03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3459 í B-deild Alþingistíðinda. (2846)

218. mál, lyfsölulög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég er sammála, eins og kemur fram á nefndarskjalinu, áliti heilbr.- og trn. varðandi þessar breyt. á lyfsölulögunum. Ég vildi aðeins vekja athygli á því hve litlar og smávægilegar þessar breyt. eru, því að í sambandi við þessa löggjöf alla þarf á miklu veigameiri breyt. að ræða en þarna koma fram.

Ég get ekki stillt mig um það, úr því að þessi lyfsölulög eru komin hér á dagskrá, að vekja athygli á frv., sem hæstv, fyrrv. heilbrrh., Magnús Kjartansson, lagði hér fram á sínum tíma um þessi mál öll, um þær breyt. sem ég tel að þurfi að gera á öllum okkar lyfjasölumálum í heild og um hafði þá náðst töluvert viðtækt samkomulag. Ég get vitanlega ekki vænst þess af hæstv. núv. ríkisstj., að hún komi í nokkru til móts við þá miklu breytingu sem þar átti á að gera, og veit reyndar að í hópi þeirra manna er að finna eindregna andstæðinga þeirra breyt. sem þar var meiningin að gera, en voru hiklaust til bóta fyrir almenning í landinu. Ég gat ekki stillt mig um að vekja athygli á þessum merku frv. sem komust aldrei mjög langt hér í þinginu og voru tafin alldyggilega af hv. þáv. stjórnarandstöðu. Ég læt í ljós þá von að sem fyrst verði komið þessum málum öllum á þann veg að þau komist í heilbrigðara og betra form fyrir fólkið í landinu, svo sem meiningin var með frv. Magnúsar Kjartanssonar á sínum tíma, en það gerist vitanlega ekki fyrr en hann eða hans líki sest í þann stól.