03.05.1976
Efri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3463 í B-deild Alþingistíðinda. (2854)

240. mál, tollskrá

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem varðar hið fyrra frv. sem ég hef nýlokið við að mæla með. Í frv. er svo ráð fyrir gert að á eftir 37. lið 3. gr. l. nr. 6 frá 1974, um tollskrá o.fl. komi nýr liður, svo hljóðandi, en aðrir liðir merkist samkvæmt því: „Að lækka eða fella niður gjöld að fenginni umsögn tryggingaráðs og Tryggingastofnunar ríkisins af talstöðvum í bifreiðar fatlaðs fólks sem lamað er eða bæklað til gangs. Eftirgjöf þessi nái einnig til smíðaefnis í slíkar talstöðvar fyrir fatlaða.“ Í grg. segir á líkan hátt og í grg. með fyrra frv. um nauðsyn þess að bækluðu fólki verði auðveldað að komast yfir öryggistæki af þessari gerð. Landssími Íslands lætur nú smíða miðbylgjustöðvar sem þykja allgóðar til notkunar í bílum. Stöðvar þessar kosta 380 þús. kr. og eru heldur ódýrari en innfluttar stöðvar samsvarandi. Tollur af smíðaefni í stöðvar þessar nemur 35%. Talstöðvar af þessari tegund eru í tollflokki nr. 85 1532 og er tollur af þeim einnig 35%. Þess má geta, að algengt er að útgerðarmenn, sem láta smíða fiskiskip erlendis og búa þau tækjum þar, fái eftirgjöf innflutningstolla af talstöðvum.

Mér er kunnugt um, að menn þykjast sjá meinbug nokkurn á niðurlagi efnisgr. í lagafrv., þ.e.a.s. á því að eftirgjöf þessi nái einnig til smiðaefnis fyrir slíkar talstöðvar fyrir fatlaða. En samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér hjá talstöðvasmiðju Landssímans ætti ekki að vera erfitt að draga frá eða marka sérstaklega út það efni, sem fer í þær talstöðvar sem fötluðu fólki yrðu fengnar frá Landssímanum til þess arna.

Ég ítreka aðeins það, sem ég sagði í sambandi við fyrra frv. um nauðsyn þess að illa fatlað fólk fái tæki af þessari tegund í bila sina, og óska þess að þessu máli verði vísað til fjh: og viðskn.