en verið hefur. Í því sambandi voru settar fram till. sem gerðu ráð fyrir því að lánin væru að hluta til verðtryggð. Þar sem ég bar nokkra ábyrgð á því að till. þessar urðu til þykir mér rétt að segja frá þeim í stuttu máli, enda var það svo að n. var komin á fremsta hlunn með að bera fram till. þessar og mátti heita að samstaða hefði tekist um það í n. að þær yrðu fluttar sem brtt. n. En á seinustu stundu skarst annar stjórnarandstöðuflokkurinn, Sjálfstfl., úr leik og vildi ekki taka þátt í afgreiðslu þessara till., og niðurstaðan varð sú að þing var rofið áður en til afgreiðslu málsins kæmi.

Ég tel ástæðulaust að gera hér grein fyrir hinum ýmsu afbrigðum þeirra till. sem þarna voru á ferðinni vegna þess að það er fyrst og fremst sögulegt atriði, Einu till., sem ástæða er til að gera hér að umtalsefni, eru þær endanlegu till. sem n. var með. Þær voru í grófum dráttum á þann veg að hver námsmaður skyldi eiga þess kost að fá tvenns konar lán úr Lánasjóðnum. Annars vegar V- lán, þ.e. verðtryggð lán, hins vegar U-lán, þ.e. lán miðuð við umframfjárþörf hvers námsmanns. V-lánin eða verðtryggðu lánin voru hugsuð sem föst fjárhæð á ári hverju og var gert ráð fyrir að sú fjárhæð næmi 30% af meðalframfærslukostnaði námsmanna á Íslandi, þessi lán yrðu vaxtalaus, en miðuð við framfærsluvísitölu, afborganir þeirra hæfust þrem árum eftir námslok og þau skyldu að öðru jöfnu greiðast á þrefalt lengri tíma en svaraði þeim fjölda verðtryggðra lána sem námsmaðurinn hefði tekið. U-lánin voru, eins og ég áðan sagði, lán sem miðuð voru við umframfjárþörf hvers einstaks námsmanns þegar frá hefði verið dregin upphæð V-láns. Gert var ráð fyrir því að meginhluti þeirra lána, sem námsmaðurinn tæki, væri lán af þessu tagi með að sjálfsögðu miklu hagstæðari kjörum en verðtryggðu lánin eru og að vextir af þeim yrðu 3% lægri en almennir innlánsvextir á hverjum tíma. Einnig var það ákvæði í þessum brtt. að samtals skyldi greiðsla námsmanns á hverju ári aldrei fara fram úr 8% af tekjum hans. Gert var ráð fyrir því að lánin gætu verið í endurgreiðslu í allt að 25 ár, en hefði greiðslum þá ekki verið lokið skyldu eftirstöðvarnar falla niður.

Hér er einnig rétt að gera grein fyrir því, að stúdentar við Háskóla Íslands hafa mikið látið þessi mál til sin taka og reynt að gera sér grein fyrir því hvert væri hyggilegasta fyrirkomulag þessara mála. Þeir hafa sett fram till. sem ganga að nokkru í svipaða átt og þær till. sem ég gerði nú grein fyrir enda þótt þær séu um annað nokkuð frábrugðnar. Það gildir reyndar svipað um till. stúdenta og um þær till. sem ég gerði grein fyrir áðan, að þar hafa margar hugmyndir verið á ferðinni og það mundi flækja málið býsna mikið ef farið væri að gera grein fyrir mörgum þeirra. Hér geri ég einungis grein fyrir einu ákveðnu frv. sem m.a. er með í þeim gögnum sem stúdentar hafa sent þm. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að lán til námsmanna séu verðtryggð. En námsmenn og stúdentar leggja höfuðáherslu á að þeir hafi sett fram þá hugmynd miðað við að endurgreiðsla Lánanna yrði í ströngu samræmi við greiðslugetu þeirra sem lánin tækju, og skal á það bent að í grg. með þessu frv. stúdentanna segir m.a.: „Það skal tekið skýrt fram til að forða frá algengum misskilningi að þessi vísitölubinding jafngildir engan veginn venjulegri vísitölubindingu. Námsmenn hafa aldrei verið reiðubúnir að fallest á vísitölubindingu nema jafnframt sé tryggt að endurgreiðslur séu í ströngu samræmi við greiðslugetu. Við teljum að vísitölubinding geti aðeins verið réttlætanleg sem tæki til að ná endurgreiðslum af hátekjumenntamönnum, en munum snúast gegn henni af alefli ef hún á að bitna af einhverjum þunga á lágtekju- og meðaltekjumönnum.“ Þeir segja einnig hér á öðrum stað: „Við teljum það grundvallaratriði að lágmarkstekjur, sem samsvari eðlilegum framfærslulífeyri, séu friðhelgar undan endurgreiðslum.“ Með þetta í huga hafa stúdentar sett upp ákveðið endurgreiðslukerfi, sem er í grófum dráttum með þessum hætti. Þeir setja upp hugtakið viðmiðunartekjur sem er miðað við vísitölu og orðað svo í 7. gr. þeirra frv.: „Viðmiðunartekjur eru grunntala framfærsluvísitölunnar leiðrétt til samræmis við ársmeðaltal framfærsluvísitölu.“

