16.03.1976
Sameinað þing: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2594 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

122. mál, hönnun bygginga á vegum ríkisins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Gífurlegur kostnaður við hönnun mannvirkja hins opinbera hefur orðið til þess að menn hafa velt vöngum yfir því með hvaða hætti það mætti bæta úr. Þeir hv. þm., sem flutt hafa þessa till. sem hér liggur fyrir til umr., hafa komið auga á þá leið að athuga hvort ekki mundi henta að setja upp sérstaka teiknistofu á vegum ríkisins til þess að sinna þessu verki meir en gert er nú. Ég vil taka það fram, að ég tel að þessi till. sé allrar athygli verð og beri að skoða hverja þá leið sem hægt sé að koma auga á til þess að freista þess að draga úr óhóflegum tæknilegum kostnaði við opinbera mannvirkjagerð.

Hv. flm. gat þess að þegar væru raunar nokkrar stofnanir starfandi í landinu sem sinntu þessu verki nokkuð. Hefur þar fyrst og fremst verið um að tefla embætti húsameistara ríkisins til þessa verks. Það má og meðferð till. að öðru leyti kemur vitaskuld til skoðunar í n. og skal ég ekki frekar um það fjalla hér.

Hv. flm. gat þess m.a. að Húsnæðismálastofnun ríkisins hafi á undanförnum árum veitt húsbyggjendum mikilvæga og ódýra þjónustu í sambandi við teikningar íbúðarhúsa. Þetta er fyllilega rétt. En það er nú svo að eftir að þessi stofnun, tæknideild Húsnæðismálastofnunar ríkisins, hóf að starfa að málefnum opinberra eða hálfopinberra aðila, þá hefur kveðið við nokkuð annan tón í sambandi við reikningar fyrir störf frá henni. Inn á þetta mál kom einmitt síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi Seljan.

Sú er orsökin til þess, að ég hef undir höndum reikninga frá tæknideild Húsnæðismálastofnunar ríkisins fyrir tæknilega aðstoð við byggingu á leiguíbúðum úti á landi, blokkarbyggingu eins og hv. þm. Helgi F. Seljan minntist á, — reikningar sem ég taldi þess virði að koma hér á framfæri til þess að það sæist hvernig þeir reikningar hljóða sem þessi ágæta stofnun hefur látið frá sér fara.

Það tiltekna mannvirki, sem hér um ræðir, er blokkarbygging sem rúmar 9 íbúðir. Ég hef leyft mér að liða þennan kostnað í sundur þannig að reikna að meðaltali á íbúð og gera því jafnframt skóna hvað reikningar yrðu háir ef þessar 9 íbúðir væru eins konar þverskurður af þeim kostnaði sem tæknideild Húsnæðismálastofnunar ríkisins mundi leggja á byggingu hinna 1000 leiguíbúða sem fyrirhugað er byggja í landinu. Þá er fyrsti liður þessa reiknings með þeim hætti sem kallað er fyrir vinnu við frumáætlanir leiguíbúðaframkvæmda 11 þús. á íbúð. Árleg fyrirgreiðsla, forvinna tæknilegs undirbúnings á íbúð 29 987 kr. Kostnaðaráætlun, útboðslýsing, tilboðsskrá, útboð, úrvinnsla til útboða, samningar o.s.frv. 5 555 kr. á íbúð. Hönnunarkostnaður, verklýsing, kopíur, staðlar, ljósrit, möppur o.s.frv., afgreiðslu- og skrifstofukostnaður 193 916 kr. á íbúð. Samtals eru þetta 240 458 kr. á íbúð, eða m.ö.o., ef reiknað væri á 1000 íbúðir með þessu verði yfir allt landið, 240 millj. 458 þús. kr. sem tæknideild Húsnæðismálastofnunar ríkisins hyggst taka fyrir þann þátt að undirbúningi þess verks sem þarna er á ferðinni.

