28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3290 í B-deild Alþingistíðinda. (2722)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að virða þau orð, sem ég hér lét falla, þó það mikils að svara mér. En mér er talsvert niðri fyrir. Ég álít að það sé verið að lítillækka okkur. Samningstíminn 5 mánuðir og bókun 6 áttu að vera vopn til þess að knýja fram að bókun 6 kæmist í gildi á þessu 5 mánaða samningstímabili, Við vorum kannske það mikil börn að halda að þessi snara, sem hékk yfir þjóðverjunum með þessum samningum, gæti orðið til þess að þjóðverjum tækist að knýja breta til þess að semja við okkur líka eða samkomulag á einhvern hátt næðist við breta líka. Nú virðist hvorugt ætla að ná fram að ganga á því tímabili sem um var samið. Þá segi ég: Ef dráttur verður á frestun samninganna, þá erum við hreinlega lítillækkaðir af þessum stríðsaðilum okkar, því að ég lít á þjóðverja sem stríðsaðila með bretum eftir að samningstímabilið rennur út, hvort sem samningunum verður frestað eða ekki.

Hitt er svo annað mál, og það finnst mér að þjóðin eigi rétt á að vita, ef það er á lokastigi eitthvað það í gangi sem réttlætir þessa nýju afstöðu ríkisstj. sem um er talað. Þá skal ég ekki deila á frestunina sem slíka. En ég tel að þjóðin eigi kröfu á að vita miklu meira um þetta mál heldur en hún veit, og óska eftir því hér með að forustumenn ríkisstj., hvort sem það er hæstv. forsrh. eða hæstv. utanrrh., þeir komi fram annað hvort hér á Alþ. eða opinberlega í sjónvarpi og skýri þjóðinni á hvaða stigi samningar eða samkomulagsumleitanir eru og eftir hverju erum við að bíða.