30.04.1976
Sameinað þing: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3429 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í þeirri n., sem mun fá þetta mál til meðferðar, mun ég verða mjög stuttorður við þessa umr.

Almennt séð teljum við alþb.- menn að það séu engin rök fyrir því og raunar ekkert svigrúm til þess að veita öðrum þjóðum veiðiheimildir innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Það er verið að ræða um það og hefur verið rætt um það á undanförnum mánuðum að við verðum að takmarka eigin veiðar, jafnvel stórlega, a.m.k. sóknina í þorskstofninn. Það vefst að vísu fyrir mönnum og þá stjórnvöldum ekki síður en öðrum að koma fram með skynsamlegar hugmyndir um hvernig eigi að framkvæma þessar takmarkanir. Enn sem komið er hafa þær verið af skornum skammti. Og satt best að segja virðist áhugi stjórnvalda á þeirri takmörkun veiða á þorskstofninum sem ég tel ná langsamlega affarasælasta og eðlilegasta, þ.e.a.s. að gera allt sem á færi stjórnvalda er til þess að auðvelda aðrar veiðar íslenskra skipa, þar sem ekki er eins illa komið og að því er tekur til þorskstofnsins, — þessi sjálfsagða aðferð við takmörkun á veiðum íslendinga virðist eiga erfitt uppdráttar. Kemur það m.a. fram í því að ýmsir þeir aðilar, sem áhuga hafa á því að reyna aðrar veiðar, fá harla litla fyrirgreiðslu hjá stjórnvöldum. Jafnframt verður það að segjast, að samningur eins og sá, sem gerður var við vesturþjóðverja, auðveldar íslendingum ekki að breyta til um veiðar og friða eða minnka sóknina í þorskstofninn með þeim hætti.

Þetta læt ég nægja almennt um viðhorf okkar alþb-manna til samninga um veiðar innan íslenskrar fiskveiðilögsögu við aðrar þjóðir. Við gerum að vísu nokkurn mun á því hvort um er að ræða verulegar veiðiheimildir að því er þorskstofninn varðar eða aðra fiskstofna, en þó er það ekki afgerandi í okkar huga, vegna þess að það gefur auga leið að við íslendingar verðum, eins og nú er komið, að hagnýta alla þá möguleika til fiskveiða sem um er að ræða innan 200 mílna lögsögunnar.

Þegar ég hef sagt þetta vil ég koma að því, að varðandi þann samning, sem gerður hefur verið við færeyinga, gegnir í mínum huga og okkar fleiri alþb.- manna nokkuð öðru máli en varðandi alla aðra samninga, gerða og hugsanlega við aðrar þjóðir um veiðar innan fiskveiðilögsögunnar. Ég lít þannig á að færeyingar hafi í þessu efni algera sérstöðu og samningur út af fyrir sig við þá eina þurfi ekki að gefa og gefi ekkert fordæmi gagnvart öðrum ríkjum. Hvort sá samningur, sem gerður hefur verið, er eðlilegur miðað við þær aðstæður að við verðum að skera niður okkar eigin veiðar, það er svo annað mál, og að því kem ég e.t.v. lítillega hér á eftir.

En í hverju er þá sérstaða færeyinga fólgin? Hún er að mínum dómi fólgin í þessu:

1. Færeyingar eru háðari fiskveiðum en nokkur önnur þjóð. Oft er um það rætt og við leggjum eðlilega á það ríka áherslu hversu við íslendingar erum háðir fiskveiðum. Þegar þau mál eru rædd á alþjóðavettvangi, t.a.m. á hafréttarráðstefnu, finnst okkur oft og tíðum að um okkur gegni alveg sérstöku máli, þar sem það er alger undantekning þar að þjóð sé eins háð fiskveiðum og við erum. Sú eina þjóð, sem er enn þá háðari fiskveiðum en við íslendingar, er, eins og ég sagði áðan, færeyingar. Þetta er fyrsta atriðið sem mér finnst að verði að líta á þegar menn gera upp hug sinn um það hvort möguleikar eru á því að gera undantekningu að því er færeyinga varðar.

