16.03.1976
Sameinað þing: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2581 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

72. mál, niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir til umr., er einn angi af landbúnaðarstefnu Alþfl. Till. þeirra um eignarráð á landi er önnur hlið á því máli, en þar leggja þeir til, sem kunnugt er, að eignarráð landsins verði að nokkru leyti tekin af bændum. Ég hef áður lýst mig andvígan þeirri till. Ég tei að eignarráð bænda á landinu tryggi best varðveislu þess. Og það er kannske rétt að geta þess, vegna þess að það hefur ekki komið nægilega skýrt fram í umr. til þessa, að gróður landsins er ekki reiknaður til verðs í verðlagsgrundvelli og hvert strá, sem vex í haganum, láta bændur ókeypis í té. Það fóður, er skepnan tekur af óræktuðu landi, er hvergi reiknað til verðs.

En þessi till. er um breytta skipan á niðurgreiðslum á landbúnaðarafurðum. Það er rétt að taka það fram að bændur hafa aldrei beðið um niðurgreiðslur á sölustigi á afurðum. Hvað eftir annað hafa bændur beinlínis varað við þeim. Niðurgreiðslurnar eru hagstjórnartæki ríkisvaldsins til þess að halda niðri vísitölu, eins og hv. frsm. viðurkenndi réttilega. Vísítalan er að sumu leyti rangt hugsuð, í upphafi og raunar afskræmd í meðförum. T.d. tel ég að skattar eigi ekki og megi ekki vera í vísitölunni og það sé í eðli sínu rangt að atvinnurekandi greiði skatta launþegans. Ríkið er einn stærsti atvinnurekandinn. Ríkið þarf skatttekjur og leggur skatta á. Vísitalan hækkar við það og þá þarf ríkið að greiða hærra kaup, og þannig gengur hringavitleysan áfram. Atvinnuvegirnir bera sig ekki og stöðugt er byrðunum velt yfir á framtíðina. Þetta samhengi tel ég að verði að rjúfa. Mjög verulegur hluti efnahagsvandans er sprottinn af því að skattarnir eru í vísitölunni. En bændur hafa varað við niðurgreiðsluleiðinni, m.a. vegna þess að það er erfitt að snúa niður af niðurgreiðsluhjólinu. Vinnslu- og dreifingarkostnað er ekki með öllu óeðlilegt að greiða niður. Bændur eiga t.d. skv. grundvellinum frá 1. sept. 1975 að fá 392.98 kr. fyrir hvert kg af dilkakjöti. Slátrunar- og heildsölukostnaður var 95 kr. á kg, söluskattur 69.56 kr., smásöluálagning 22.82 kr. Óniðurgreitt heildsöluverð var 500.42 kr. Niðurgreiðslan var 175.70 kr. og smásöluverðið 417 kr., þannig að 24 kr. vantaði upp á að slátrunar- og dreifingarkostnaður væri greiddur niður.

Bændur hafa stundum óskað eftir niðurgreiðslum á frumstigi framleiðslu, svo sem niðurgreiðslu á áburðarverði. Þessi leið var farin eftir nákvæma athugun n. í fyrra og varið var til þess þá 750 millj. kr. Sú leið gafst mjög vel, og ég hygg að það gæti vel komið til álíta að fara svipaða leið oftar en í það eina skipti.

Það var laukrétt hjá hv. frsm. að niðurgreiðslur eru náttúrlega styrkur til neytenda. Niðurgreiðslur eru vissulega há upphæð, en það mætti t.d. lækka hana með því að ríkið innheimti ekki söluskatt af landbúnaðarafurðum. Ég fékk útreiknað 15. des. 1975 hve mikill söluskattur á landbúnaðarafurðum hefði verið árið 1974. Það ár var hann rúmar 550 millj. kr. Ég held að farsælla væri að fella söluskattinn niður af þessum afurðum og lækka niðurgreiðslunnar að því skapi.

