07.04.1976
Efri deild: 86. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3079 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð um þetta mál við þessa 1. umr.

Ég vil fyrst lýsa ánægju minni með það starf sem hefur verið unnið að úttekt orkumála á Vestfjörðum. Ég held að ekki verði um það deilt að sú n., sem að því starfaði, vann gott starf og vann það hratt og vel, og koma niðurstöður hennar fram í þeirri skýrslu sem þm. hafa fengið um orkumál Vestfjarða. Þar er gerð ítarleg úttekt á ástandi orkumála í kjördæminu og komist að ákveðinni niðurstöðu og ákveðinni forgangsröðun verkefna. Sú niðurstaða, sem þar er í raun og veru í mínum huga mikilvægust, er að leggja beri áherslu á leit að jarðhita, og aðrar framkvæmdir, eins og lína inn í kjördæmið eða virkjanir heima fyrir, ráðist mjög af því hvernig sú leit takist. Má segja að þetta hafi verið ljóst, en engu að síður er þetta nú tekið saman af sérfræðingum mjög vandlega, gerður samanburður á ýmsum kostum sem þarna koma til greina við orkuöflun og, eins og ég sagði áðan, þessum framkvæmdum raðað í forgangsröð. Sýnist mér rannar að svo mætti vera víðar. Þarna er að finna mikinn fróðleik á einum stað um orkumál Vestfjarðakjördæmis. Einnig hefur n. tekið sér fyrir hendur að setja í frv.- form till. frá Fjórðungssambandi Vestfjarða um Orkubú Vestfjarða. Það er mjög athyglisvert mál, og hefur tekist að sameina sveitarfélögin á Vestfjörðum um þessa lausn. Tel ég það töluvert afrek. Þar voru skoðanir mjög skiptar, en menn hafa sæst á þessa leið. Þarna eru sameinaðar fjórar rafveitur, þrjár rafveitur heimamanna og Rafmagnsveitur ríkisins, í eitt orkubú.

Í þessu frv. eru mörg mjög athyglisverð atriði, eins og t.d. sú viðleitni að koma rekstri fjarhitunarstöðva og raforkukertisins á eina hönd. Það er enginn vafi á því að þetta er mjög mikilvægt mál fyrir vestfirðinga. Líklegt er að hitun þar með jarðhita verði ýmsum erfiðleikum bundin vegna þess að jarðhiti þar er takmarkaður og hitastig er lágt. Því er líklegt að gripa þurfi til raforku til viðbótar heim jarðhita sem fáanlegur er. Er því mikilvægt að þetta sé á einni hendi. Einnig hefur þarna verið gerð mjög athyglisverð athugun á hagkvæmni annars vegar beinnar rafhitunar í heimahúsum eða hitunar frá fjarhitunarstöðvum þar sem nota má hitaveitu, raforku eða svartolíu eftir því sem þörf krefur. Niðurstaðan er sú að það sé skynsamlegast og hagkvæmast þegar tekið er tillit til þessara kosta allra að byggja slíkar kyndistöðvar. Þetta er tvímælalaust hlutur sem aðrir landshlutar ættu að skoða einnig nánar.

Í þessu frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að öll orkumál Vestfjarða, þ.e.a.s. einnig orkuframleiðslan, verði á einni hendi. Um þetta má deila, það viðurkenni ég, og á þetta hefur verið deilt, m.a. af síðasta hv. ræðumanni sem ég heyrði deila á þetta í ræðu í Sþ. Ég get að mörgu leyti tekið undir orð hans þar um. Ég er þeirrar skoðunar að raforkuframleiðslan í okkar landi og dreifing raforkunnar milli landshluta eigi að vera á einni hendi. Ég er þeirrar skoðunar að aðeins með því móti fáist sú hagkvæmni í hönnun, framkvæmd og rekstri okkar orkuvera sem áreiðanlega er nauðsynleg, og við getum kannske dregið þá ályktun af þeim umr., sem nú fara fram í Sþ. Þetta á að verða að mínu mati sú heildarstefna sem hér verður fylgt.

Ég get einnig tekið undir það, að það hefði verið æskilegt að hafa þessa stefnu fyrirliggjandi nú þegar lagt er fram frv. um Orkubú Vestfjarða. Ég get einnig tekið undir það, að varasamt er e.t.v. að setja þrjár eða fleiri sjálfstæðar n. til þess að athuga orkumál hinna ýmsu landshluta. Ég hygg að þarna þurfi að verða á veruleg samræming. En það er þó staðreynd að það, sem hér er lagt til, er veruleg bót á því ástandi orkumála sem nú ríkir í Vestfirðingafjórðungi. Það eru, eins og ég sagði áðan, fjórar veitur sem verða sameinaðar. Það er enginn vafi á því að þarna fæst langtum betri samræming í rekstri, og þótt þessi samræming nái eingöngu til Vestfjarðakjördæmis er að því mikil framför. Ég tel því að vestfirðingar eigi að fá að njóta þess að hafa þarna riðið á vaðið. En ég vil jafnframt láta koma hér fram að ég lít svo á að þegar samstaða næst nm annan hátt á orkuframleiðslu og vinnslu hér á landi, þá hljóti einnig það kerfi, sem þarna kann að verða upp tekið og verður upp tekið ef frv. verður samþ., að verða endurskoðað. Ég legg ekki síst áherslu á þetta með hagsmuni vestfirðinga sjálfra í huga. Ég er þeirrar skoðunar að jafnaðarverð eða sama gjaldskrá fyrir orkuframleiðsluna í landinu öllu sé háð því að a.m.k. orkuframleiðslan og heildsöludreifing orkunnar sé á einni hendi, og ég óttast að vestfirðingar, sem eiga ekki tök á nema tiltölulega litlum vatnsaflsvirkjunum, kunni að sitja þar við annað borð ef þeir verða utan slíks samrekstrar orkuframleiðslunnar. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að svo geti orðið þótt það frv., sem nú liggur fyrir, verði samþykkt og þessi skipan tekin upp á Vestfjörðum, e.t.v. þá til bráðabirgða. Vel má vera að inn í það frv., sem nú liggur fyrir, ætti að bæta ákvæðum sem tryggi að þetta verði endurskoðað ef og þegar samstaða næst um slíkan samrekstur orkuveitnanna. Þetta vil ég gjarnan að komi hér fram um leið og ég lýsi ánægju minni með það mikla starf, sem n. hefur unnið og að mjög mörgu leyti með það frv. sem nú er lagt fram.