29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3362 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

210. mál, orlof

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að lengja þessar viðræður mínar við hv. 12. þm. Reykv. Ég held að það sé alveg ljóst hvernig það mál stendur. Hann ásakar mig fyrir það að tala ekki hér um till. sem ekki höfðu komið fram og hafa ekki komið fram fyrr en í dag. Ég ber af mér sakir í því efni. Ég tel það engar sakir að ræða ekki mál hér sem ekki hafa komið fram sem frv. eða brtt. og ég held að þetta megi vera öllum ljóst.

Það er náttúrlega hreinasta fjarstæða að telja að félmn. sé með einhver fyrirmæli um að binda hendur hv. þdm. eða þm. í þessu máli. Auðvitað hafa þm. sínar skoðanir á því hvað þeir vilja. En félmn. leyfist líka að hafa sínar skoðanir. Ég var að túlka hennar skoðanir í þessu máli og skýringuna á því hvernig var háttað afgreiðslu félmn. á þessu máli. Ég vænti þess að það þyki ekkert athugavert við það þó að félmn. hafi skoðanir á þessu máli. En það er ekki þar með sagt, að hv. félmn. ætli sér að binda hendur einhvers. Ég skil ekki svona tal.

Það er náttúrlega hreinasta fjarstæða að reyna að læða því hér inn, að ég hafi ætlað að gefa í skyn eða gefið í skyn að flm. brtt. á þskj. 503 ætti að vera eitthvað þakklátur mér fyrir að það hafi verið veitt afbrigði hér. Ég nefndi ekki þess vegna að það hefðu verið veitt afbrigði. Ég nefndi það til þess að undirstrika, að till. hefði ekki komið fram fyrr en núna. Læt ég svo útrætt um þetta.

Nú hefur komið fram till. um að hinkra við með afgreiðslu þessa máls og athuga málið nánar. Mér finnst sjálfsagt að það sé orðið við því og menn geti þá kynnt sér þetta mál betur, kynnt sér betur þær brtt. sem hér liggja fyrir. Ég er þess vegna algjörlega sammála þeim vinnubrögðum og tel rétt að við frestum þessum umr. núna og athugum málið á milli funda.