Hvað varðar útflutningsbæturnar sem koma jafnframt til umr. í þessari grg., þá er um þær að segja að skv. 12. gr. framleiðsluráðslaganna, nr. 101 frá 1966, er skýlaust kveðið svo á að allt að 10% af heildarverðmæti sé verðbætt ef þurfi að flytja það út. Ég tel að þetta sé réttmætt ákvæði vegna þess hve landbúnaður er háður óvissum þáttum. Framleiðslumagn er t.d. mjög háð veðurfari. Óþurrkar voru í sumar og mjólkurskortur þar af leiðandi og þar á ofan bættist afgreiðslustöðvun á áburði vegna verkfalls í áburðarverksmiðjunni, þannig að áburður komst ekkí á túnin í tæka tíð. Þess vegna er ekki hægt að nýta þurrkflæsur. Heyfengur um talsverðan hluta landsins var hrakinn og bændur kviðu vetrinum. Íslendingar hafa fyrr kviðið vetrinum. Þann kvíða hafa þeir t.d. reynt að kveða niður með því að segja að það sé bara „að þreyja þorrann og góuna og þá beri kýrin“. Í ár dugði bændum ekki að þreyja þorrann og góuna. Í ár máttu þeir bændur, er áttu sínar kýr óbornar, hrósa happi vegna þess að þá var aftur komið verkfall, meira að segja öðrum þræði pólitískt verkfall, svo sem leiðaraskrif Vinnunnar báru gleggstan vott um, og bændur urðu að hella mjólkinni niður. Á 10 dögum fóru mánaðarlaun kúabóndans, því að vinnuþátturinn er 30% í verðlagsgrundvelli og að sjálfsögðu þurftu kýrnar sitt fóður. þó að það væri verkfall og sömu hirðingu. Hógværum óskum þessarar láglaunastéttar, þessarar mestu láglaunastéttar í landinu, til ASÍ um undanþágu var mætt með fullkominni óbilgirni og jafnvel kjafthætti. Þetta fyrirkomulag, að kúabændur geti átt það yfir höfði sér að fá verkfall tvisvar á ári, verður til þess að menn þora ekki að byggja afkomu sína á. kúabúskap og fara heldur í það að framleiða kjöt og hætta á að ekki verði verkfalt í sláturtíðinni. Þetta skapar aftur á móti vandamál út af útflutningsuppbútum. Nú er flutt út dilkakjöt, en mjólkurskortur er í landinu.

Ákvæðið um útflutningsuppbætur er eitt eðlilegasta lagaákvæði sem viðreisnarstjórnin setti um landbúnaðarmál. Er þetta ákvæði var sett í lög var horfið frá fyrra fyrirkomulagi, að jafna upp í afurðaverði innanlands þann verðmismun er varð á sölu landbúnaðarafurða erlendis, þannig að bændur nálguðust útreiknaðar tekjur sínar ákvarðaðar með lögum að skuli að vera í samræmi við tekjur viðmiðunarstéttanna. Það fyrirkomulag hafði verið staðfest með dómi, og sá réttur, er það skapaði, var af bændum tekinn með lögfestingu núverandi fyrirkomulags. Mér þykir núverandi fyrirkomulag eðlilegra, m.a. vegna þess að með því er hlutur neytenda betur tryggður og hamlað er gegn verðbólgu.

Ég fyrir mitt leyti er ekki til viðtals um að breyta núverandi fyrirkomulagi. Það er hagfræðiprófessor, sem reiknar það út hve há upphæð kæmi á hjón með þrjú börn ef farið væri inn á þá leið sem lagt er til í þessari till. Mér finnst þetta fyrst og fremst vera óskynsamlegur leikur að tölum. Einu sinni sendi hæstv. fyrrv. fjmrh. tékka heim til manna, þeirra sem ekki greiddu tekjuskatt. Ekki held ég að hann hafi orðið hökufeitur af því. Núv. ríkisstj. hefur að vísu bætt úr sumum agnúum þessa kerfis. Endurgreiðslukerfi skatta er hálfgerður óskapnaður enn þá, og skattakerfið má ekki verða samningsatriði við verkalýðshreyfinguna. Alþingi þarf að hafa vald til þess að ákveða skattheimtu af þegnunum á hverjum tíma án þess að þurfa að sækja um leyfi til þess til manna úti í bæ. Ekki svo að skilja að ekki sé sjálfsagt að hlusta eftir hugmyndum þeirra, en ákvörðunin verður að vera Alþingis, en ekki samningsatriði ríkisstj. og hagsmunaaðila. Alþ. þarf að ákveða hvað miklu á að eyða til félagslegra þarfa, til samneyslunnar, og afla tekna á þann hátt að þeir beri byrðarnar sem breiðust hafa bökin. Það verður ekki gert með því að bannsyngja tekjuskattinn, heldur með endurbótum á tekjuskattskerfinu. Það er allt of einföld leið að láta Björn Matthíasson eða einhvern úr þeirri skúffu deila í áætlunartölu og fá út 100 þús. á hjón með 3 börn.