Án þess að ég fari að orðlengja, um þessa hugmynd nægir að láta þess getið að viðmiðunartekjur hjóna með tvö börn á árinu 1976 hefðu samkv. þessum útreikningi numið 1147 þús. kr. Og þá segja stúdentar: „Endurgreiðslan á að nema 3.5% af tekjum umfram viðmiðunartekjur.“ Þegar tekjur viðkomandi námsmanna eru orðnar tvöfaldar viðmiðunartekjurnar, sem sagt í þessu tilviki hjá hjónum með tvö börn komnar upp í 2 300 þús. kr., skuli 10% af tekjunum greiðast í Lánasjóð. Það er sem sagt alveg ljóst að lágtekjufólk greiðir lítið samkv. þessu kerfi og það skiptir því ekki ýkjamiklu máli þó að lánin hafi verið verðtryggð á sínum tíma. Fólk, sem aldrei nýtur þess í stórhækkuðum launum að hafa fengið þessi lán, kemur til með að greiða mjög lítið og kannske í einstaka tilviki ekki neitt. En þeir, sem hins vegar greiða að fullu, geta greitt allt upp í 100% verðtryggingu ofan á lánin ef tekjur þeirra eru nægilega háar.

Eins og menn sjá er hér um grundvallarmun að ræða, annars vegar á verðtryggingarkerfi, sem þannig er hugsað að það kemur einungis niður á hátekjumönnum, og hins vegar því verðtryggingarkerfi sem kemur jafnt niður á öllum.

Nú kynnu menn að segja sem svo að þetta kerfi stúdenta tryggði ekki nægilegar endurgreiðslur í Lánasjóð námsmanna. En mér þykir rétt að láta þess getið eð þetta hefir verið nákvæmlega útreiknað af færustu mönnum og samkv. þeim útreikningum kom í ljós að 56% lánanna mundu skila sér að raungildi jafnvel þótt endurgreiðslukerfið væri með þeim takmörkunum sem ég hef hér lýst. Mér er sagt að meðal þeirra manna, sem ræddu um endurskoðun lánakerfisins, bæði meðal námsmanna, meðal fulltrúa rn. og þm., hafi ekki þótt neitt eðlilegt keppikefli að lánin skiluðu sér 100% að verðgildi, það hafi ekki verið talið neitt keppikefli í sjálfu sér að tryggja svo fullkomna endurheimtu fjárins að það ekki aðeins skilaði sér að krónutölu, heldur kannske 100% að verðgildi. Menn töldu að endurgreiðslan gæti verið hæfileg ef hún næmi milli 50 og 60%, og mér er sagt að menn hafi almennt ekki nefnt hærri tölu en 60%. Mér virðist ljóst að till. námsmanna í þessum efnum séu mjög raunhæfar og mundu tákna gjörbyltingu frá því sem nú er í endurheimtu lúna til sjóðsins.

Í bréfi stúdenta, sem kjarabaráttunefnd námsmanna hefur sent hv. þm., er frá því greint að við meðferð málsins í n, hafi skapast samstaða milli 5 nm. af 7 um öll meginatriði frv. Ég vil lesa þennan part úr bréfinu:

„Nú fyrir skemmstu virtust allar líkur á að samstaða gæti náðst meðal 5 nm. af 7 um öll meginatriði frv. Þá gerðist það undarlega að málið var í raun tekið úr höndum n. Og það frv., sem nú liggur fyrir, ber öll merki þess að vera samið af embættismönnum í fjmrn. út frá því meginsjónarmiði að láta sem minnst, en taka sem mest. Í frv. er gengið þvert á öll fyrirheit ráðamanna um að samfara herðingu endurgreiðslna verði full brúun fjárþarfar námsmanna lögfest. Einungis skal stefnt að því marki, en af því orðalagi hafa námsmenn slæma reynslu frá gildandi lögum. Jafnframt þessu eru endurgreiðslukjör námslána hert umfram öll skynsamleg rök.“

