28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3282 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram og hv. þm. er kunnugt um, þá er svo áskilið í samkomulagi vestur-þjóðverja og íslendinga að hvor aðili um sig hafi rétt til þess að fresta framkvæmd samkomulagsins frá 28. nóv. þegar 5 mánuðir eru liðnir af samningstímanum ef bókun 6 hefur ekki tekið gildi. Íslenska ríkisstj. fjallaði um þetta mál á fundi sínum í gær og taldi ekki rétt að taka ákvörðun um að fresta framkvæmd samningsins að svo stöddu, heldur biða átekta. Ástæðan til þess er sú að ríkisstj. er kunnugt um viðleitni og viðræður sem fram hafa farið innan Efnahagsbandalagsins, fyrir frumkvæði vesturþjóðverja einkum, til þess að bókun 6 öðlist gildi. Við viljum ganga úr skugga um það, hvaða árangur þessar viðræður og þessar tilraunir vesturþjóðverja bera, áður en ákvörðun er tekin um frestun á framkvæmd samningsins.

Þegar spurt er, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. gerði, hvort þýsk stjórnvöld hafi ekki haft nægan tíma í þessu skyni, þá er það auðvitað svo, að að okkar mati eru 5 mánuðir nægur tími. En meðan hreyfing er á málinu og von er til þess að fá jákvæða niðurstöðu. þá teljum við ekki skipta máli hvort framkvæmd samkomulagsins er frestað deginum fyrr eða seinna eða vikunni fyrr eða seinna. Aðalatriðið er að ná því jákvæða markmiði og niðurstöðu sem felst í því að þessi frestur var í upphafi gefinn. Það er í raun og veru algengt að aðilar komi sér e.t.v. saman um einhvern ákveðinn tíma sem ætlaður er til að koma ákveðnum hlutum í framkvæmd og slíkur tími er oft lengdur þegar hann er útrunninn til þess að ná jákvæðu markmiði. Og það skiptir mestu máli hér og þess vegna telur íslenska ríkisstj. ekki rétt að taka ákvörðun að svo stöddu um það að fresta framkvæmd samningsins. Jafnframt telur ríkisstj. eðlilegt að þýska ríkisstj. gefi grg. um gang mála og hvernig málin horfa við henni nú við þessi tímamót og mið verður tekið af þeirri grg. við endanlega ákvörðun íslensku ríkisstj.

Það var vakin athygli á því af hálfu hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnars Arnalds, að mikilvægt veiðisvæði væri opnað 1. júní, og ég vil aðeins í tilefni af því segja að nokkur tími er þangað til og málin eiga áreiðanlega eftir að skýrast á því tímabili.

Þá spurði hv. þm. um það eftirlit, sem íslensk stjórnvöld hefðu haft með veiðum þjóðverja, og þær reglur, sem þeim hefðu verið settar. Ég vil segja hvað reglur snertir að í samningnum sjálfum eru settar mjög strangar reglur varðandi veiðar vestur-þjóðverja, m.a. þær að þeir hlíti sömu fyrirmælum og takmörkunum og íslensk veiðiskip auk þeirra sérstöku takmarkana sem veiðarnar eru háðar samkvæmt samkomulaginu sjálfu og eru auðvitað langt umfram það sem íslenskum veiðiskipum eru settar. Eftirlit hefur verið haft eins og unnt hefur verið með því að þessar reglur og ákvæði samkomulagsins væru virt. Hins vegar skal það fúslega viðurkennt, að skip landhelgisgæslunnar hafa verið upptekin við önnur störf, eins og hv. þm. vita, og þess vegna ekki legið á lausu að hafa þau tiltæk til þess að fylgjast nákvæmlega með veiðum vestur-þjóðverja eða fara um borð í vestur-þýsk veiðiskip. Á hinn bóginn hafa skip landhelgisgæslunnar og landhelgisgæslan almennt ekki orðið vör við eitt einasta brot af hálfu vestur-þjóðverja á samningstímabilinu, og blaðafréttir, sem á annan veg hljóða, eru á misskilningi byggðar og röngum upplýsingum, að því er landhelgisgæslan telur eftir að hafa kannað málavexti.

Ég held að ég hafi svarað flestu því sem hv. þm. spurði um, nema þeirri spurningu hver afli þjóðverja hafi verið á samningstímabilinu, og vil ég að gefnu því tilefni upplýsa að heildarafli þjóðverja frá 1. des. til marsloka eða í 4 mánuði, en fyrir þetta tímabil liggja fyrir upplýsingar, er 18 972 tonn og skiptist aflinn þannig að karfi er 11 055 tonn, ufsi 4868 tonn, þorskur 1347 tonn, ýsa 454 tonn, blálanga 468 tonn, langa 307 tonn, keila 158 tonn og annað er minna en 100 tonn.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar í þessum umr. utan dagskrár.