2. Ég tel að í þessu efni beri okkur að líta á það með skilningi að færeyingar eru því miður ekki sjálfir einráðir um sína hafréttarpólitík. Þeir hafa ekki verið það og eru það því miður ekki enn. Þeir eru hluti af Danaveldi og Danmörk er, eins og öllum er kunnugt, aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu, og sú hafréttarpólitík, sem þar er rekin, hefur haft og hefur áhrif á hafréttarmálefni færeyinga. Þetta tel ég vera annað atriði sem íslendingum ber sérstaklega að hafa í huga þegar um það er að ræða hvort hugsanlegt sé að gera undantekningu að því er varðar færeyinga eina eða ekki.

3. Þá vil ég nefna það; að fram á s.l. ár hygg ég að færeysk stjórnvöld hafi fylgt þröngri hafréttarpólitík, ef svo má segja, en sú landsstjórn, sem þar ræður nú, hefur breytt um stefnu að þessu leyti og lýst því yfir að hún berjist fyrir 200 mílna útfærslu, fyrir 200 mílum við Færeyjar. Ég tel að einnig beri að hafa þetta í huga þegar það er metið hvort hægt er að gera undantekningu að því er færeyinga varðar.

4. Þá vil ég og nefna það, að milli færeyinga og íslendinga, færeyskra sjómanna og íslenskra sjómanna og útgerðarmanna, er bæði gömul og ný samvinna á ýmsum sviðum sem ég þarf ekki að rekja lengi því að hún er afkunnug. Það má aðeins minna á það, að á þeim árum þegar mjög skorti á að íslendingar fengjust til veiða á allan skipaflota landsmanna, fyrir svo sem 15 árum eða þar um bil, þá voru það færeyingar ár eftir ár sem komu hingað og lögðu sítt af mörkum til þess að íslenski flotinn allur gæti stundað veiðar. Samvinna hefur verið, að því er ég hygg, góð á undanförnum árum milli íslenskra aðila og færeyskra um sölu á frystum fiski á Bandaríkjamarkaði. Þessi samvinna og samstaða grannþjóðanna og frændþjóðanna færeyinga og íslendinga ætti að mínum dómi að fara vaxandi, og ég tel að við ættum að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að slík samvinna á ýmsum sviðum og þá ekki síst á sviði sjávarútvegs, á sviði markaðsmála o.s.frv. fari vaxandi á komandi tímum, en ekki minnkandi. Og ég lít þannig á að strax og tímabært verður talið, strax og færeyingar hafa fengið umráð yfir stækkaðri landhelgi sinni, ef ekki fyrr, þá verði athugaðir möguleikar á því að gera gagnkvæma samninga milli þessara þjóða sem báðum gætu orðið til hagsbóta, þ.e.a.s. að íslendingar fengju ákveðin — og kannske umfram aðrar þjóðir — fiskveiðiréttindi innan færeyskrar fiskveiðilögsögu og færeyingar hefðu slík réttindi innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.

Hitt er svo annað mál og hlýtur að verða skoðað í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, hvort hér hefur verið gerður við færeyinga samningur sem teljast verður eðlilegur miðað við allar þær umr. sem eru um það að við íslendingar verðum að skera niður okkar fiskveiðar og þá alveg sérstaklega okkar þorskveiðar. Það er ómótmælanlegt að hér er um allmikið magn af fiski að ræða, sérstaklega af þorski, og mér virðist í fljótu bragði að niðurskurðurinn sé hér minni en sá sem oft og tíðum hefur verið rætt um að þyrfti að verða að því er íslendinga sjálfa snertir. Og það verð ég að segja, að enda þótt ég, eins og ég hef leitast við að færa hér nokkur rök að, líti svo á að færeyingar hafi og eigi að hafa algera sérstöðu í okkar huga, þá er útilokað að nokkur þjóð, jafnvel frændþjóð okkar færeyingar, eigi að fá meiri rétt eða sæta minni niðurskurði, ef svo má segja, á afla sínum hér innan fiskveiðilandhelginnar heldur en sem svarar því sem íslendingar verða að sæta sjálfir. Þetta tel ég að þurfi athugunar við og þurfi að fá upplýst í n., áður en endanlega er tekin afstaða til þessa samnings eins og hann liggur nú fyrir. En almennt séð tel ég að ekki sé aðeins vel stætt á því, heldur sé eðlilegt að við leggjum annan mælikvarða á færeyinga að því er veiðiheimildir í fiskveiðilandhelgi snertir heldur en nokkra aðra þjóð.