Ég ætla þá að víkja að frv. sjálfu og nefna helstu vankanta þess. Það fer auðvitað ekkert milli mála að stærsti gallinn á frv. er endurgreiðslukerfið, en þar er greinilega á ferðinni hugmynd um endurgreiðslu sem er miklu harðneskjulegri en nokkur sú hugmynd, sem áður hefur verið sett fram í þessu sambandi, og miklu harðneskjulegri en virðist hafa verið rætt um meðal nm. fimm sem áður var getið. Í þessu sambandi er auðvitað vert að hafa í huga að enda þótt verðtrygging lána hafi töluvert tíðkast í seinni tíð, þá er það hvergi svo að nokkur þjóðfélagshópur eða hópur lántakenda þurfi að lúta því að endurgreiða lánin með 100% verðtryggingu. Ég nefni bara sem dæmi húsbyggjendur. Lán húsnæðismálastjórnar eru aðeins verðtryggð að hluta til, eins og mönnum mun kunnugt. Eins er um lán úr sjóðum atvinnuveganna, að þau eru að vísu mörg hver verðtryggð að nokkru, en yfirleitt ekki 100%, og þar við bætist að yfirleitt eiga atvinnurekendur þess kost að fá lán úr mörgum sjóðum samtímis. Þeir fá oft lán úr Byggðasjóði til að mynda þar sem lán eru algjörlega óverðtryggð, og þeir fá auk þess bankalán, venjulega í ríkum mæli. Heildarniðurstaðan er því ævinlega sú að lánin eru ekki nema að hluta til verðtryggð. En hér er um það að ræða að lánin verði verðtryggð að fullu.

Einnig er rétt að benda á það að nám stendur ýmist lengur eða skemur og fyrir þá, sem stunda stutt nám og hafa fengið tiltölulega lítið lán, verður greinilega um að ræða 100% endurgreiðslu þessara lána með verðtryggingu vegna þess lágmarksfjárhæðaákvæðis sem sett hefur verið inn í frv. Þetta mun hins vegar væntanlega koma eitthvað öðruvísi út hvað snertir þá sem stunda nám óvenjulega lengi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta atriði að öðru leyti vegna þess að hér er um mjög flókið mál að ræða sem vonandi gefst nægilegt ráðrúm til að ræða og skoða í n. Það er varasamt að vera að fjalla um svo flókið atriði við 1. umr. málsins og full ástæða til að ætla sér tíma til að skoða það betur. En ég vil ítreka það, að það fer ekkert milli mála að sú breyt., sem hér er gerð till. um, að miða við ákveðna lágmarksfjárhæð, 50 þús. kr. á ári í hverju einasta tilviki þegar um endurgreiðslu er að ræða, veldur því að um verður að ræða svo harðneskjulega endurgreiðslu að algjörlega er óviðunandi. Það er því alveg sérstaklega þetta atriði sem þarf að taka til nánari athugunar í hv. menntmn.

Um frv. að öðru leyti ætla ég ekki að fjölyrða mikið. Það hefur ýmsa aðra vankanta en þennan. Eins og ég hef þegar tekið fram kvarta námsmenn yfir því að réttur þeirra sé ekki aukinn með þessu frv., það standi óbreytt í frv. að stefnt skuli að því að opinber aðstoð við námsmenn nægi til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði o.s.frv., en það er ekkert tiltekið um það í lögunum hvenær þessu marki skuli náð. Þetta er auðvitað gríðarlega mikill galli á frv. Þetta gat gengið fyrir 8–9 árum þegar lögin voru sett í fyrsta skipti og var kannske ekkert óeðlilegt á þeim tíma að setja ákvæði af þessu tagi, þó að ég reyndar minnist þess að þegar ég ræddi það frv. á sínum tíma, þá kvartaði ég yfir því að ekki skyldi vera miðað við ákveðinn árafjölda, t.d. 5–6 ár, En það segir sig sjálft að nú, 8 árum síðar, er þetta algjörlega óviðunandi, að ríkisvaldið skuli ekki treysta sér til að setja sér eitthvert ákveðið takmark í þessu efni.

