04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

36. mál, húsaleigumál bandarískra hermanna og flugvallarstarfsmanna

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu svara þeirri fsp. sem hv. 3. þm. Reykn. hefur borið hér fram um það hversu margar íbúðir bandarískir hermenn og flugvallarstarfsmenn hefðu á leigu utan flugvallar haustið 1974 og svo hverjar væru sambærilegar tölur nú.

Eins og áður hefur verið skýrt frá opinberlega hefur varnarliðið heimild til þess að hafa 270 fjölskyldur búsettar utan varnarsvæðanna. Búseta þessi er háð leyfisveitingu hverju sinni og annast varnarmáladeild framkvæmd þessara mála. Leyfisveitingar hafa því verið 270 hvort haustið um sig, en smávægileg breyting hefur orðið milli kaupstaða og kauptúna í Gullbringusýslu og Reykjavík sem ég mun nú lesa.

Það er fyrst Keflavík 1974 166, 1975 166. Njarðvík 1974 74, 1975 74. Sandgerði 1974 6, 1975 10. Hafnarfjörður 1974 5, 1975 9. Reykjavík 1974 9, 1975 5. Vogar 1974 2, 1975 3. Hafnir 1974 4, 1975 2. Kópavogur 1974 2, 1975 1 og Garðahreppur 1974 2, 1975 engin. Þetta gerir, eins og ég áðan sagði, 270 íbúðir hvort haustið um sig.

Svo er hér bætt við frá varnarmáladeild: Í þessum tölum eru ekki taldar rúmlega 30 fjölskyldur þar sem annar hvor makinn er íslenskur ríkisborgari og á því lögum samkv. rétt til búsetu hér á landi, hvort sem um karl eða konu er að ræða.

Rétt er að geta þess að varnarliðsmenn, sem hafa fjölskyldur sínar hjá sér, dveljast hér nær undantekningarlaust í tvö ár. Leigjendaskipti eru því alltíð þó að heildartalan sé sú sama á hverjum tíma. Einnig er nokkur mismunur á því frá ári til árs hve margir varnarliðsmenn óska að taka fjölskyldur sínar með sér hingað til lands. Fer það eftir ýmsu, svo sem skólagöngu barna eða unglinga svo og því að sé fjölskyldumaður hér án fjölskyldu sinnar er hámarksþjónustutíminn eitt ár.

Vegna skorts á íbúðarhúsnæði á Keflavíkurflugvelli og hámarkstölu þeirra, sem mega hafa búsetu utan varnarsvæðanna, hefur komið fyrir að biðtími sumra fjölskyldna hefur komist upp í allt að 5 mánuði. Hafa þá sumar fjölskyldumæður gripið til þess ráðs að koma hingað sem venjulegir ferðamenn á eigin kostnað að öllu leyti, þ, e. að þeir fá hvorki ferðakostnað né húsaleigustyrk greiddan eins og mundi vera ef þær hefðu húsnæðisleyfi.

Í því skyni að ráða bót á þessu ástandi svo og til þess að koma í framkvæmd ákvæðum í samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna um búsetu varnarliðsmanna á varnarsvæðunum, sem hv. 3. þm. Reykn. gerði að umtalsefni, hefur verið hafist handa um byggingu íbúðarhúsnæðis á Keflavíkurflugvelli, Þar eru nú í byggingu 132 fjölskylduíbúðir og á byggingu þeirra að vera lokið næsta haust. Jafnframt er ráðgert að hefja byggingu 250 fjölskylduíbúða snemma á næsta ári. Byggingartími er áætlaður 18 mánuðir þannig að þessar íbúðir ættu að vera tilbúnar til notkunar haustið 1977.

Ég vona að ég hafi svarað fsp. hv. 3. þm. Reykn. með þessum talnaupplestri og þeim fáu orðum sem ég leyfði mér að bæta við.