15.03.1976
Neðri deild: 79. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2560 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

158. mál, vátryggingariðgjöld fiskiskipa

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var lagt hér fram þá sýndist mér í fljótu bragði að verið væri að gera tiltölulega einfalt mál mjög flókið, þar sem gert er ráð fyrir, að Landssamband ísl. útvegsmanna þurfi að setja upp allstórt skrifstofubákn hjá sér til þess að vinna það verk sem því er ætlað með frv. Ég skal taka fram að ég er samþykkur efni frv. að því leyti, að það er ekki óeðlilegt að tryggt sé að vátryggingariðgjöld skipa séu greidd þannig að vátryggingafélög lendi ekki í neinum vandræðum eða vanskilum við þá sem þau tryggja fyrir. En eftir að ég hafði rætt við forstöðumenn Landssambands ísl. útvegsmanna, þá fékk ég á því skýringu hvers vegna frv. gerði ráð fyrir milligöngu þess í sambandi við innheimtu tryggingariðgjalda. Þeir bentu á að þetta væri eitt af samkomulagsatriðum sem gert hefði verið í nýgerðum samningi milli útvegsmanna og sjómanna, og einnig annað, sem ég tel miklu meira virði og var ástæðan fyrir því að ég skrifaði athugasemdalaust undir nál. um frv., þær upplýsingar, sem komu fram hjá Landssambandinu, að með þessu móti, ef þeir væru milliaðili, skapaðist þeim aðstaða til þess að vinna, að því að fá hagstæðari tryggingar fyrir fiskiskipaflota landsmanna heldur en nú er. Það var ástæðan fyrir því að ég gerði ekki aths. við frv., að ég taldi þetta það mikið grundvallaratriði ef Landssambandi ísl. útvegsmanna tekst með því að gerast milliaðili í sambandi við innheimtu tryggingariðgjaldanna að fá sterkari aðstöðu til þess að fá lækkuð tryggingariðgjöldin á íslenskum fiskiskipum. Það hefur verið bent á það réttilega hér, eins og reyndar kemur fram í grg. frv., að tryggingariðgjöld hér eru orðin alveg geysilega há. Maður hlýtur að hrökkva nokkuð við þegar maður sér að heildartryggingariðgjöld af fiskiskipaflotanum eru áætluð 1700–1800 millj. kr.

Nú hefur það gerst í vaxandi mæli að tryggingarnar hafa verið gerðar óhagstæðari en þær voru í upphafi, þegar Tryggingasjóður tók að sér greiðslu tryggingariðgjalda af útflutningsgjöldum. Árið 1975 greiddi Tryggingasjóðurinn 70.5% af tryggingariðgjaldinu, og var þá miðað við að sjálfsábyrgð hvers tryggjanda væri 1000 kr. miðað við smálest, a.m.k. af bátum upp að 100 tonnum, en þó ekki yfir 85 þús. þátttaka í hverju tjóni. Nú aftur gerist það við þá breytingu, sem gerð hefur verið, eins og kom fram hjá hæstv. sjútvrh., að hluttaka Tryggingasjóðs í iðgjöldunum mun fara niður í 30% og a.m.k. hefur verið um það rætt, að þátttaka tryggjenda í hverju tjóni nemi allt að 5000 kr. á hverja smálest. Frá þessu mun ekki hafa verið gengið enn, en þessar tölur hafa heyrst nefndar, þó þannig að á smærri bátum yrði þetta miðað við hámark 85 tonn eða 425 þús. kr. þátttaka í hverju tjóni. Maður gæti ímyndað sér, þegar þetta skeður, að þátttaka tryggjenda er aukin allverulega, að þá væri hægt að fá iðgjöldin af tryggingunum allverulega lækkuð.

Ég tel það vera eitt af stærri málum útgerðarinnar að það verði unnið mjög ákveðið að því að koma á hagstæðari tryggingum fyrir fiskiskipastólinn heldur en nú er. Það má vel vera að á því séu einhverjir erfiðleikar. En ég held þó að ef málin fara í þennan farveg, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að samtök útgerðarmanna sjálfra verði þarna milliaðili og gæti tryggt það að tryggingariðgjöldin verði greidd reglulega, þá eigi að vera hægt að fá tryggingarnar verulega lækkaðar. Það kemur fram í grg. frv., eins og kom fram hjá frsm. minni hl., að allt að 9% af heildarafla fiskiskipa fer orðið til greiðslu aðgjalda eða áætlað tæpir tveir milljarðar á ári. Þegar við það bætist að í skýrslum, sem þm. voru afhentar á s.l. ári frá Þjóðhagsstofnun, sýnir það sig að vextir sjávarútvegs og fiskiðnaðar nema um 4 milljörðum á ári, þá erum við komnir á þessum tveimur útgjaldaliðum fiskiðnaðar og sjávarútvegs í 6 milljarða af þeim 10 milljörðum, sem útgerðin heldur af 20 milljarða tekjum. Ég held að þessi mál hljóti að verða að endurskoða, því að mér er ómögulegt að sjá hvernig útgerð á raunverulega að geta staðið undir rekstrinum miðað við meðalafla ef ekki verður þarna einhver breyting á til hagræðis fyrir útgerðina.

