08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það eru aðallega Maó formaður og hans félagar þarna austur í Kína sem tala um pappírstígrisdýr. Ég er ekki víss um að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi lagt alveg réttan skilning í þau fræði þegar hann talaði um fjölbrautarskóla sem pappírstígrisdýr. Ég sé nú að hann er horfinn úr salnum, svo að ég get ekki farið nánar út í þessi fræði við hann. En þegar Maó og þeir kumpánar tala um pappírstígrisdýr, þá eru þeir að tala um stórveldi kapítalismans sem muni reynast álíka þrekmikil og hættuleg, þegar til komi, eins og tígrisdýr úr pappír. Ég get ekki séð að þetta eigi neitt skylt við fjölbrautaskóla hér uppi á Íslandi.

Hins vegar er é g að mörgu leyti sammála því sem hv. þm. sagði. Reyndar er ég sannfærður um að hæstv. menntmrh. er líka alveg sammála því mörgu. Ég hygg að gagnrýni þá, sem hv. þm. setti hér fram, eigi aðrir frekar skilið en núv. hæstv. menntmrh. Ég er alveg sannfærður um að núv. hæstv. menntmrh. skilur það, eins og ég tel mig líka skilja það, að það er mikil nauðsyn fyrir okkur að halda því gamla kerfi sem kom m.a. fram í sumarmenntuninni sem hv. þm. talaði um. Ég býst við að flestir hv. þm , hvar sem þeir eru nú staddir í þjóðfélaginu með sitt ævistarf, geti borið því vitni hvað mikla þýðingu það hafði að ungt fólk, — og þá er ég að tala sérstaklega um þá sem fóru í langskólanámið, — að þetta unga fólk fór á sumrin annaðhvort upp í sveit eða til sjós eða í bæjarvinnuna hér í Reykjavík og vann með alþýðu þessa lands. Ég er sannfærður um að fátt er þýðingarmeira en þetta að því er varðar viðhald þessa þjóðfélags og menningar þessarar þjóðar. Það voru hin nánu kynni milli streita, milli fólks af ýmsum uppruna, sem þetta tryggði, og ég tek undir með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að þetta er mjög þýðingarmikið. En lenging skólatímans hins vegar miðar að því að afnema þetta ágæta kerfi. Og það er rétt, sem hann segir, að því unga fólki fjölgar nú ískyggilega sem gengur í gegnum allan sinn skóla og síðan til starfa í þjóðfélaginu, í einhverju embætti t.d., án þess að hafa kynnst þjóðinni eins og kynslóðirnar gerðu á undan.

Ef ég væri spurður um það hvert væri grundvallarviðhorf mitt til þessara mála, þá mund í ég svara að okkur beri að viðhalda eins lengi og mögulegt er þessu gamla kerfi og stytta ekki sumarfríið, gefa skólafólki okkar sem allra mest tækifæri til þess á sumrin að fara út á meðal bænda, sjómanna, verkamanna til þess að menntast.

Ég get líka tekið undir það með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að það er að verða satt að segja óþolandi hvað hér vaða upp ýmiss konar tískufyrirbæri. Það er verið að sækja handa þessu sérstæða þjóðfélagi okkar og ekki bara á sviði skólamála, — það er verið að sækja fyrirmyndirnar endalaust til annarra þjóða. Menn koma sprenglærðir úr einhverjum útlendum háskólum með bóklærðar kenningar sem síðan, skv. þeim bókum sem þeir hafa lesið, eiga að duga til að leysa tiltekin vandamál. Í skólamálum hygg ég að það sé iðulega þannig, að þessir lærðu menn koma heim með lausnina á vandamálinu, en raunveruleikinn segir þeim þá ef þeir skyggnast í hann, að vandamálið er ekki fyrir hendi. Og þá er bæði meðvitað og ómeðvitað farið að finna upp vandamálið til þess að það stemmi við lausnina. (Gripið fram í.) Þetta er ekki íhaldsmennska. Þetta er bara skilningur á kringumstæðum.

En hér er verið að ræða frv. sem stefnir að því að taka inn í ríkiskerfið, — setja á ríkisframfæri, skulum við segja, — tvo skóla sem hingað til hafa verið á framfæri annarra aðila. Þetta eru Samvinnuskólinn og Verslunarskólinn, þessir tveir verslunarskólar. Ég hygg að það sé ekki hægt að meta þessa tvo skóla að jöfnu þegar við veitum þessu máli fyrir okkur. Mér sýnist það sé nokkur munur á hvort skóli er rekinn af aðila eins og samvinnuhreyfingunni, fjöldahreyfingu, eða rekinn af Verslunarráði eða kaupsýslustéttinni íslensku. Þetta er að mínum dómi ekki alveg það sama. Með þessu er ég ekki að segja að ég sé andvígur að báðir þessir skólar yrðu teknir inn í kerfið á þennan hátt. En ég vil strax segja það að ég er ekki í neinum vafa um að það er rétt að taka Samvinnuskólann inn í kerfið á þennan hátt. Að meginstofni til er Samvinnuskólinn í mínu kjördæmi, í mínu héraði, og ég er alltíður gestur þar, hef fylgst nokkuð með þessum skóla, veit t.d. að þrátt fyrir mikil fjárframlög frá samvinnuhreyfingunni kostar það gríðarlega mikið að vera á þeim skóla. Frv. þetta stefnir að sjálfsögðu að því að auðvelda mönnum að standast þann kostnað, — fólki sem hefur ekki mikil auraráð. Skólinn sjálfur er líka að mínum dómi fyrirmyndarskóli, rekstur hans allur, andrúmsloft þar allt til fyrirmyndar. Ég hef fáum stofnunum kynnst sem mér sýnast eins líklegar til þess að auka þroska ungs fólks, og þá er ég ekki bara að tala um verslunarmenntunina sem það fær þarna, heldur það andrúmsloft sem þarna ríkir. Og veit ég það reyndar af nokkuð náinni reynslu. Sem sé, ég hef nokkurn fyrirvara varðandi Verslunarskólann í þessu máli, en ég er eindreginn stuðningsmaður þess að Samvinnuskólinn fái þennan ríkisstuðning.