28.04.1976
Efri deild: 91. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3317 í B-deild Alþingistíðinda. (2742)

205. mál, hámarkslaun

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki tala langt mál nú í lokin og forðast eftir megni að gefa til þess efni að menn þurfi að gera hér margar örstuttar aths. Ég tel mig þó þurfa aðeins að útskýra smáatriði fyrir hv. þm. Albert Guðmundssyni. Ég skoraði á hann að tilnefna mér starf í landi verðugt meira en tveggja hluta, verðugt í launum meira en tvöfaldra launa verkamanns vegna þess að því fylgdi meiri ábyrgð heldur en starfi skipstjóra á fiskiskipi sem láti sér nægja tvöfaldan hásetahlut. Ég talaði um ábyrgð í þessu sambandi, hugkvæmni og þrek sem mikið er í húfi fyrir hásetana á skipinu, fyrir áhöfnina, að skipstjórinn sé búinn, og fyrir þessar dyggðir þrjár, sem hann er ráðinn til þess að bera, fær hann einmitt tvöfalda hásetahlutinn. Þess vegna var það sem ég bað hv. þm. Albert Guðmundsson, sem taldi að þetta væri of lítil umbun, hinn tvöfaldi hlutur, að tilnefna mér það starf sem verðugra væri umbunar heldur en starf skipstjórans fyrir þessar dyggðir þrjár sem hann hafði sjálfur tilnefnt að maður væri umbunarverður fyrir.

Sannleikurinn er nú sá, að ég ætlaði ekki í annarri ræðu minni að bera saman verðleika okkar, þ.e.a.s. mína og hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Ég er alls ekkert viss um að sá samanburður yrði hagstæður fyrir mig í neinu. En þó vil ég af kveifarskap eiginlega bera það af mér sem fram kom í hans samanburði, að ég sé fremur úlfur í sauðargæru heldur en hann, og hann þá fremur sauður í úlfsbelg heldur en ég. Þessi samanburður fannst mér eiginlega ekkert koma málinu við. (Gripið fram í.) Ég get tekið undir það álit hv. þm. að launajöfnuður sé hér, guði sé lof, meiri heldur en í ýmsum grannlandanna sem hann kallaði sjálfur hin stóru iðnaðarsamfélög í nágrenni við okkur. Það er alveg rétt að í þessum einkaframtakslöndum, þar sem það stjórnkerfi er sem hv. þm. segist aðhyllast öðrum fremur, hið hreina einkaframtak sem hann segist — ég undirstrika það — aðhyllast öðrum fremur, þar er fátæktin mest, þar er eymdin mest, svo miklu, miklu verri en hér og meiri.

Það yrði löng saga að rekja fyrir hv. þm. með hvaða hætti fyrst Alþfl. og síðan Sósfl. og loks Alþb. hafa breytt Sjálfstfl. yfir í það að vera í praxís eins konar íhaldssamur krataflokkur sem biður aftur á móti sína ortoþídoxu kvöldbæn, þar sem ákallaður er hinn hreini og klári guð, mammon, á flokksþingum og kannske í einrúmi. Það er alllöng pólitísk saga með hvaða hætti Sjálfstfl. var breytt úr gamla Íhaldsflokknum yfir í það að vera þrátt fyrir allt þolanlegt fyrirbæri í íslensku samfélagi, þótt kappkosta verði náttúrlega öllu öðru fremur að skerða vald hans sem allra mest vegna þess að innan vébanda hans eru starfandi enn í dag menn sem ekki hafa sætt sig við þetta nýja eðli flokksins, duglegir menn sem vilja breyta honum aftur í þetta forna kerfi. ekki frumbýlingsáramenningarsamfélags, heldur frumskógarsamfélags.