05.11.1975
Efri deild: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

42. mál, söluskattur

Flm. (Stefán Jónesson):

Herra forseti. Við hv. þm. Helgi F. Seljan flytjum hér frv. til l. um breyt. á l. nr. 10 frá 1960, um söluskatt. Frv. hljóðar svo:

„Á eftir 1. málsgr. 9. gr. l. komi eftirfarandi: Óheimilt er þó að leggja söluskatt á vöruflutningagjöld, afgreiðslugjöld og tryggingagjöld af varningi sem fluttur er út fyrir lögsagnarumdæmi innflutningshafnar eða framleiðslufyrirtækja, og reiknast þau gjöld því ekki með í söluskattstofni.“

Síðan er 2. gr. um gildistöku laganna.

Ég ætla að lesa hérna grg.: „Oft hefur því verið hreyft á hv. Alþ. að rétt sé að jafna sem allra mest má verða flutningskostnað á landi hér, á þann veg að þegnarnir sitji við sama borð án tillits til heimilisfangs. Mörg lagafrv. hafa verið borin fram um ráðstafanir til þess að samfélagið í heild greiddi flutningskostnað af vörum til hinna ýmsu byggðarlaga. Er ljóst af Alþt. að þorri alþm. hefur löngum talið að þetta væri réttlætismál og þjóðþrifamál í senn. Reynslan sýnir hér enn sem fyrr að ekki er ýkjamikil stoð í góðri meiningu einni saman, og þótt ekki teljist til eindæma tregða löggjafans gegn því að gera rétt (sbr. Rómverjabréf, 17. kafla, 19. vers“ — sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Hið góða, sem ég vil gjöra, það gjöri ég ekki, en hið illa, sem ég vil gjöra, það gjöri ég.“) „þá er það skoðun flm. að til fádæma hljóti að teljast sá andhælisháttur er ráðin skal bót á með frv. þessu um breyt. á l. um söluskatt, sem birtist í því að hv. Alþ. skuli leggja fimmtungs byrðar ofan á þess háttar ok sem dreifbýlisfólkinu er gert að rísa undir þar sem flutningsgjöldin eru.

Til skýringar skulu nefnd hér nokkur dæmi um söluskatt af flutningsgjöldum út á land: Flutningsgjald á dráttarvél, sem vegur 1600 kg, með bíl frá Reykjavík til Þórshafnar nemur 18 080 kr. og virðist sú upphæð vissulega ærin viðbót við kaupverðið. Síðan leggur ríkið lögum samkv. söluskatt á flutningsgjaldið og nemur hann þá 3 616 kr.

Fyrir nokkrum dögum fékk Kaupfélag langnesinga á Þórshöfn sendar 13 lestir af hveiti með bíl. Flutningskostnaður frá innflutningshöfn nam 146 900 kr. Söluskatturinn, sem ríkið heimtir af því gjaldi og neytendur fyrir norðan borga, nemur 29 3811 kr.

Svo tekið sé dæmi um söluskatt af flutningsgjaldi fyrir byggingarvöru skal þetta nefnt:

Til einangrunar ú 130 fermetra húsi þarf 254 fermetra af þriggja þumlunga þykku einangrunarplasti. Flutningsgjaldið með bíl frá Reykjavík nemur 54 864 kr. Ofan á það leggst söluskattur að upphæð 10 964 kr.

Hér eru tilgreind flutningsgjöld með bifreiðum. Verslanirnar úti um land notfæra sér skipaferðir eftir því sem hægt er til þungavöruflutninga, en verður æ óhægara um vik með hverju árinu sem líður. Eins og starfshættir Skipaútgerðar ríkisins eru nú, þar sem ekki er tekið á móti vörum til flutnings frá Reykjavík nema takmarkaðan tíma í viku hverri og eins og nú er kreppt að kaupfélögunum með rekstrarfé neyðast verslanir fólksins úti um land í síauknum mæli til að nota bifreiðar og jafnvel flugvélar til vöruflutninga og eru flutningsgjöldin enn hærri með flugvélunum og munar þá enn meir um 20% söluskatt á þau.

