30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3401 í B-deild Alþingistíðinda. (2818)

Varamaður tekur þingsæti

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Þessi ræða hæstv. forsrh. tekur af öll tvímæli um það að tímabært var að vekja máls á því umræðuefni sem hér hefur verið rætt utan dagskrár í Sþ.

Hæstv. ráðh. hóf mál sitt á því að ráðast á Alþýðusamband Íslands fyrir að það skuli leyfa sér að prenta örlítinn bækling með niðurstöðum, er hagfræðingar þess hafa komist að um mat á því sem hefur gerst í verðlagsmálum eftir að samningar voru gerðir fyrir örfáum vikum. Ég undrast satt að segja þessa gagnrýni, svo smásmuguleg er hún og ber aðeins vott um einhvers konar óróleika hæstv. ráðh. í sambandi við málstað ríkisstj. í þessu máli. Hvað er athugavert við það þó að Alþýðusambandið, samtök launþega um allt land, prenti örlítinn bækling til að koma upplýsingum á framfæri, fyrst og fremst fyrir sína eigin félagsmenn, en líka fyrir aðra? Er hægt að verja þeim í fármunum fólksins, sem það hefur lagt til Alþýðusamtakanna, á betri hátt? Að bera það saman við útgáfu ríkisstjórnar til að ráðast á stjórnarandstöðu er algjörlega út í hött.

Alþýðusamtökin hafa nú á síðustu tímum fengið í þjónustu sina unga og duglega hagfræðinga, og þau hafa nú sina eigin sérfræðinga til að meta tölur og þróun efnahagslífsins. Þau geta lagt fram álit þessara ungu manna sjálf, en hingað til hafa stjórnvöld haft einokun á að hafa heilan her af hagfræðingum til að skrifa skýrslur og svör sem hæstv. ríkisstj., núv. og fyrrverandi, hafa síðan lesið yfir þjóðinni, venjulega með þeim boðskap að kröfur um bætt kjör fyrir vinnandi fólk séu af hinu illa, að það hafi engin atvinnurekandi ráð á að borga neitt, að allt sé á hausnum, að fólkið eigi að hætta þessu. Það er einmitt vegna þess að verkalýðssamtökin hafa nú sína eigin hagfræðinga til að túlka þróun efnahagsmála sem ástæða er til að leggja fram opinberlega í áheyrn alþjóðar fyrirspurn um það á Alþ. hvort ríkisstj. vefengi það, sem flutt hefur verið frá þessum aðilum, eða ekki.

Við höfum fengið svarið. Það var að vísu heldur vesældarlegt, en ekki gat ég betur heyrt en að hæstv. forsrh. vefengdi þær upplýsingar, sem þarna hafa verið settar fram. Og þá er gott að vita það. Hitt er athyglisvert, að í þetta skipti fylgdu ekki með álitsgerðir frá þeim hagfræðingum eða stofnunum sem ríkisstj. hefur í þjónustu sinni, og hefur þeim verið brugðið fyrir af ráðh. af minna tilefni heldur en þessu. Er rétt að það komi fram að hæstv. forsrh. vissi um þessa fyrirspurn, sem hv. 4. landsk. þm. ætlaði að leggja fram, þegar s.l. mánudag, svo að það hefur verið nógur tími til að fá slíkar álitsgerðir, en af einhverjum ástæðum liggja þær ekki fyrir.

Þegar hagfræðingar Alþýðusambandsins gera sér far um það að reikna út, hversu mikill hlutur kauphækkana sé í tilteknum verðhækkunum, segir hæstv. forsrh. af mikilli vandlætingu að það sé erfitt að greina milli hinna ýmsu liða og illmögulegt að sjá hvað sé frá kaupgjaldi komið. Einni eða tveimur mínútum síðan lýsir hann því að einhver hluti af þessum síðustu og verstu verðhækkunum stafi af gömlum verðhækkunum, frá því í des. í fyrra og enn þá lengra aftur í tímann. Þá skortir ekki á skarpskyggnina. Hæstv. ráðh. virðist geta séð hvað er af orsökum kaupgjaldshækkana þegar honum þóknast það. Þegar Alþýðusambandið færir fram slíkar röksemdir, er lesið yfir Alþ. að það sé ómögulegt að greina hvað af verðhækkunum sé frá kaupgjaldi komið og hvað ekki. Ég tel því að andmæli hæstv. forsrh. fái ekki staðist og hann hafi ekki fært fram neinar röksemdir sem raunverulega hnekki þeim upplýsingum sem Alþýðusambandið hefur komið á framfæri frá sérfræðingum sínum. Þær upplýsingar standa því, og þær eru fróðlegar og nauðsynlegar, vegna þess að það er sí og æ, ár eftir ár, hamrað á þeirri kenningu að kauphækkanir skili sér alltaf út í verðlagið, fólkið verði að skila þeim öllum aftur. Hefur ekki staðið á því nú í stjórnarblöðunum að þjóðinni væri sagt að þær miklu verðhækkanir, sem nú hafa dunið yfir, séu eins og venjulega vegna þess að verkfall er nýafstaðið og það hefur verið samið um hærra kaup. Enginn lætur sér til hugar koma að halda fram að kaupgjald hafi ekki áhrif á verðlag. Er allt annað að viðurkenna þá staðreynd heldur en að taka undir þann söng að öll verðbólga og allar verðhækkanir séu kaupgjaldinu að kenna, þó að kaupgjald sé sannanlega stórum lægra hér á landi, jafnvel með margföldum vinnutíma, heldur en það er í nágrannalöndum okkar.

