29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3350 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

252. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Útbýtt hefur verið í deildinni frv. til laga um breyt. á lögum nr. 59 28. maí 1969, um tollheimtu og tolleftirlit, sbr. lög nr. 2 11. febr. 1970 og lög nr. 66 30. apríl 1973, um breyt. á þeim lögum. Ríkisstj. hefur ákveðið að leggja lagafrv. þetta fyrir Alþ. til samþykktar, en megintilgangurinn með því er að breyta ýmsum ákvæðum IX. kafla laganna um tollheimtu og tolleftirlit sem lúta að refsingu og öðrum viðurlögum vegna ólögmæts innflutnings á vörum til landsins. Tekið skal fram að brett. þessar fela ekki í sér neina nýsmíði, en ef frv. nær fram að ganga munu ákvæði þessi verða tollgæslunni til styrktar og veita einstökum ákvæðum laganna meiri virkni en nú er.

Skal ég nú víkja örfáum orðum að einstökum ákvæðum frv.

Í 2. mgr. 61. gr. núgildandi laga um tollheimtu og tolleftirlit eru svo hljóðandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta: „Sömu refsingu skal sá sæta sem selur eða afhendir vöru, enda viti hann eða megi vita að þær séu ólöglega innfluttar.“ Með 1. gr. frv. er lagt til að orðalagi þessarar mgr. verði breytt þannig að viðtaka á ólöglega innfluttum vörum, hvort sem hún er gegn endurgjaldi eða ekki, verði ótvírætt gerð að sjálfstæðu broti, með breyt. í þá átt verði eigi lengur dregin í efa heimild í lögum til refsingar fyrir úað atferli að kaupa eða veita viðtöku án endurgjalds ólöglega innfluttum vörum sem viðtakandi veit eða má vita að þannig eru til komnar. Má ljóst vera að með því að gera meint atferli sérstaklega refsivert, þá muni það orka til varnaðar og gera ákvæðið í heild virkara og þannig draga úr ólöglegum innflutningi á vörum til lands. Vísast að öðru leyti til aths. við 1. gr. frv.

Breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á 2. mgr. 71. gr. og 2. mgr. 76. gr. núgildandi laga, eiga fyrst og fremst rætur að rekja til verðlagsbreytinga og neikvæðra áhrifa þeirra á þau markmið, sem stefnt er að með nefndum ákvæðum, að auka varnað og létta álagi á dómstólum vegna smærri brota. Samkv. gildandi lögum er hámarksfjárhæð sekta bundin við 500 þús. kr. og heimild tollyfirvalda til ákvörðunar sekta fyrir ólöglegan innflutning vara bundin því skilyrði að brot varði eigi hærri sekt en 20 þús. kr. Þar sem sektarákvæði þessi eru, eins og áður segir, eigi lengur í neinu samræmi við verðlag í landinu og áhrifa þeirra til varnaðar gætir því lítt lengur, auk þess sem eigi er lengur bægt að afgreiða minni háttar mál utan réttar og því nauðsynlegt að senda hinum ýmsu embættum til afgreiðslu, er lagt til að nefndum sektarmörkum verði breytt þannig, að hámarksfjárhæð sektar verði hækkuð í 4. millj. og heimild tollyfirvalda til að ákvarða sektir bundin hámarkssekt 60 þús. kr.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur verið lagt fyrir Alþ. frv. til l. um breyt. á lögum nr. 74 21. ágúst 1971, um meðferð opinberra mála. Samkv. því frv. er m.a. lagt til að sektarheimild lögreglustjóra verði hækkuð úr 10 þús. kr. í 60 þús. kr., þannig að hún geti náð til fleiri brota en nú er. Verði frv. þessi að lögum verður fullt samræmi í lögum varðandi sektarheimildir lögreglustjóra annars vegar og tollyfirvalda hins vegar.

Ég sé eigi ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. þetta, en vænti að hv. Alþ. sjái sér fært að samþ. frv. Leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.