Eins og ég tók fram áðan, þá er ástæðan fyrir því að ég skrifaði undir nál. athugasemdalaust þessi, að ég tal að Landssambandinu skapist þar aðstaða til að útvega hagstæðari tryggingar fyrir útgerðarmenn heldur en nú er. Ég var nú víst sá nm. í sjútvn. sem frsm. minni hl. var að tala um að hefði skrifað undir nál. án þess að vera viðstaddur á fundi. Þetta er alveg rétt. Ég var búinn að lýsu því yfir við formann n. á fyrri fundinum að hann mætti setja nafn mitt undir nál., ég væri því samþykkur, ætlaði síðan að mæta á síðari fundinum, en tafðist suður í Hafnarfirði, þannig að það fór ekkert á milli mála hjá formanni n. hver mín afstaða var. Enda held ég að sé langt frá því að vera einsdæmi að þm. skrifi undir nál. þótt þeir hafi ekki náð til að mæta á fundi þegar málið var afgreitt, ef þeir eru því samþykkir.

Það, sem ég vildi fá hér fram, var yfirlýsing frá ráðh. í sambandi við aths. sem ég gerði á nefndarfundinum sem ég mætti á og formaður n., sem átti að vera frsm., lofaði að sjá um að hér kæmi fram. Hún kom að vísu að nokkru leyti fram í ræðu hæstv, ráðh., en ég vil fá hana alveg skýra, en það er varðandi 3. gr., þar sem stendur: „Þó er heimilt að endurgreiða skipseiganda innistæðu skipsins fyrr séu vátryggingariðgjöld skipsins að fullu greidd.“ Ég tel að þarna verði að koma fram alveg skýlaus yfirlýsing frá hæstv. ráðh. við þessa umr. að þetta verði alveg skýrt afmarkað, að í þeim reglum sem hann samkv. 5. gr kemur til með að setja, verði alveg skýrt afmarkað, að í þeim reglum sem hann samkv. 5. gr kemur til með að setja, verði alveg skýrt ákveðið að séu iðngjöld að fullu greidd, þá verði innheimtu þeirra hætt eða þá a.m.k. endurgreiði Landssamband Ísl útvegsmanna þau iðgjöld sem kunna að hafa verið tekin fram yfir það sem viðkomandi aðili hefði annars átt að greiða. (Sjútvrh.: ég tók þetta fram áðan.) Já, ég tók eftir því, en mér fannst það ekki koma nægilega skýrt. Ég tel að þessi yfirlýsing þurfi að koma fram, en ef hæstv. ráðh. telur sig hafa tekið þetta alveg skýrt fram og það komi í þeim reglum, sem settar verði í sambandi við þetta, þá er auðvitað þessari kröfu minni alveg fullnægt. En ég tel að þetta verði að liggja alveg skýrt fyrir, þannig að það þurfi ekki að vera neitt rex á milli aðila og tryggjendur þurfti ekki að standa í neinu rexi við Landssambandið um að það geti haldið eftir svo og svo miklum fjármunum frá þeim vaxtalaust kannske í nokkra mánuði. Það má vel vera að þetta sé ekki stórt atriði, en ég tel formið á því vera þess eðlis að þetta. verði að vera alveg skýrt þegar í upphafi, að fyrir útgerðarmönnum verði þarna ekki haldið neinum fjármunum umfram það sem þeim ber að greiða í tryggingar fyrir skip sín.

Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál frekar. Mér er alveg ljóst að þetta frv. þarf að ná fram að ganga sem allra fyrst og ég lýsi stuðningi mínum við það eins og ég hef gert með undirritun minni á nál., af því að ég hef þá trú að ef rétt er að staðið og rétt að unnið sé það til hagsbóta fyrir útgerðina í heild.