Um norska samninginn, sem ræddur er jafnframt þeim sem á dagskrá er, er á dagskránni næstur á eftir, um hann gegnir í mínum huga allt öðru máli. Aflamagnið er þar að vísu lítið, en ég sé ekki að það séu nein rök fyrir því að veita norðmönnum veiðiheimildir innan íslenskrar landhelgi umfram fjölmargar aðrar þjóðir. Og ég verð að segja það, að mér finnst það skjóta dálítið skökku við hjá þeim hv. Alþfl.- þm. að telja að þessi samningur við norðmenn sé alveg sjálfsagður, en að samningsgerð við færeyinga sé nánast útilokuð. Það má kannske segja að þetta sé ekki stórt mál, þ.e.a.s. þegar lítið er á aflamagnið. En það er hins vegar verulegt „prinsip“-mál í mínum huga hvort almennt séð verður ekki að líta þannig á að við höfum engin efni á því að vera að gera slíka samninga við aðrar þjóðir. Þá er rétt að líta á það stuttlega hvort það sé einhver sérstök ástæða líkt og með færeyinga sem geri það að verkum að við ættum endilega að gera samninga við norðmenn umfram aðra. Ég tel svo ekki vera. Í fyrsta lagi er þessi samningur ekki sambærilegur frá sjónarmiði norðmanna við það sem færeyski samningurinn er frá sjónarmiði færeyinga. Þetta er algert lítilræði fyrir norðmenn, munar þá í rauninni ekki nokkurn skapaðan hluti þjóðarbúskap þeirra,en veltur á mjög miklu að því er færeyinga snertir. Þá er ástæðulaust að gleyma því, að þó að norðmenn vinni með okkur á ýmsum sviðum og hafi gert það að vissu marki á Hafréttarráðstefnunni, þá eru þeir einhverjir allra skæðustu keppinautar okkar á fiskmörkuðum og hafa lengi verið. Og ég verð að segja það, að stuðningur þeirra í hafréttarmálum okkar hefur ekki alltaf verið sérstaklega mikill eða uppörvandi og er skemmst að minnast þess að býsna oft hafa þeir rætt um það og lagt á það áherslu að þeir ætli ekki að færa út einhlíða, þeir ætli að fara að öllu með lögum og bíða eftir því að það verði með samningum eða lögum gert. Vitanlega hefur verið í þessu nokkur broddur í garð okkar íslendinga og sagt óbeinum orðum að einhliða útfærsla okkar hafi ekki verið í samræmi við alþjóðalög.

Hitt, sem hv. 2. landsk. þm., formaður Alþfl., lagði áherslu á, er að í þessum samningi sé viðurkenning, sé svo mikilvæg viðurkenning á 204 mílna útfærslu okkar að þess vegna beri að gera samninginn. Það sé ég nú ekki, og sérstaklega sýnist mér að eins og málum öllum er komið sé gersamlega ástæðulaust að kaupa það einhverju verði að norðmenn viðurkenni kannske óbeint útfærslu okkar í 200 mílur. Ég sé ekki að það þurfi að semja við þá um fiskveiðiheimildir til þess að fá það fram. Og ég veit ekki hversu hátt hossar þessi óbeina viðurkenning, sem kannske kann að felast í þessum samningi, eða hversu mikils virði hún er okkur.

Eins og ég sagði, þá fer þetta mál og það, sem næst er á dagskránni, til þeirrar n. sem ég á sæti í og þar verður um það fjallað og afstaða til þess tekin. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að hafa þessi orð öllu fleiri nú, en vil aðeins undirstrika þetta tvennt, að almennt séð teljum við alþb.- menn engin rök fyrir því að gera samninga um veiðiheimildir við útlendinga, en ýmsir okkar a.m.k. höfum tilhneigingu til að segja: Um færeyinga gegnir alveg sérstöku máli og okkur ber að líta á þeirra mikla vanda mjög vinsamlega og gera það sem við getum framast til þess að leysa hann og halda á þann hátt uppi þeirri góðu samvinnu sem verið hefur á milli þessara frænda- og vinaþjóða um langan tíma einmitt að því er fiskveiðar og fisksölumál snertir.