29.04.1976
Neðri deild: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3374 í B-deild Alþingistíðinda. (2804)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það er einkum um tvö atriði þessa frv. sem ég vildi segja hér aðeins örfá orð um og ég tel sérstaka ástæðu til að fagna.

Það er í fyrra tilvikinu í sambandi við 2. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að færa út hlutverk Fiskveiðasjóðs með þeim hætti að lána nú út á eldri skip. Hér er að mínu viti um mjög þarft verk að ræða. Það hlýtur að vera þjóðhagslega hagkvæmt og miklu hagkvæmara að gera ráðstafanir til þess að hægt sé að nýta þann tiltölulega mikla fjölda fiskiskipa, sem í landinu er, með því að veita fyrirgreiðslu til kaupa á þeim heldur en að veita jafnmikla fyrirgreiðslu og gert hefur verið eingöngu út á nýsmiði. Ég held því að sérstök ástæða sé til að fagna þessari breytingu, því að það er vitað að það er mikill fjöldi einstaklinga í landinu sem hefur hug á að komast yfir slík skip, hefur ekki getað það af ýmsum ástæðum, en hér er sem sagt verið að opna leið til þess að þetta sé framkvæmanlegt og því ber að fagna.

Í öðru lagi vil ég aðeins segja örfá orð í sambandi við 6. gr., þ.e. um stjórn Fiskveiðasjóðs. Það má auðvitað alltaf um það deila og eru sjálfsagt um það skiptar skoðanir hversu fjölmenn slík stjórn eigi að vera. En ég tel það mjög til bóta að inn í stjórnina koma núna fulltrúar frá hagsmunasamtökunum, og tel ég það mjög eðlilegt og sjálfsagða ráðstöfun.

Ég skal ekki, virðulegi forseti, fara fleiri orðum um þetta mál, en ég taldi ástæðu til þess fyrst og fremst að fagna breytingunni í 2. gr., því að hún er fyrir löngu að mínu viti orðin nauðsynleg og ástæða til þess að taka undir þá breytingu.