25.02.1976
Efri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2155 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

118. mál, ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið til athugunar frv. til l. um ráðstafanir til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða o.fl. N. hefur fjallað um málið á nokkrum fundum, m.a. einum sameiginlegum fundi nefnda beggja d. Það hefur komið fram hér í umr. að málið komi seint frá n. Það er rétt. En hins ber að gæta, að n. verða einnig að fá tíma til að sinna og starfa að þeim málum sem þeim berast, og það er vissulega margt sem mætti betur fara í starfsháttum og skipulagi Alþ., bæði varðandi nefndarstörf og önnur störf, og vonandi getum við tekið það upp að reyna að bæta úr þeim málum. En okkur hefur samt aðeins farið fram frá því í fyrra því að málið kemur þó frá n. 25. febr. í ár, en á s.l. ári var það lagt fram í d. 25. febr., þannig að okkur hefur aðeins farið fram. Og það eru vissulega margar hliðstæður fyrir slíku hér á hv. Alþ.

Með l. nr. 5 frá 1974 var heimiluð álagning sérstaks gjalds til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana og með l. nr. 47/1974 var mælt fyrir um hvernig tekjum af gjaldinu skyldi varið. Það var ákveðið að gjaldinu skyldi varið til þess að styrkja sérhvern einstakling, sem hitar húsnæði sitt með olíu, um 7 200 kr. á ári og u.þ.b. 50 millj. skyldi varið til rafveitna, eða samtals u.þ.b. 700 millj. Ákveðið var með lögum í lok febr. á s.l. ári að hækka nefndan olíustyrk í 8 200 kr. á hvern mann. Jafnframt var ákveðið að verja hluta af tekjum af einu söluskattsstigi til að hraða hitaveitu- og raforkuframkvæmdum. Það er vissulega umdeilanlegt hvort rétt sé að verja hluta gjaldsins til þessara nota, en í þröngri fjárhagsstöðu og á erfiðleikatímum verður að gera fleira en gott þykir í þeim efnum.

Á s.l. ári var kostnaður við upphitun húsnæðis á hvert mannsbarn sem hér segir ef litið er á hinar mismunandi aðferðir til að kynda upp hús: Með hitaveitu, miðað þá við hitaveitu í Reykjavík, en það er langstærsta hitaveita landsins, 6 811 kr. Með rafmagni 15 042 kr. Og með olíu 23 998 kr., að frádregnum olíustyrk 8200 kr. eða nettó 15 798 kr.

Kostnaður elli- og örorkulífeyrisþega er minni vegna hærri styrkfjárhæðar, eins og um er getið í lögunum.

Kostnaður við hitaveitu var því u.þ.b. 43–44% af því sem kostar að kynda með olíu. Þessar tölur lágu fyrir þegar samsvarandi mál var afgreitt á s.l. ári. Samanburður nú er mjög erfiður þar sem ekki hefur orðið nein hækkun á upphitun með rafmagni nú á annað ár og Hitaveita Reykjavíkur hefur ekki fengið hækkun á töxtum sínum þrátt fyrir margar beiðnir. Hins vegar hefur verðlag á olíu farið hækkandi, m.a. vegna hækkunar á erlendu verðlagi. Núv. taxti Hitaveitu Reykjavíkur er 39.36 kr. fyrir hvert tonn, en það er einsýnt að þetta gjald mun hækka. Hitaveita Reykjavíkur fór fram á 32% hækkun frá s.l. áramótum eða 41.8% frá 1. mars. Þótt ekki sé gert ráð fyrir því að Hitaveita Reykjavíkur og aðrar hitaveitur, — því að hún er vissulega ekki ein um það að hafa farið fram á hækkun, en þess ber að geta að taxti margra hinna nýrri hitaveitna er mun hærri, — en þótt ekki sé gert ráð fyrir því að Hitaveita Reykjavíkur og aðrar hitaveitur fái umbeðnar hækkanir er ekki ólíklegt að vatnsverð á tonn verði a.m.k. 50 kr. Með því hækkaði kostnaður á hvert mannsbarn miðað við Hitaveitu Reykjavíkur í 10 643 kr. úr 8 377 kr. í dag. Þessa staðreynd hljótum við að þurfa að hafa í huga þegar um samanburð er að ræða hér á milli. Olíukostnaður hefur hins vegar hækkað á árinu úr 23 998 kr. á hvert mannsbarn að meðaltali í 30 056 kr. eða um 6056 kr. Með þeirri hækkun olíustyrks, sem hér er lagt til, þ.e.a.s. hækkun úr 8200 í 9500 kr., verður þessi hækkun nettó 4756 kr. og er þá upphitunarkostnaður á hvert mannsbarn með olíu að frádregnum olíustyrk 20 556 kr., en heldur lægri hjá elli- og örorkulífeyrisþegum vegna hærri styrkfjárhæðar.

