02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2317 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

129. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta hér örfá orð falla til þess að lýsa yfir stuðningi við þessa till. og málflutning hv. 7. landsk. þm., 1. flm., sem fylgdi henni úr hlaði.

Það er lagt til að stofnaður verði sjóður eða stofnlánadeild til þess að veita stofnlán til kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og stórvirkum vinnuvélum, Það er hverju orði sannara að þeir menn, sem þennan atvinnurekstur stunda, eiga hvergi höfði sínu að að halla í þessum efnum, og það er ekki einungis erfitt fyrir þá að kaupa ný atvinnutæki, það er einnig mjög erfitt að skipta um atvinnutæki. Þetta þekkjum við margir af eigin raun, má segja. Það hefur verið bent á Byggðasjóð í þessu efni. Það er nú orðin tíska og raunar sjálfsagt að nefna nafn hans þegar slík vandamál ber á góma sem snerta landsbyggðina sérstaklega. Og Byggðasjóður mun á s.l. ári hafa hlaupið undir bagga í þessu máli, en einungis til bráðabirgða, þannig að enn er ekkert form komið á þessar fjárveitingar.

Flm. benda á tvær leiðir: annars vegar að Framkvæmdasjóður leggi til lánsfé og í öðru lagi komi til gjald frá eigendum þessara atvinnutækja sem þeir skiluðu til sjóðsins eftir vissum reglum. Þetta er rétt ábending þegar hafðir eru í huga ýmsir aðrir stofnlánasjóðir. En aðalatriðið er það, sem ég vil ítreka, að þessir menn hafa verið ákaflega illa staddir á undanförnum árum, eins og mörg dæmi sanna, og það er full ástæða til þess að athuga vandamál þeirra að þessu sinni af fullu raunsæi.