Ég vil — með leyfi forseta — lesa nokkrar setningar á bls. 4 í grg. svo að hv. þm. fái numið spekina:

„Leið, sem kæmi til greina í þessu sambandi og væri gaumgæfilegrar athugunar verð, væri fólgin í því að í stað þess, að kjör neytenda séu bætt með því að lækka verð á landbúnaðarafurðum, sem nú eru greiddar niður, verði neytendum greidd í peningum sú fjárhæð sem ríkissjóður nú ver til niðurgreiðslna og neytendum síðan í sjálfsvald sett hvernig þeir ráðstöfuðu þeim. Ætti að sjálfsögðu ekki að greiða tekjuskatt eða útsvar af þessum greiðslum nú heldur ætti opinberum aðilum að vera heimilt að taka þetta fé til greiðslu opinberra gjalda.“

Og seinna:

“Ef greiðslurnar yrðu hafðar jafnháar til einstaklinga án tillits til tekna, eins og sjálfsagt virðist vera, leiddi slík ráðstöfun tvímælalaust til kjarajöfnunar, miðað við núgildandi niðurgreiðslukerfi.“

Mér kemur í hug þegar Halldór Laxness orti um verkalýðinn norska „sem dró úr sjónum þúsund milljón þorska og það fór mest í sukk og óráðsíu“. Ég er hræddur um að Mallorka- og Kanaríeyjarfamilíurnar yrðu ekki saddar til langframa á þessum tékkum, jafnvel þótt, eins og segir í grg., „ætti þá að sjálfsögðu ekki að greiða tekjuskatt eða útsvar af þessum greiðslum né heldur ætti opinberum aðilum að vera heimilt að taka þetta fé til greiðslu opinberra gjalda.“ Nei, ekki einu sinni mætti borga opinber gjöld. Það mundi ekki heldur passa inn í þetta hagfræðikerfi. Það yrði ekki nógu áberandi. Sýndarmennskan krefst þess að svo verði ekki gert. Orðalag sýndarmennskunnar og blekkinganna leynir sér ekki. Og ég vitna aftur til grg.:

„Ýmis rök hníga að því að neytendur teldu það geta aukið raungildi tekna sinna“ o.s.frv. Takið eftir: „teldu það geta“. Ég hefði orðað þetta öðruvísi í sporum fim.: Ýmis rök hníga að því að raungildi tekna neytenda mundi aukast — eða eitthvað í þá áttina, svo framarlega sem ég tryði þessum rökum sjálfur, og ég vona þrátt fyrir allt að hv. flm. geri það ekki sjálfir.

Við skulum ekki tala um gjaldeyrissjóðinn. Ég er kurteis maður og vil ekki vera neyðarlegur við tillögumenn. En í framhjáhlaupi skulum við rétt aðeins renna huganum til gjaldeyrisstöðunnar, til dönsku kökubotnanna og til kexins frá bandalagsþjóð okkar bretum, djússins frá Flórída, sólargeislans fræga, innfluttu kjúklinganna o.s.frv., o.s.frv., sem ætti að koma í staðinn fyrir niðurgreiddar landbúnaðarvörur framleiddar hér. Ég tala nú ekki um grasið sem frsm. ræddi um, hvað þá þvottaduftið sem ég vona sannarlega að enginn fari að leggja sér til munns.

Flm. telja sjálfsagt að hafa greiðslurnar jafnháar á einstaklinga án tillits til tekna og láta, eins og segir í grg., sig ekki muna um að telja það verða til tekjuöflunar: 100 þús. kr. á fátæklingana og 100 þús. á tugmilljókerana sem flakka út um heiminn mikinn hluta ársins — til þess að jafna tekjurnar hjá þeim. Þrátt fyrir það að ýmislegt fari aflaga hjá hæstv. ríkisstj. og hafi farið aflaga hjá vinstri stjórninni líka, þá er svo guði fyrir að þakka að hér hafa allir nóg að borða. Það er fjarstæða að halda því fram að ekki sé yfirleitt á borðum lágtekjufólks nægur og góður matur. Við höfum öll nóg að borða sem vinnuþrek höfum og höfum efni á því að snæða kjöt og mjólk. Ef munurinn væri einhver, væri hann í þá áttina að ríkir menn yrðu frekar að gæta hófs við matborðið vegna holdarfars. Ríkir menn dvelja lengur í útlöndum en fátækir og rífa þar í sig suðræna kryddrétti, grísi og rauðvín og hænsni og romm, á meðan hinir efnaminni gæða sér á lambakjöti og mjólk hér heima. Lakur efnahagur kemur fyrst og fremst fram í minni ferðalögum, ódýrari og færri bílum, einfaldari og ódýrari íbúðum og vandaðri fatnaði, en ekki því að menn þurfi að spara við sig fæðu, sem betur fer.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, sem einu sinni var heimsfrægur viðskmrh. um langt árabil, getur ekki skrifað upp á svona till. og flutt hana hér á Alþ., hvað þá hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sem því miður er ekki hér í salnum, en hann hefur meira að segja gott vit á fjármálum og skýra og rólega hugsun.