Þar með er ekki öll sagan sögð, og hv. þm. Helgi Seljan kom einmitt að því einnig í sínu máli, að eftirlit af hálfu arkitekta og hönnunaraðila væri oft og tíðum drjúgur kostnaðarhluti við byggingu mannvirkis. Til viðbótar þessum kostnaði frá hendi tæknideildar Húsnæðismálastofnunar ríkisins gerir hún ráð fyrir á þessum reikningi að þurfa að innheimta til viðbótar vegna kostnaðar við eftirlit, úttekt og lokauppgjör á byggingartímanum 2.5% af byggingarkostnaði. Nú skal ég ekkert um það segja hvað kostnaðarverð verður á þessum íbúðum. Ef t.d. væri reiknað með að kostnaðarverð væri 8 millj. á íbúð, þá er hér um að ræða 200 þús. kr. á íbúð eða 200 millj. fyrir hinar 1000 íbúðir í landinu, leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga. Og þá kemur heim dæmið hjá okkur hv. þm. Helga Seljan, að ef þessir liðir eru lagðir saman, þá hyggst þessi stofnun taka fyrir sína þjónustu, þ.e. frumáætlanir, árlega fyrirgreiðslu, hvað sem það er nú, forvinnu tæknilegs undirbúnings, kostnaðaráætlanir, útboðslýsingar, hönnunarkostnað, verklýsingar, kopíur, staðla o.s.frv., afgreiðslu- og skrifstofukostnað, hvorki meira né minna en ca. 240 millj. plús eftirlit og lokauppgjör sem gæti verið ca. 200–250 millj., eða samtals 450–500 millj. kr.

Hér er að mínum dómi um slíka reikninga að tefja að ekki nær nokkurri átt. Hér er um að ræða stofnun sem er opinbert fyrirtæki, — stofnun sem m.a. er sett á laggir til þess að veita ódýra og hagkvæma þjónustu, og hún fær verkefni sem sýnist vera sérstaklega einfalt í sniðum þar sem eru íbúðarbyggingar, venjulegast blokkarbyggingar, þar sem teikningar ættu að geta verið a.m.k. í mjög mörgum tilvikum þær sömu víðs vegar um landið, sem sé staðlaðar byggingar í mörgum greinum, og ætlar sér að taka allt að hálfum milljarði kr. fyrir þá þjónustu sem þarna er veitt. Það gefur sannarlega ekki góðar vonir um að það sé rétt að ganga langt á þeirri braut að fela opinberum aðilum sjálfdæmisvald í því að annast þessa þjónustu. En þó að ég segi þetta hér, þá er ég ekki þar með að lýsa andstöðu við þá till. sem hér er flutt, því að sú leið, sem hún bendir á, er að mínum dómi þess verð að hún sé athuguð eins og aðrar hugmyndir sem fram koma til þess að freista þess að draga úr þessum mikla kostnaði við hönnun opinberra mannvirkja í landinu.

Ég skal ekki fara út í þessi efni mörgum fleiri orðum. Ég get aðeins tekið undir það, sem fram hefur komið hér hjá ræðumönnum, að í mörgum tilvikum hefur orðið um óhóflegan kostnað að ræða, í fyrsta lagi í sambandi við hönnunarkostnað og óhóflegan kostnað við gerð opinberra mannvirkja vegna þess að arkitektar hafa sýnst leggja meira upp úr ýmsu öðru en notagildi mannvirkis. Það ætti að mínum dómi að freista þess, eftir því sem kostur er, að staðla opinber mannvirki eða einstaka þætti þeirra. Enda þótt réttmætt hljóti að vera að nokkurrar tilbreytni gæti, þá eru þó ýmsir hlutar mannvirkis með þeim hætti að það ætti að mega staðla þá hvarvetna um landið og það meira að segja þótt um sé að ræða opinber mannvirki fleiri en einnar tegundar.

Ég skal svo ekki lengja þetta meira. Ég taldi sjálfsagt og réttmætt að kynna þá reikninga sem ég hef hér undir höndum, svo að það megi verða til viðvörunar um það, að þegar opinberar stofnanir, sem í raun hafa jafnvel um langan aldur veitt einstaklingum ódýra og hagkvæma þjónustu, fá það verk í hendur að þjóna hinu opinbera, þá geta þær sætt lagi til þess að setja upp reikninga sem eru með öllu óhóflegir og óforsvaranlegir.