Hæstv. ráðh. notaði ræðu sína að mestu leyti til þess að afsaka þær hækkanir, sem orðið hafa, og útskýra þær. Það er góðra gjalda vert að segja okkur af hverju þarf að hækka þetta og af hverju þarf að hækka hitt, en eins og hann benti á, er óhæfilega mikið af þessum hækkunum komið frá opinberum þjónustustofnunum. Ég held satt að segja að hækkanir þessara stofnana séu svo tíðar og geigvænlegar að það verði að endurmeta störf þeirra og skipulag og athuga hvort það er ekki eitthvað í ólagi við skipan þessara opinberu þjónustumála þegar innlendar þjónustustofnanir á vegum hins opinbera, þar sem engin gróðatilhneiging ætti að vera fyrir hendi, hafa forustu um sífelldar hækkanir.

Það er að vísu mismunandi hverjar aðstæður eru hjá hinum ýmsu stofnunum sem hæstv. ráðh. nefndi, en við getum tekið eina eða tvær. Hana nefndi t.d. Póst og síma. Hvernig stendur á því, að Póstur og sími, þessi stóra ríkisstofnun, hefur árum saman verið án þess að hafa neina sérstaka stjórn? Hún hefur fram til síðustu ára verið sérstakt ráðuneyti. Og vita menn ekki að Póstur og sími hefur vaðið áfram í fjárfestingu og tekið útlend lán um langt árabil án þess að það væri nokkurt eftirlit með því eða nokkurt opinbert mat sjáanlegt á því hvort þessar framkvæmdir eru allar nauðsynlegar og tímabærar og hvort stofnunin hefur ráð á þeim? Hæstv. ráðh. standa upp eftir á og tilkynna að það sé óhjákvæmilegt að fólkið verði að borga. Það er alltaf verið að færa okkur meiri tækni, það er alltaf verið að hagræða. Til hvers á tæknin að vera? Á hún ekki að vera til að létta okkur lífið? Er eðlilegt, þegar við byggjum virkjanir, að þá skuli blasa við tvöfalt raforkuverð, og þegar við byggjum mjólkurbú, að þá eigi samkvæmt síðustu till., sem hér liggja fyrir, að dreifa kostnaðinum af því þegar í stað á neytendur? Eiga ekki betri verksmiðjur, eiga ekki betri framleiðslu- og þjónustufyrirtæki að verða til þess að létta þjónustuna, gera hana betri og gera hana ódýrari? Mér finnst að það skorti eitthvað á þetta, og það er satt að segja furðulegt, að hæstv. forsrh. skuli segja okkur kinnroðalaust, hér á Alþ., að Póstur og sími hafi tekið orlofsfé íslenskra launþega, notað það í fjárfestingu og verið kominn í þau vandræði, að það varð að kalla Seðlabankann til að velta honum 1000 millj. kr. lán svo hann gæti staðið í skilum með orlofsfé? Hvað er að gerast? Ég er hræddur um, að það væri búið að setja rannsókn í gang ef Klúbburinn hefði gert þetta.

Þannig er í mörgum þessum stofnunum, það er alltaf verið að moka peningum í hitt og þetta, án þess að það virðist vera sannreynt fyrir fram, í fyrsta lagi hvort öll þessi fjárfesting er nauðsynleg, hvort hún veitir okkur betri kjör eða hvort viðkomandi stofnanir hafi eðlilega möguleika á að fjármagna framkvæmdir sínar. Svo kemur ráðherrastoltið, að standa sig vel fyrir hönd sinna stofnana. Þeir eru mannlegir eins og stjórnirnar yfir ríkisverksmiðjunum og taka málstað þessara opinberu fyrirtækja á móti þjóðinni og neytendunum — og segja þjóðinni: Þið verðið að gjöra svo vel að borga og þegja.

