29.04.1976
Efri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3366 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

209. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langar alveg sérstaklega til að þakka félmn. fyrir að mæla með samþykkt þeirrar brtt. sem ég hafði munnlega borið fram hér og hef síðan flutt skriflega á sérstöku þskj.

Brtt. er á þskj. 479 og er við 1. efnismálsgrein 1. gr. frv. og hljóðar svo: „Húsnæðismálastjórn er heimilt að veita lán til kaupa á eldri íbúðum og til endurbóta á eigin húsnæði öryrkja og ellilífeyrisþega.“ Ástæðan til þess, að ég flyt þessa brtt., er sú, að í flestum sveitarfélögum þessa lands munu um 80% af þeim ellilífeyrisþegum, sem ekki eru á stofnunum, búa í eigin húsnæði. Þetta er kannske nokkuð misjafnt eftir sveitarfélögunum, en yfirleitt mun sú vera reglan að það eru milli 70 og 80% eða milli 80–90%. Með vaxandi kostnaði við húsbyggingar og endurbætur, með vaxandi erfiðleikum í viðhaldi og framfærslu, þá er sýnilegt að fyrir ellilífeyrisþega er mikils virði að geta fengið einhverja opinbera lánaaðstoð til þess að halda við húsnæði sínu.

Það vita allir hér í hinu háa Alþ. hvers virði það er að fólkið geti búið sem lengst í sínum eigin íbúðum, því að stofnanalíf er bæði óeðlilegt og þar að auki mjög dýrt. Það er áhugamál okkar allra að eldra fólkið geti sem lengst búið við eðlilegar aðstæður í heimahúsum. Nú er það svo að við það að fólkið hættir sinni vinnu, þá minnka fjárhagslegir möguleikar þess. En það skeður einnig fleira. Því er enn þá meiri þörf en áður að búa í góðu húsnæði vegna þess að það hreyfir sig minna, og því er hættara við að fá alls konar kvilla. Og vegna hinna rýrðu tekjumöguleika vill oft verða svo að einmitt viðhald á húsnæði, situr á hakanum. Afleiðingin er svo sú, að margir þeir, sem komnir eru á efri ár, búa í tiltölulega lélegu húsnæði, — húsnæði sem þó mætti oft endurbæta og gera mjög vel íbúðarhæft með litlum tilkostnaði. Því er þessi brtt. flutt, að reyna að einhverju leyti að ráða bót á þessum annmarka. Ég vil sérstaklega endurtaka þakkir mínar til félmn. fyrir hennar ágætu afgreiðslu á tillögunni.