Loks er að víkja að afgreiðslugjöldunum og tryggingagjöldunum sem við leggjum til að undanþegin verði söluskatti. Nú er söluskattur lagður á þessi gjöld við afgreiðslu vörunnar. Afgreiðslugjöldin eru því reiknuð með í söluskattsstofni og síðan enn lögð á þau skattur, þannig að hér er um tvísköttun að ræða og lögleysu.“

Í grg. víkjum við flm., herra forseti, að óréttlætinu sem í því felst að ríkið, sem þó ber að gæta réttlætis milli þegnanna, skuli enn auka ójöfnuðinn með því að þyngja þann bagga sem dreifbýlisfólkinu er gert að bera í mynd flutningskostnaðar af nauðsynjavörum og rekstrarvörum frá innflutningshöfnum þéttbýlissvæðanna. Við athugun laganna frá 22. mars 1960, um söluskatt, og við lestur á ræðum þm., er fjölluðu um setningu þessara laga, kemur ekki neitt í ljós sem bendir til þess að ætlunin hafi verið að söluskattur stuðli að því að mismunur ykist á vöruverði milli innflutningshafna eða framleiðslubæja og dreifbýlisstaðanna. Flest bendir til þess að hið gagnstæða hafi verið ætlunin, þ. e. a. s. að svo yrði um hnútana búið að landsmenn sætu hér við sama borð. Í 7. gr., II. kafla 1., 3. tölul. er kveðið skýrt á um það að vöruflutningar skuli undanþegnir söluskatti. Þetta undanþáguákvæði stangast þó á við 1. mgr. 9. gr. l. þar sem kveðið er á um að söluskattur miðist við heildarendurgjald eða heildarandvirði vöru, starfsemi og þjónustu án frádráttar nokkurs kostnaðar eða þjónustugjalds, án tillits til þess í hverju greiðsla er fólgin. Í framkvæmd hefur undanþáguákvæðið í 7. gr. verið túlkað þannig að fyrirtækin, sem vöruflutninganna annast, skuli ekki innheimta söluskattinn, heldur sé það verslunin sem innheimtir söluskattinn, þannig að vöruflutningagjöldin leggjast við annan kostnað skv. 9. gr. og teljast til söluskattsstofns.

Hér er um að ræða missmíði á löggjöf sem leitt hefur til ranglætis er allt of lengi hefur dregist að leiðrétta, og hlýtur það að koma til Alþingis sjálfs að lagfæra þessa missmíð sína. Það virðist fullreynt fyrir löngu að sú aðferð hv. Alþ. að játa mistök sín með því að samþykkja ályktanir um það með hvaða hætti óljós löggjöf skuli framkvæmd og beina þeim til ríkisstj. kemur sjaldan í stað beinnar lagabreytingar. Það mun vera nær óbrigðult pólitískt lögmál að embættismenn aðhyllast þá meðferð við framkvæmd laga sem auðveldust er. Og þegar um skattheimtu er að ræða sem tvímælis orkar, þá er tómahljóðið í ríkiskassanum látið gilda sem lögskýring og virðist þá litlu skipta, hvaða Matthías það er sem ræður kassanum.

Í frv. okkar er kveðið á um það að afgreiðslugjöld og tryggingagjöld skuli einnig undanþegin söluskatti þegar vara er afgreidd og tryggð til flutnings burt úr lögsagnarumdæmi innflutningshafnar eða framleiðslufyrirtækis, og skulu þessi gjöld ekki heldur reiknast með í söluskattsstofni. Í lögum um söluskatt, nr. 10 frá 1960, finnst að vísu engin bending um það að ætlunin hafi verið að undanþiggja þessi gjöld skattlagningu. En eigi að síður brýtur sú skattheimta í bága við þann sjálfsagða siðgæðisgrundvöll hverrar lagasmíðar að jafnt skuli koma niður á öllum. Þar á ofan bætist svo hitt, að í framkvæmdinni hafa þessi gjöld verið tvísköttuð, fyrst við álagningu lögum samkv. af hálfu þeirra sem afgreiða vöruna og af hálfu tryggingafyrirtækjanna, og síðan við smásöluverðlagningu, ef þessi gjöld eru reiknuð inn í söluskattsstofninn. Ríkið tekur þannig 20 kr. ólöglega af hverjum 100 kr., sem dreifbýlisfólkið greiðir fyrir afgreiðslu og tryggingu á verslunarvöru sinni, til viðbótar þeim 20 kr., sem teknar eru af hverjum 100 samkv. ranglátri löggjöf. Þessi tvísköttun hefur verið lengi á almannavitorði og er alls ekki fyrir hana þrætt af hálfu hins opinbera, því borið við að ógerlegt sé af tæknilegum ástæðum að komast hjá henni í framkvæmd. Skattheimta, sem nemur 40% af afgreiðslugjöldum og tryggingagjöldum, nemur, þegar til kastanna kemur, verulegri upphæð og þó misjafnri, því að nokkuð munu gjöldin fara eftir magni vöru sem afgreidd er og tryggð hverju sinni. Þannig verða þessi gjöld yfirleitt hærri af litlum vörusendingum og koma því harðast niður á fámennum byggðarlögum og fátækum verslunarfyrirtækjum, sem ekki hafa bolmagn til þess að eiga vörulager, heldur neyðast til þess að panta eftir hendinni.