Annar galli á frv. er bersýnilega sá að gerð er allveigamikil breyting á skipan stjórnar sjóðsins. Breytingin er fyrst og fremst í því fólgin að í stað þess að háskólaráð hefur tilnefnt einn af fulltrúum í sjóðsstjórn, skuli nú tveir tilnefndir af menntmrh. Ríkisstj. tilnefnir því samanlagt 3 af 6 stjórnarmönnum. Þar sem formaður stórnar er skipaður af menntmrh. og verði atkv. jöfn við afgreiðslu mála í stjórn sjóðsins sker atkv. formanns úr, þá er ljóst að með þessari breyt. ætlar ríkisstj. að tryggja sér algjöran meiri hl. í sjóðsstjórninni. Þetta hefur ekki verið svo, eins og mönnum er kunnugt. Ríkisstj. hefur ekki haft alger yfirráð yfir sjóðsstjórninni, heldur hefur ríkisvaldið haft 2 fulltrúa af 6 og formaður hefur síðan haft úrskurðarvald ef atkv. hafa orðið jöfn. En segja má að í vissum tilvikum hafi fulltrúi háskólaráðs getað lent í oddaaðstöðu, en hann á sem sagt ekki lengur að vera á stjórnarfundum. Þetta tel ég að sé bersýnilega breyting til hins verra og ég þarf ekki að segja neinum þau tíðindi að námsmenn eru mjög ósáttir við þessa breyt., því að þeir túlka aukin yfirráð ríkisvaldsins yfir sjóðsstjórninni sem minnkandi rétt þeirra og má það til sanns vegar færa.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara að lesa hér bréf kjarabaráttunefndar námsmanna til alþ., enda hef ég nú þegar lesið töluvert úr því og gert grein fyrir öðrum atriðum. Ég vænti þess fyrst og fremst að hv. þm. og hv. menntmn. kynni sér vandlega sjónarmið námsmanna áður en ákvörðun verður tekin um þetta efni.

En segja má að kjarni þess sjónarmiðs, sem námsmenn setja fram, sé að þeir hafi gefið undir fótinn að þeir væru tilbúnir til þess að fallast á verðtrygginga lána og beri því kannske nokkra ábyrgð á því að þessar hugmyndir eru hér komnar fram í frv.-formi, en þeir hafi alltaf gengið út frá því sem algerri grundvallarforsendu í þessu sambandi, að ekki yrði um að ræða verðtryggingu sem kæmi jafnþungt niður á hátekjumönnum og lágtekjufólki, og þeirra till. hafi ævinlega verið við það miðaðar að endurgreiðslurnar yrðu með þeim hætti að lágmarkstekjur, sem samsvara eðlilegum framfærslulífeyri, yrðu friðhelgar fyrir endurgreiðslu. Þetta sjónarmið vil ég leggja þunga áherslu á.

Það er eins með okkur alþb.-menn, að við erum og höfum lengi verið til viðræðu um það að námslán yrðu að einhverju leyti eða jafnvel öllu leyti verðtryggð. En við höfum bundið það allströngum skilyrðum. Við vorum hlynntir þeirri hugmynd sem hér var á ferðinni á sínum tíma, en þá var einungis um það að ræða að 30% af lánunum yrðu verðtryggð og þá með því skilyrði að endurgreiðslurnar færu aldrei fram úr 8% af tekjum viðkomandi lántakanda. Ef aftur á móti er farið út í það að lánin séu algjörlega verðtryggð, þá er bersýnilegt að hverfa verður að einhvers konar fyrirkomulagi sem er í anda þeirra till. sem námsmenn hafa hér sett fram, að lágtekjufólk sé verndað gegn þeim gífurlegu byrðum sem mundu leggjast á þá menn sem tekið hefðu slík lán, en hefðu ekki haft um ævina tekjur í neinu samræmi við þau lán sem þeir hefðu tekið.

Ég vil í þessu sambandi minna á að það er mjög misjafnt hversu vel lán skila sér í hærri launum, og svo ég nefni bara dæmi, þá er auðvitað fjarri lagi að t.d. fóstrur eða barnakennarar ellegar ýmsir þeir, sem stundað hafa húmanísk fræði um langt skeið, njóti þess í stórhækkuðum launum eftir að þeir hafa lokið námi. Það er ekki svo. Og því er bersýnilegt að það er ekki hægt að ganga út frá því að slíkir menn skili aftur fullu verðgildi þeirra lána sem þeir hafa neyðst til að taka á námstímanum öðruvísi en að slíkt fyrirkomulag leiði til snarminnkandi náms á þessum sviðum, menn hreinlega treysti sér ekki til þess að taka lán vegna þessara hörðu endurgreiðsluskilmála.

