04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

30. mál, kjaradómur og launamál opinberra starfsmanna

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. að sjálfsögðu fyrir svör hans. Ég hlýt hins vegar að vekja athygli á því að það virðist vera stefna hans — og í jafnmikilvægu máli hlýtur afstaða hans að túlka afstöðu ríkisstj. í heild — að vera sú að bíða átekta þangað til Kjaradómur kemur saman og sjá þá hvort fulltrúar opinberra starfsmanna í Kjaradómi komi til þess fundar. Það er að sjálfsögðu ekki mitt hér á þessum stað og þessari stundu að spá nokkru um hvað muni gerast. En mér sýnist af þeim tveim bréfum sem BSRB hefur ritað fjmrh. að augljóst sé að þeir hyggist ekki koma til fundar þegar þeir verða boðaðir, eins og hæstv. fjmrh. nú hefur greint frá að hann ætli að láta reyna á. Ég hef þannig ástæðu til að halda að fulltrúar opinberra starfsmanna muni ekki mæta í dómnum, og það er sú staðreynd sem gerir málið allt jafnalvarlegt og það er í raun og veru, því að þá vaknar sú spurning hvort Kjaradómur skipaður án fulltrúa opinberra starfsmanna sé þær að fella úrskurð um kaup þeirra og kjör. Það má vel vera að virta lögfræðinga greini á um hvernig túlka beri gildandi lög í því sambandi, þ. e. a. s. hvort Kjaradómur án fulltrúa opinberra starfsmanna sé bær um að kveða upp dóm um kjör þeirra eða ekki. Mér er hins vegar kunnugt um að margir mjög hæfir lögfræðingar draga í efa að skv. gildandi lögum geti slíkur úrskurður Kjaradóms talist gildur gagnvart launþegum. Ef svo er, þá er augljóst að í algjört öngþveiti stefnir í þessum máli. Það er nauðsynlegt að sem fyrst fáist hér hreinar línur. Eins og ég sagði áðan, hefur það ekki einungis þýðingu fyrir opinbera starfsmenn, heldur fyrir alla aðila vinnumarkaðarins. Þær línur skortir nú, en ég vona að þær skýrist sem fyrst.