08.03.1976
Efri deild: 72. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

190. mál, vinnsla mjólkur í verkföllum

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hv. flm. þessa frv. lét falla um það ástand, sem skapaðist á búum bænda við verkfallsaðgerðirnar meðan síðustu kjarasamningar stóðu yfir. Bændur urðu fyrir mjög tilfinnanlegu fjárhagstjóni og þarf ég ekki að rifja það upp.

Tjón er tvíþætt. Annars vegar verða bændur að halda áfram fullum tilkostnaði við fóðrun kúnna og hins vegar að kasta á glæ verðmætri framleiðslu sem full þörf er á í landinu og jafnvel vöntun á sumum tegundum hennar. Allir sjá því hversu fráleitt þetta er og að ég hygg allsendis óþekkt fyrirbæri í öðrum atvinnugreinum.

Margir vilja jafna saman aðstöðu bændanna og aðstöðu frystihúsanna við þessar aðgerðir. Það er að nokkru leyti rétt, en þó er á því stigsmunur. Ef vélstjórar frystihúsanna legðu niður vinnu jafnskilyrðislaust og mjólkurfræðingar hafa gert mundu að sjálfsögðu fara fljótlega forgörðum þær framleiðsluvörur sem þar væru innan dyra. En frystihúsin eru ekki undir þá sök seld, eins og bændur, að þurfa jafnframt að standa undir þeim kostnaðarþáttum sem er undirstaða framleiðslu þeirra, svo sem kaupum á hráefni til vinnslu eða rekstrarkostnaði véla og frystitækja húsanna. Þarna skilur mjög á milli. Þrátt fyrir þennan mun hygg ég að ekki hafi komið til stöðvunar á vélum frystihúsanna um langt skeið. Hygg ég að um það gildi samkomulag eða samningur milli aðila, þannig að ekki komi verkfall til framkvæmda hjá vélstjórum þeirra svo að þau verðmæti, sem eru innan veggja, spillist ekki. Mér er ekki alveg kunnugt um þetta, en ég fæ ekki betur séð en þannig hljóti í málunum að liggja. Eðlilegast væri að ná einnig slíkum samningi milli mjólkurbúa og mjólkurfræðinga. Um það hljóta menn að vera sammála. En reynslan sýnir okkur, að slíkt samkomulag er ekki til.

Mjólk var hellt niður í stórum stíl í síðasta verkfalli og ótalið magn mjólkur spilltist svo að stórafföll urðu á verðmæti hennar, en bændur máttu standa undir rekstrarkostnaði í jafnríkum mæli og þegar mjólkin nýtist með venjulegum hætti.

Ef ekki fæst samkomulag, sem tryggir áfallaminni tilhögun í mjólkurbúunum á verkfallstímum, tel ég alveg sjálfsagt að láta reyna á það hvort hér á Alþ. er ekki fylgi fyrir því að setja löggjöf sem tryggi bændur að þessu leyti, löggjöf sem gengur í sömu átt og frv. það sem hv. 1. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, flytur á þskj. 399 og hann mælti fyrir hér áðan. Ég vil lýsa því yfir að ég er því fylgjandi að það verði athugað gaumgæfilega í n. og samþ., ef meðferð málsins leiðir ekki til lausnar eftir öðrum leiðum á vanda mjólkurframleiðenda eins og hann blasti við allra augum í síðasta verkfalli.

Ég vil þakka flm. fyrir að hafa flutt þetta frv. Ég vil líta á það með jákvæðum hætti og láta reyna á það hvort nauðsyn er á lögfestingu í þessu eða öðru formi til þess að bjarga frá þeim voða sem við blasti og menn urðu fyrir í síðasta verkfalli.