Þetta eru framfarirnar, þetta er tæknin. Þetta eru stór og vel rekin fyrirtæki, en mörg þeirra sennilega rekin næsta stjórnlaust.

Það mun ekki hafa verið ætlun neins af ræðumönnum að kasta rýrð á embættismenn ríkisins, hagstofustjóra eða hagrannsóknastjóra, og við vitum sjálfsagt allir að þeir lögðu hvor sitt mat á það, þegar vinnudeilurnar stóðu yfir, hvað þeir töldu líklegt að ríkisstj. mundi leyfa mikið af hækkunum. Og menn undruðust um þessa hálærðu og ágætu drengskaparmenn, sem vinna ómetanlegt starf fyrir þjóðina og ríkisvaldið, að það bar nokkuð á milli áætlana þeirra um fyrirsjáanlegar verðhækkanir fram til októbermánaðar. En það var athyglisvert að sá þeirra, sem hefur lengri reynslu af samstarfi við ríkisstjórnir, gerði hærri áætlun um það hvað ríkisstj. væri líkleg til að leyfa af hækkunum. Og jafnvel eftir áratugastarf með öllum ríkisstjórnum, sem hér hafa setið á þessu tímabili, var áætlun hans, byggð á reynslu hans, ekki nógu há. Ríkisstj. tókst að spenna sig töluvert upp yfir það sem hann gat látið sér detta í hug.

Hér hefur verið mikið minnst á landbúnaðarhækkanir og það er ástæða til, vegna þess að engar hækkanir koma við neytendur eins og þær. Ég ætla að leyfa mér að auglýsa eftir því að talsmenn bænda taki upp baráttu fyrir því að það verði greint í sundur, sem bændurnir raunverulega fá fyrir þessar vörur, og það sem neytendur borga. Það, sem liggur þar á milli, er alltaf að spennast upp. Þannig eru 60–70% af þeim hækkunum sem nú hafa orðið. Og hvernig stendur á því að bændur og talsmenn þeirra sitja undir þessu? Öll þjóðin tortryggir verðmyndunarkerfi landbúnaðarins af þessum ástæðum. Ég tel ástæðu til að benda á þetta vegna þess að það er gott, eins og hæstv. forsrh. raunar reyndi að gera, að skilja í sundur og sjá hvernig þessar miklu hækkanir verða til. Það mætti gjarnan fylgja smámiði, þegar fólk borgar á annað þús. kr. eða upp undir 2 þús. kr. fyrir lambalæri á sunnudagsborðið, um að þriðjungurinn af síðustu hækkun hefði verið skattahækkun frá ríkinu. Þegar niðurgreiðslurnar eru lækkaðar til að spara ríkinu, þá er það nýr skattur. Það er farið að nota landbúnaðarvörurnar í svo ríkum mæli til almennrar hagstjórnar að það má segja að 2/3 þeirra tilheyrðu hagfræðingunum, en 1/3 bændunum.

Það er að vísu erfitt að eiga við blessaða hagfræðingana, jafnvel þegar þeir eiga ekki að gera annað en að mæla það sem telja verður staðreyndir. Ég býst við að hæstv. forsrh. hafi manna bestan aðgang að bestu hagfræðistofnunum okkar, en hann segir að það hafi verið 53% verðbólga í hittiðfyrra og 37% í fyrra. En fyrir nokkrum dögum var borið á borð okkar fallegt og gott rit frá OECD, þeirri miklu efnahagsstofnun sem við erum þátttakendur í. Þar er þetta fallega kort yfir verðbólguna. Það stendur í fyrirsögninni: Hvað hefur orðið af verðbólgunni? — af því að hún hefur minnkað svo mikið í öllum löndum OECD nema einu. Myndin svarar þessu: Verðbólgan, sem þeir spyrja hver sé, er öll á Íslandi. En þessir menn, sem ég hélt að fengju upplýsingar frá bestu innlendum heimildum, telja að verðbólgan í fyrra hafi ekki verið 37%, heldur 43%–44% já, 43.6% stendur hér. (Gripið fram í: Það skiptir máli hvort það er frá einu ári til annars eða frá ársbyrjun til ársloka.) Ég veit ekki hvað skiptir máli í þessu, herra forsrh., en í báðum tilvikum er okkur saklausum og óhaglærðum þm. flutt þetta sem tölur um verðbólgu á einu ári. Þegar útlendir hagfræðingar í París fá tölurnar hjá íslenskum hagfræðingum í Reykjavík, ættu þær að geta komist til skila, þannig að það væri ekki sýnd viðunandi tala hvern daginn. Ég vil láta í ljós von um að hæstv. forsrh. og stjórn hans takist að halda verðbólgunni í 25% eða 22–25%, eins og hann orðaði það. Það væri töluvert skref frá því sem verið hefur undanfarin tvö ár, þó að betur væri ef það væri enn þá stærra. En ég er ekki viss um að allir, sem telja sig kunnuga þessum málum, séu þetta bjartsýnir, eins og horfur eru nú og miðað við það sem gerst hefur þessa fyrstu 3–4 mánuði ársins, enda þótt sjálfsagt sé að vera bjartsýnn og vona að síðari mánuðirnir verði eitthvað léttari í skauti heldur en þessir hafa reynst.

