27.04.1976
Sameinað þing: 81. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3271 í B-deild Alþingistíðinda. (2709)

51. mál, auglýsingar erlendra fyrirtækja í sjónvarpinu

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að orðlengja þessar umr. eða skemmta mönnum með því að fara að skattyrðast við flokksbróður minn, hv. þm. Guðmund H. Garðarsson. En ég vil bara taka það fram til þess að fyrirbyggja allar efasemdir hjá hv. þm. að ég tel mig vera einlægan stuðningsmann íslensks iðnaðar og ég vil standa að öllum skynsamlegum ráðstöfunum til þess að efla og styrkja íslenskan iðnað. En í sambandi við þá þáltill., sem hér hefur verið borin fram, er mér ákaflega mikið til efs að hún verði íslenskum iðnaði að nokkru minnsta gagni. Hins vegar lít ég svo á — og það

verður þá að teljast, hvort það er ágirnd eða hvað þeir kalla það — ég tel að hún geti verið valdur að fjárhagslegu tjóni fyrir opinbera fjölmiðla.

Hv. þm. líkar ekki orðalag mitt, að ég væri ágjarn í erlendan gjaldeyri. Jæja, þá skal ég breyta því og segja: Ég er mikill stuðningsmaður að því að efla framleiðslu eða innflutning erlends gjaldeyris til þjóðarinnar, hvort heldur það er gert með þjónustu eða öðru. Mér finnst sá dollar, það mark eða hver önnur erlend eining sem kemur til þjóðarinnar, mér finnst hún ekkert betri hvort hún kemur fyrir hraðfrystan fisk eða hvort hún kemur fyrir einhverja þjónustu, einhver önnur verðmæti sem eru látin í té. Ég flokka ekki gjaldeyrisframleiðslu þjóðarinnar eftir því fyrir hvað þessi erlendi gjaldeyrir kemur. Ef ég get stuðlað að því að fá auknar gjaldeyristekjur með því að veita þjónustu, eins og t.d. með því að lesa upp einhverjar vitleysisauglýsingar fyrir útlendinga sem vilja borga fyrir það fé, en hafa ekki nokkur minnstu áhrif, tel ég þörf á því. Ég hef ekki þá vanmetakennd á íslensku þjóðinni að hún verði dregin út í foræði bara fyrir það að hlusta á einhverjar auglýsingar og fallega músík og annað og að þá hættum við t.d. að kaupa þvottaefni frá Frigg eða Sjöfn eða einhverjum slíkum ágætum iðnfyrirtækjum. Ég held að við séum ekki svona veikburða og veikgeðja og liggjum ekki svona hundflatir fyrir erlendum áróðri, þótt þeir borgi peninga fyrir það. Ég vil láta þetta koma skýrt fram. Ég er eindreginn stuðningsmaður og skal standa með hv. þm. að öllum skynsamlegum ráðstöfunum til þess að efla innlendan iðnað. En þessi þáltill. er mér ekki neitt kappsmál og ég tel að hún verði ekki veigamikið atriði á þeirri vogarskál.