Ég vil sem sagt lýsa því yfir að lokum, herra forseti, að við alþfl.-menn erum sannarlega til viðræðu um að breyt. verði gerðar á lögum um námslán og námsstyrki. Við teljum að vísu að þær till., sem hér hafa verið lagðar fram, gangi ekki nægilega langt í mörgum atriðum. Og eitt af þeim atriðum, sem ég hef ekki þegar nefnt, er að nauðsynlegt er að tryggja að lögin nái til fleiri aðila en þau hafa gert og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég nefni bara sem dæmi að þegar menntmn. á sínum tíma var að undirbúa frv. til laga eða till. sína til breytinga á því frv. sem þá lá fyrir, þá gerðum við ráð fyrir því að framhaldsdeildir verknámsskóla iðnaðarins og Fiskvinnsluskólans yrðu teknar með inn í lánakerfið með skýrum orðum. Ég veit að vísu að í því frv., sem hér hefur verið lagt fram, er heimild fyrir ráðh til þess að taka fleiri inn í lánakerfið heldur en beinlínis er kveðið á um í 1. gr. og verður auðvitað að vænta þess að svo verði gert. Mér er sagt að hæstv. menntmrh. hafi verið mjög jákvæður gagnvart því sjónarmiði. En að sjálfsögðu væri mjög æskilegt að fá yfirlýsingu hans um það atriði. Kannske kemur þetta fram í grg. (Gripið fram í: Í athugasemdum um 1. gr.) Já, um 1. gr. Það eru sem sagt þeir sem fengið hafa K-lán. En mér er nær að halda að þeir, sem ég nefndi nú seinast, hafi ekki allir notið þeirra. Ég held að þeir, sem stundað hafa nám í framhaldsdeildum verknámsskóla iðnaðarins, hafi ekki fengið þessi K-lán, en ef það er misskilningur hjá mér, þá verður það leiðrétt. Þetta atriði er hægt að skoða nánar í n. Og eins og ég segi, það eru ýmsir aðrir vankantar á frv. sem þörf er á að lagfæra. Við erum sannarlega reiðubúnir að athuga um nýtt endurgreiðslukerfi í stað þess sem nú gildir, en við viljum hins vegar alvarlega vara við mjög hroðvirknislegum vinnubrögðum í því sambandi sem kynnu að leiða til þess að teknar yrðu upp óviðunandi harðneskjulegar endurgreiðslureglur sem gætu haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir menntakerfið.

Ég vil að lokum segja það eitt vegna þeirra orða hæstv. menntmrh. að hann óskaði eftir því að menntmn. flýttu afgreiðslu þessa máls, að ég get vel skilið óskir hans í þeim efnum. En ég vil samt benda honum á að hér er um býsna flókið mál að ræða og er auðvitað sýnu brýnna að málið verði skoðað vel í n. og til þess þarf auðvitað að gefast nokkur tími. Ég heyrði að hann nefndi að úthlutun lána hefði lengi staðið til, og mér skilst að 1. mars hafi verið nefndur í því sambandi. Ég slæ því nú föstu að hæstv. ráðh. láti sér ekki til hugar koma að frv. verði afgr. í þessari viku. Það er auðvitað gjörsamlega útilokað mál með öllu. En ég vil segja það sem mína skoðun að ekki þurfi að vera neitt sérstakt samhengi milli úthlutunar lána á næstu víkum og svo aftur afgreiðslu þessa frv. Mér sýnist að það hafi orðið svo mikill dráttur nú þegar á framlagningu þessa frv. að útilokað sé að ætla sér að fara að tengja þetta tvennt saman og því verði stjórn Lánasjóðsins og rn. að gangast fyrir því að afgreiða lánin nú um mánaðamótin, burt séð frá afgreiðslu þessa frv., enda veit ég ekki betur en við afgreiðslu fjárlaga hafi ekki legið fyrir með hvaða hætti nýtt námslánakerfi yrði og því hafi ekki nauðsynlega verið meiningin að tengja þetta tvennt saman þegar frv. til fjárlaga var afgr.

Ég vil sem sagt leggja á það áherslu að ekki verði flaustrað afgreiðslu þessa máls, heldur gefi n. sér góðan tíma.