Síðasti kaflinn í ræðu hæstv. forsrh. var næsta sorglegur því hann gekk út á að telja upp ástæður fyrir því að ríkisstj. gæti eiginlega ekkert við verðlagsmálin ráðið, bæjarfélög ættu að ráða verðlagi í bæjarverksmiðjum, ríkið eða viðkomandi stjórnir ættu að ráða verðlagi hjá ríkisfyrirtækjum — þannig væri þetta, það ætti að minnka verðlagseftirlitið og hafa frjálsa samkeppni. Það er sjálfsagt gott og blessað, en sem sagt, það virðast alltaf vera einhverjir aðrir sem ráða,. og hvort sem það er bær, ríki eða einstaklingar eða samvinnufélög, þá er það eigandi framleiðslutækisins sem á alltaf að ráða verðlaginu, sá sem hefur mestan hag af því að fjárhagur þess sé góður.

Í fyrsta lagi byrja ég á því að benda hæstv. forsrh. á að einmitt sá ljóður á þessum málum, sem hann dró fram, að mörg þessara fyrirtækja búa við einokun hér á landi og hafa ekki samkeppni, gerir það nauðsynlegt að það sé einhver annar en eigendur eða stjórnendur viðkomandi fyrirtækis sjálfs sem meta það hvaða verðhækkanir fyrirtækin geta fengið. Þar þyrftu að koma til einhverjar bremsur og ættu auðvitað að vera hjá hæstv. ríkisstj. eða aðilum sem eru trúnaðaraðilar hennar.

Mér fannst vera vonleysistónn í hæstv. forsrh. í sambandi við þessi mál. Þau eru að vísu geigvænlega erfið, og skal ekki neinum manni láð þó honum þyki glíman þung. En hann virðist gleyma því að hann er forsrh. og stjórn hans hefur að baki sér mikinn meiri hl. á Alþ. sem getur búið til þau hagstjórnartæki sem ríkisstj. vill fá, ef hún vill þá fá nokkur hagstjórnartæki, ef hún er ekki búin að bíta í sig þann áróður sem haldið er uppi af stærstu einkafjölmiðlum landsins að þetta eigi allt að lúta annarlegum peningalögmálum og það sé aðeins frekja illra sósíalista að gera veður út af því þegar útreikningar fyrirtækjanna sýna t.d. nauðsyn á 60% hækkun á bilatryggingunum. Þessi verðstökk hvert af öðru geta ekki orðið til að vekja traust neytenda í landinu, síst af öllu þegar svo kemur vonleysishjal, eins og við heyrðum hér, um að ríkisstj. geti ekkert að þessu gert, það séu einhverjir allt aðrir og einhver allt önnur lögmál sem séu þarna að verki. Það má ekki gleyma því að sterkur meiri hl. á Alþ. getur sett lög um þau hagstjórnartæki sem ríkisstj. telur sig þurfa til að hafa þann hemil sem framast er unnt á þeirri verðbólgu

sem nú er orðið algjört einsdæmi, algjört viðundur í öllum hinum efnaðri hluta jarðarinnar, sem á sér engin hliðstæð dæmi nema helst í Suður-Ameríku, líklega Argentínu einna helst, og væri ekki leiðum að líkjast. Það er líka gott að hafa í huga að afsökunin um sífelldar erlendar hækkanir er ekki fyrir hendi í líkt því eins ríkum mæli nú eins og hún var fyrir 2–3 árum. Þá var von að við yrðum fyrir barðinu á olíuhækkununum, en nú er ekki slíku til að dreifa, heldur er yfirgnæfandi meiri hl. af þessum hækkunum algjört innanlandsmál. Þess vegna verðum við að komast fyrir þær, og við verðum að finna hvað það er sem dugir. Ef það er hægt að finna það hljóta einhver læknisráð að vera til, og hæstv, ríkisstj. hefur allt það í hendi sinni sem hún þarf til þess að finna þau ráð og beita þeim, ef hún vill beita þeim.

Ég vona því að það séu ekki gamlar trúarkreddur kapítalismans sem valda því að hæstv. ríkisstj. er svo aðgerðalaus og vonlaus í þessum málum eins og raun ber vitni og heyra mátti á ræðu hæstv. forsrh.