Upphitun með rafmagni hefur hins vegar ekki hækkað, eins og ég hef áður getið um þótt það sé ljóst að framleiðslukostnaður á viðkomandi rafmagni hefur hækkað, m.a. vegna þeirrar staðreyndar að hluti af því rafmagni er framleiddur með olíu sem hefur hækkað verulega.

Mismunur á upphitunarkostnaði frá hitaveitu annars vegar og með olíu hins vegar var þegar síðasta breyting var afgr., þ.e.a.s. hækkun úr 7 200 í 8 200 kr., — mismunurinn var þá 8987 kr. á hvert mannsbarn, en með þeim till., sem hér koma fram, má vænta þess að mismunurinn verði ca. 9900 kr. ef vatnsverð Hitaveitu Reykjavíkur hækkar ekki meira en í 50 kr. tonnið, en hins vegar minnkar þessi munur ef gengið verður að öllum beiðnum Hitaveitu Reykjavíkur. Það er því ljóst að líkur eru á að þessi mismunur muni aukast lítillega.

Hitt er hins vegar staðreynd, að sá mikli munur, sem er á kyndingarkostnaði með olíu annars vegar og hitaveitu hins vegar, verður ekki að fullu jafnaður við núverandi aðstæður með styrkjum. Það er hins vegar nauðsynlegt að ráðast af krafti í framkvæmdir sem tryggi upphitun alls húsnæðis með hitaveitum og með raforku, því að það er einsýnt að allnokkur hluti landsins hefur litlar líkur til að fá hitaveitu.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir að til olíustyrkja fari u.þ.b. 750 millj., en ekki liggur ljóst fyrir hvað þurfi til rafveitna, en áætla má u.þ.b. 50 millj. kr. Er því gert ráð fyrir því að u.þ.b. 450 millj. fari til Orkusjóðs. Það er alveg ljóst að Orkusjóður þarf mikið fé til að standa undir því forgangsverkefni sem við höfum sett okkur, þ.e. að nýta innlenda orkugjafa. Gert er ráð fyrir að Orkusjóður greiði u.þ.b. 125 millj. í afborganir og vexti umfram það sem inn kemur í lánum og vöxtum. Ríkissjóður hefur staðið undir þessum mismun. Það kom fram í n. að talið er nauðsynlegt að ríkisstj. taki upp málefni Orkusjóðs í því skyni að mæta þessum greiðslum og tryggja honum nauðsynlegt fé. Einnig ber nauðsyn til að ákveða skiptingu þessa fjár í því skyni að tryggja sem bestan árangur fyrir þjóðarbúið í heild.

Ég gat þess áður að meira fé þyrfti til orkumála. Ég hafði vænst þess að náðst gæti um það samstaða að þeir, sem búa við bestan hag í dag í orkumálum, væru reiðubúnir að leggja nokkuð á sig til að tryggja meira fjármagn til hitaveitu- og raforkuframkvæmda. Þar má nefna að með sölugjaldi á heitt vatn, eins og var hér áður mætti tryggja verulegar tekjur til orkuframkvæmda. Um þetta er vissulega ekki samstaða, en ég vænti þess að hæstv. ríkisstj. taki slík mál til gaumgæfilegrar athugunar í þeim vanda sem við erum í.

Ég vil t.d. benda á það, að olía er að hluta til skattlögð með sérstöku innflutningsgjaldi. Þessi skattur nemur u.þ.b. 1300 kr. á hvert mannsbarn. Þessi skattur er hins vegar ekki nýr. Hann hefur verið allt frá 1971 og var áður en þetta sérstaka innflutningsgjald var lagt á, þá var sams konar skattur um 1800 kr. Svipað gjald á þá aðila, sem nota aðra orkugjafa, svo sem heitt vatn, mundi gefa a.m.k. 200 millj. Ég bendi aðeins á þetta án þess að þessi mál hafi verið sérstaklega rædd ofan í kjölinn í fjh.- og viðskn.

Meiri hl. n. leggur sem sagt til að frv. verði samþ. með þeirri breyt. að olíustyrkur verði hækkaður úr 8 200 kr. í 0 500 kr. N. taldi nauðsynlegt að koma að einhverju leyti til móts við þær miklu hækkanir sem hafa orðið á árinu við olíukyndingu, þótt hins vegar sé ljóst að það sé aðeins lítið skref í þeirri viðleitni að jafna þann mun.