16.03.1976
Sameinað þing: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

122. mál, hönnun bygginga á vegum ríkisins

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir við þessa till. og skemmtilegar umr. um hana. Inn í þær hefur dregist nokkuð bygging leiguíbúða og þáttur tæknideildar Húsnæðismálastofnunar í því sambandi. Ég hef haft það lengi á tilfinningunni og raunar fleiri og ég hygg flestir þeir sem málið hafa hugleitt, að Húsnæðismálastofnunin er að reisa leiguíbúðirnar með rasshendinni. Leiguíbúðirnar hafa aldrei verið óskabörn Húsnæðismálastofnunar, ekki neitt í svipuðum mæli svo sem Breiðholtsíbúðir Framkvæmdanefndar byggingaáætlunar voru á sínum tíma. Þess vegna flutti ég í fyrra hér í hv. Sþ. þáltill. um jafnrétti sveitarfélaga í dreifbýli og Reykjavík í húsnæðismálum, þar sem ég fór fram á það við ríkisstj. að hún léti endurskoða lög um leiguíbúðir þannig að þau yrðu færð til samræmis við löggjöfina um Breiðholtsíbúðir. En lög um leiguíbúðirnar eru með allt öðrum hætti orðuð og með allt öðrum ákvæðum en Breiðholtsíbúðirnar. T.d. segir í lögum um Breiðholtsíbúðir að ríkinu sé skylt að leggja fram allt að 80% af byggingarkostnaði, en í leiguíbúðalögunum eða lögum um 1000 leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga segir að helmilt sé að leggja fram allt að 80%. Þessi leyfi hafa alls ekki verið auðfengin, byggingarleyfin fyrir leiguíbúðum. Þau hafa forráðamenn hinna einstöku sveitarfélaga mátt toga út úr Húsnæðismálastofnuninni og það hefur kostað þá ekki fáar ferðir hingað suður sem mættu kannske bætast við hina voðalegu reikninga tæknideildar, því að það er náttúrlega ekki gert fyrir ekkert að ganga hér dögum og vikum saman um staðinn við að toga út þessi leyfi. Að endingu fengust í fyrravetur lánsloforð fyrir nokkrum hluta af þessum íbúðum sem beðið var um. Og það var heimilað að byrja á nokkrum til viðbótar án þess að fyrirheit væri gefið um lán eða dagsetningar í því sambandi. Nú hefur húsnæðismálastjórn aftur gefið út ný lánsloforð fyrir nokkrum hluta þeirra, en engan veginn öllum. Og síðan á að láta leiguíbúðirnar standa undir kostnaði við rekstur tæknideildarinnar eða jafnvel við rekstur Húsnæðismálastofnunar. Það er verið að gera leiguíbúðirnar visvítandi að einhverri grýlu á fólkið í landinu, einhverju ferlíki til „skræk og advarsel“. Það á að hræða sveitarfélögin frá því að ráðast í byggingu leiguíbúða með svona voðalegum reikningum.

Það fer ekkert á milli mála að það var full þörf fyrir þessar leiguíbúðir. Menn ganga ekki að því að gamni sínu að ráðast í svona verkefni, forráðamenn sveitarfélaga. Það er misskilningur hjá húsnæðismálastofnunarfólki, ef það lítur svo á. Um nauðsynina bera vottinn hinar fjöldamörgu umsóknir sem borist hafa. Sumir þeir, sem hér hafa tekið til máls, hafa lagt til að sú leið yrði farið að víkka út húsameistaraembættið. Ég hef ekkert á móti því, síður en svo, enda er tekið fram í grg. að við teljum að endurskipulagning húsameistaraembættisins geti vel komið til greina, og ég hygg að með skipulagsbreytingum þar á gæti húsameistaraembættið vel annað þessu. En húsameistaraembættið hefur líka átt undir högg að sækja hjá arkitektum og það hefur legið undir stöðugum árásum undanfarið frá einstökum arkitektum sem maður hefur einhvern veginn haft á tilfinningunni að væru að jafna um það embætti vegna þess að það væri eitthvað að éta frá þeim. Í uppsiglingu er enn eitt mál. Þeir eru farnir að kvaka, því að það á að byggja skóla uppí í Breiðholti sem á að kosta 800 millj. og það eru einhverjir komnir þar með puttann hjá Reykjavíkurborg sem eru óhreinir til þess að hanna svo dýrt mannvirki, ekki með bréf upp á það að þeir megi teikna svona dýrt eða svona stórt og jafnvel kannske hvergi til nema á pappírnum. Það verður fróðlegt að sjá framvindu þess máls, en vafalaust verður Seljasókn ekki hannaður nema fyrir töluvert fé.