08.04.1976
Efri deild: 88. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (2590)

238. mál, ferðamál

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla hér um erlenda ferðamenn og skipulag ferðamála almennt. Ég vona að sem flestir geti verið sammála um það, að á þessu sviði þarf nú að gæta hófs, en um leið er vafalaust mikil þörf á því að skipuleggja ferðamál betur en gert hefur verið. En ég vil leyfa mér að benda á það, að þegar þetta mál var hér á ferðinni fyrir tveimur árum, þá bar ég fram brtt. við frv. sem þá hét sama nafni og nú, frv. til l. um skipulag ferðamála. enda hóti það væri að efni til eitthvað öðruvísi. Það var t.d. þá talað um Ferðamálastofnun Íslands, en nú er bara talað um Ferðamálaráð. En þá bar ég fram brtt. sem var samþ. hér í d., ég held með öllum greiddum atkv. Og þar sem ég hef ekki rekist á efni þessarar brtt. í nýja frv., þá vil ég nú reyna að koma henni á framfæri áður en málið fer til n., þannig að n. geti skoðað þessa till. Till. var svohljóðandi:

„Telji Ferðamálastofnunin að heimavistarbygging í þágu skóla, sem ríkissjóður kostar að einhverju leyti, henti til starfrækslu sumargistihúss, getur hún farið fram á að byggingarteikningum sé hagað svo að húsnæðið fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til rekstrar gistihúss, enda sé stofnunin eða viðkomandi byggingaraðili reiðubúinn að bera ábyrgð á þeim byggingarkostnaði sem af breytingunum leiðir. Jafnframt er heimilt í þessu skyni að veita Ferðamálastofnuninni eða viðkomandi byggingaraðila lán úr ríkissjóði fyrir milligöngu Ferðamálasjóðs, allt að 10 millj. kr. árlega.“

Ég held nú satt að segja að þessi brtt., sem ég flutti fyrir tveimur árum og eins og ég sagði var samþ. samhljóða hér í d. og þannig fór frv. til Nd., þarfnist ekki mikilla skýringa. Það er einkennilegt ósamræmi ríkjandi í þessum málum, þar sem annars vegar er gert ráð fyrir því að erlendir gestir séu hýstir í skólahúsnæði á heimavistum sem ríkið hefur byggt dýrum dómum, en standa auð yfir sumartímann, og svo hins vegar því, að þessar skólabyggingar eru ekki nándar nærri alltaf hannaðar með hliðsjón af þessum notum. Á þetta hafa ýmsir bent fyrr og síðar, en lítið hefur verið gert til að tryggja samræmingu á þessu þannig að fé ríkisins nýtist betur en ella.

Ég vil taka það fram, að Ferðamálaráð mælti mjög eindregið með samþykkt þessarar till. á sínum tíma, og ég mun leyfa mér að flytja þessa till. nú fyrir 2. umr. málsins.