Að dómi flm. þessa frv. er það óhæfilegt að Alþ. láti við það sitja að hafa sett þess háttar lög sem embættismenn telja óhjákvæmilegt að brjóta, og sýnu verra þó er missmið laganna veldur ranglátri skattheimtu er bitnar á þeim sem minnst mega sín fjárhagslega. Úr þessu verður ekki bætt með öðru móti en því að breyta lögunum í það horf að þau fái staðist í reynd.

Í grg. með þessu frv. okkar Helga F. Seljans eru tekin dæmi af flutningskostnaði til Þórshafnar, þess byggðarlags sem einna lengst liggur frá aðalinnflutningshöfn landsins, Reykjavík. En öll byggðarlög landsins utan svonefnds Stór-Reykjavíkursvæðis eru hér að meira eða minna leyti undir sömu sökina seld, og því fer víðs fjarri að kostnaður við vöruflutninga minnki í réttu hlutfalli við lækkaðan km-fjölda frá Reykjavík. Þannig mun flutningskostnaðarhlutfallið í Höfn í Hornafirði vera mun hærra en því svarar að þangað er 234 km styttri leið frá Reykjavík heldur en til Þórshafnar á Langanesi, og einnig þar munar verulega um söluskattinn sem lagður er ofan á flutningsgjöldin. Hið sama er að segja um Borgarnes, Stykkishólm og Ísafjörð, og um Strandir og síðan austur allt Norðurland og Austfirði munar verulega um þessa skattheimtu.

Við flm. erum þess fullvissir að enginn dreifbýlisþm. hefur hjá því komist að hugleiða efni þessa frv. og að flestir munu þeir hafa heitið atfylgi við einhvers konar ráðstafanir til að kippa þessu ófremdarástandi í lag. Við þykjumst þess einnig vissir að ýmsir af þm. þéttbýlisstaðanna og þ. á m. ónefndur þm. Reykv., sem lætur verslunarmál og viðskiptamál mjög til sín taka, muni sjá, hvílíkt óréttlæti felst í títtnefndri vansmíð söluskattslaganna, og séu fúsir til þess að leggja sitt af mörkum til þess að úr því ranglæti verði bætt. Hér er um að ræða mál sem varðar byggðastefnu í raun réttri, því að það er vafalaust að gjöld á borð við skatt þennan, sem lagður er ofan á þann kostnaðarlið sem dreifbýlisfólkið má bera vegna fjarlægðar frá verslunar- og iðnaðarmiðstöðvum, eru til þess fallin að gera búsetu fólksins erfiðari og ýta undir það ásamt ýmsu fleiru sams konar að fólkið flytjist úr dreifbýlinu og í þéttbýlið þar sem hægara er að sitja.

Það er svo efni í annað lagafrv. að koma því til leiðra að flutningskostnaður verði jafnaður, að söluverð geti orðið hið sama um allt land, og það er efni í aðrar umr. að fjalla um það með hvaða hætti stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hvessa nú sönginn um ágæti byggðastefnunnar, samtímis því sem þeir búast til þess að samþykkja fjárlagafrv. þar sem stefnt er að byggðaauðn. Þetta verður að bíða síns tíma og mun þó skammt undan.

Þetta frv. um leiðréttingu missmíðar á lögum um söluskatt flytjum við hv. þm. Helgi F. Seljan í þeirri von að hv. alþm. sjái sér kleift, þrátt fyrir annars konar stjórnarstefnu, að gera rétt í þessu máli. Ég legg svo til að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn.