03.05.1976
Neðri deild: 94. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3477 í B-deild Alþingistíðinda. (2886)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka það fram að hv. meðflm. mínir hafa lýst því yfir að þeir áskilji sér rétt til að flytja brtt. við frv. þetta og fylgja þeim sem fram kunna að koma.

Mál þetta hefur verið alllengi í deiglunni og lengur en menn varði. Það fór á sömu leið og við setningu þeirra laga, sem nú gilda í þessu efni, að allur undirbúningur reyndist viðameiri og tafsamari en menn í upphafi óraði fyrir, og því er það að málið kemur síðar til kasta hins háa Alþ. en skyldi.

Í 18. gr. laga nr. 102 frá 27. des. 1973, um veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni, er mælt svo fyrir að sjútvrn. skuli láta endurskoða lögin fyrir 31. des. 1975. Ekki verður því um kennt að rn. hafi ekki hafist handa snemma um endurskoðunina, þar sem drög voru lögð að stofnun endurskoðunarnefndar í desember 1974. Sú n. hóf störf í jan. 1975 undir forustu fiskimálastjóra, en skipuð fulltrúum frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, Sjómannasambandi íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Landssambandi ísl. útvegsmanna, allir hinir vöskustu menn til verka sinna með mikla þekkingu á verkefninu. Samkv. skipunarbréfi rn. var n. gert að halda fundi með sjómönnum og útvegsmönnum um land allt svo og samtökum þeirra og öðrum hagsmunasamtökum og móta síðan drög að till. til breytinga á lögum að fengnum sjónarmiðum fyrrgreindra aðila. Voru það tilmæli rn. að n. lyki störfum fyrir vorið 1975.

Þrátt fyrir ötult starf reyndist ókleift að fylgja settum tímamörkum. Í septemberlok skipaði sjútvrh. 7 alþm. í n. eftir tilnefningu allra þingflokka. Þrátt fyrir aukinn mannafla reyndist ekki unnt að leggja fram lögin endurskoðuð fyrir s.l. áramót svo sem tilskilið var, og er það fyrst nú fyrir skemmstu að lagasmíðin fékk þann búning að menn treystust til þess að ganga með hana fyrir gafl á hinu háa Alþ. Þótt skammt kunni að lifa þings nú ber hina brýnustu nauðsyn til að frv. þetta nái lagagildi, enda ætti það ekki að vera ofverkið, þar sem frv. er fram borið af fulltrúum allra flokka, þótt þeir hafi varann á um fylgi við breytingar sem nauðsynlegar kunna að vera til samkomulags við þá sem nú fyrst eiga þess kost að koma á framfæri skoðunum sínum.

N. sló ekki slöku við í störfum sínum, hélt fjölmarga fundi víðs vegar um land, um 50 fundi alls, áður en þm. hófu nefndarstörf, en 24 síðan áður en upp var staðið. Vann þá þingmannanefndin enn að verkinu með ráðuneytismönnum og lögvillingum áður en lauk nösum. Hafrannsóknastofnunin og sérfræðingar hennar voru n. mjög innan handar um allar upplýsingar. Var mikill vilji fyrir að fara sem mest að þeirra ráðum, enda þótt það tækist ekki í öllu.

Þeir, sem nú vinna að lagasetningu um veiðar í íslenskri fiskveiðilandhelgi, ættu ekki að þurfa að villast af vegi, svo hátt her leiðarljósið, sem er verndun ofnýttra fiskstofna, að þeir mættu sem fyrst gefa okkur hámarksafrakstur. Menn skyldu því að óreyndu ætla að auðvelt væri að ná einingu um lagasetningu. Svo er þó alls ekki, eins og öllum hv. þm. er ljóst. Ég vil þá leggja áherslu á að um meginstefnuna eru menn einhuga. Það er í raun meira um að ræða að menn greini á um örfá strik í stjór eða bak, sem ekki mun hindra að sjóferðin heppnist þótt sigld verði og skipin nái heil í höfn. Sem jafnan fyrr er nauðsynlegt að öll skipshöfnin haldi vöku sinni og leggi enn harðar að sér um hríð. Að öðrum kosti verður ekki siglt fyrir öll þau sker á leiðinni kunna að vera.

Meginstefnan er verndun ókynþroska fisks. Ef okkur tekst að ráða þá gátu, þarf ekki annarra ráða að leita. Menn hafa að undanförnu heyrt hinar fjölbreyttustu till. um hver viðbrögð okkar skuli vera við hættuástandi fiskstofnanna. Flestar þær hugmyndir eru annaðhvort sprottnar af því að menn átta sig ekki á aðalatriði málsins eða þeir hafa ekki trú á að okkur tækist að hindra dráp á fiski í hrygningu, seiðum hans eða ungviði. Þótt við legðum helmingi flotans allt árið höfum við samt nægjanlegt sóknarafl til að drepa svo mikið af ungfiski að gereyða mundi aðalfiskstofnum okkar, ef þannig væri að verki staðið. Ef við náum hins vegar að hindra slíka ósvinnu, getum við beitt öllum flota okkar til sóknar allt áríð um kring og stofnarnir munu ná hámarki á ný. Annað mál er hvort öll sókn yrði arðbær í bili.

Um þetta meginatriði snerist öll umr. fiskveiðilaganefndarinnar, hvernig vernda má fisk í hrygningu og ungviðið. Og till. hennar eru: Takmarkanir veiða með botnvörpu á uppeldisstöðvunum og flotvörpu á hrygningarsvæðum, stækkun möskva í netum og vörpum, alfriðun hrygningarstöðva, friðun að hluta eða alfriðun nýrra uppeldisstöðva nær eða fjær landi, stækkun á lágmarksstærð landaðs afla aðalnytjafiska, aukið eftirlit, skyndilokanir veiðisvæða, og þannig mætti fleira telja sem ég vik að eftir hendinni.

Margt af till. n. er að finna í þessu frv., en aðrir, eru þegar komnar til framkvæmda með setningu reglugerða sjútvrn. Enginn skyldi þó ætla sér þá dul að lagasetning eða útgáfa reglugerða um takmarkanir fiskveiða leysi allan vanda. Auðvitað er framkvæmdin aðalatriðið. Þess vegna þarf að stórauka eftirlit með framkvæmd laga og reglugerða og beita óspart skyndilokunum veiðisvæða þar sem hætta er á smáfiskadrápi eða ofveiði. Við verðum enn fremur að gera okkur ljóst að fiskimenn okkar eru flestir haldnir svo stríðri veiðináttúru að tekur öllum öðrum náttúrum fram, a.m.k. til sjós, og rummungar eru líka í þeim hópi allt að því jafnmargir að tillögu og í landi. Þess vegna má ekki taka neinum vettlingatökum á framfylgd laga um fiskveiðar á Íslandsmiðum. Eins og sakir standa er betra að ofgera en vangera í þeim efnum. Agi verður að vera. Þótt undan svíði í bili munu menn áður en varir sjá að mest var það í þeirra eigin þágu. Ég legg áherslu á að tillögugerðin nú er byggð á grundvelli þeim sem fyrri fiskveiðilaganefnd skóp af vandvirkni.

Brtt. nú eru lærdómur sem menn hafa dregið af reynslunni og þeirri staðreynd sem augu allra virðast nú loks hafa opnast fyrir, að hætta er á að ofsókn gereyði mikilvægustu fiskstofnum landsmanna ef ekki er spyrnt við fótum af alefli. Ég endurtek að orð og mannasetningar hafa ekkert afl í þessum sökum ef aðgerðir fylgja ekki í kjölfarið.

Í 1. gr. frv. er að vísu nýmæli, sem í sjálfu sér hefur ekki mikið lagagildi, en sú skoðun var ráðandi að lögin hæfust á yfirlýsingu um tilgang þeirra.

2. gr. er óbreytt frá því, sem nú segir í 1. gr. núverandi laga. Allmikil umr. varð í n. um hvernig hún skyldi úr garði gerð. Þótti meiri hl. hennar sem ekki væri eðlilegt að íslenskum skipum væri með lögum bannað að veiða í eigin landhelgi og vildu að þeim væri það heimilt, en síðan kvæðu lög á um takmarkanir þeirrar heimildar. Er þingmannanefndin og rn. höfðu farið höndum um málið varð ofan á að hafa orðalagið óbreytt frá því sem nú er og hölluðust lagaspekingar fremur að því. Eru því íslenskum skipum bannaðar veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni nema þar sem sérstakar heimildir eru veittar til slíkra veiða í lögum þessum.

3. gr. frv. fjallar um veiðisvæði og veiðitíma þar sem íslenskum skipum er heimilt að veiða með botnvörpu og flotvörpu. Í núgildandi lögum voru veiðisvæðin allajafna miðuð við hina svonefndu grunnlínu, sem er lina dregin milli hinna svonefndu grunnlínupunkta sem ákveðnir voru með reglugerð. Nú er hins vegar lagt til að viðmiðunarstaðir svonefndir, sem viðmiðunarlína verður dregin milli, verði lögfestir. Viðmiðunarstaðirnir eru flestir hinir sömu og í núgildandi reglugerð, en er fjölgað um átta. Þykja staðir þessir eðlilegri til viðmiðunar af sérfróðum mönnum en hinir fyrri. Um lögfestingu viðmiðunarstaða og þar með grunnlínu voru menn sammála, því að ella mundi ráðh. með reglugerð geta gerbreytt svæðaskipan.

Við það er miðað lagafrv. þessu að vald ráðh. nái aðeins til þess að þrengja veiðiheimildir og minnka sókn í fiskstofna frá því, sem ákveðið er í frv., en ekki að hann hafi á valdi sínu að rýmka. Það hefur að vísu þótt illa gefast að hafa stærðir skipa bundnar í lögum sem þessum. Getur það orsakað óeðlilega stærðarskiptingu flotans og skipastærðir og gerðir fari eftir öðrum lögmálum en skyldi. Þó er þessi háttur ekki aflagður í frv. þessu. Hins vegar er nú lagt til að breytt sé um frá því sem miðað var við brúttórúmlestir til þess að miða við mestu lengd skipa. Þykir einsýnt að slíkt sé öruggari viðmiðun, enda sannanlegt að menn hafa ýmsum brögðum beitt til að fá skip mæld niður fyrir lögfesta rúmlestastærð, svo sem 105 tonnin. Að sniðganga þannegin lög verður allavega mun torveldara ef við lengd skips er miðað. Því er nú í stað þess, sem áður var miðað við 105 brúttórúmlestir og minni, miðað við skip 26 m að lengd og minni. Fyrir 350 brúttórúmlestir er nú sett 39 m að lengd eða minni. Það skal fram tekið að bátur 26 m langur er yfirleitt rúmlega 100 brúttórúmlestir miðað við eðlilega rúmlestamælingu, en 39 m langt skip er að jafnaði nokkru minna en 350 brúttórúmlestir. Sú undantekning er gerð, að þótt skuttogarar með 1000 bremsuhestafla vél séu styttri en 39 m, þá njóta þeir ekki þeirra ákvæða sem við eiga um önnur skip 39 m eða minni.

Fyrir Norðurlandi réttvísandi norður frá Horni og að linu réttvísandi norðaustur frá Langanesi verða þær breytingar á, að lagt er til að hafsvæðið milli 9 og 12 mílna verði lagt niður sem veiðisvæði skipa 350 brúttórúmlestir og minni, nú 39 m eða minni. Enn fremur er friðaða svæðið umhverfis Grímsey aukið úr 9 í 12 mílur og við Kolbeinsey úr 3 mílum í 12 mílur. Hin auknu friðunarsvæði við eyjarnar hafa þegar verið ákveðin með reglugerðum. Þá hefur nú nýlega verið friðað svæði í Beykjafjarðarál vegna smáfiskadráps. Og enn er þess að geta, að stórt svæði í hinum svonefnda Þverál djúpt norður og norðvestur af Horni hefur verið alfriðað árið um kring fyrir öllum veiðum.

Ýmsum mun að vonum þykja allmikið að gert fyrir Norðurlandi, auk þess sem allt hafsvæðið réttvísandi norður frá Hraunhafnartanga að línu réttvísandi austur frá Fonti hefur nú verið alfriðað allt árið út í 200 mílur fyrir flotvörpu og botnvörpu. Einkum mun sjálfsagt ýmsum útvegsbónda norður þar þykja orðið þröngt fyrir sínum dyrum, sér í lagi þegar hann gerir samanburð á veiðiheimildum nyrðra og syðra. En hér erum við komin að einu höfuðatriði málsins. Mestallt svæðið frá línu í norðvestur frá Straumnesi og allar götur í austur frá Glettinganesi sunnan Borgarfjarðar eystri eru aðaluppeldisstöðvar þorsksins. Að vísu eru svæðin fleiri fyrir öðrum landshlutum og varða fleiri fisktegundir sem mikla aðgæslu þurfa, en Norðurlandið og norðanverðir Austfirðir skera sig þó alfarið úr að því er snertir þorskina sem einnig þarfnast mestrar verndar.

Um ástand fiskstofna almennt mun ég ekki ræða nú. Ítarlegar umr. hafa farið fram um þau mál undanfarna mánuði og álít fiskifræðinga eru öllum kunnug. Fiskifræðingar hafa sannað, að helstu uppvaxtarsvæði þorsksins séu út af Norðvestur-, Norður- og Norðausturlandi. Þeir segja, að útbreiðsla og magn smáþorsks sé talsvert misjafnt eftir svæðum og árstímum. Því er nauðsynlegt að halda uppi stöðugu og öflugu eftirliti á fyrrgreindum veiðisvæðum. Slíku eftirliti þarf að koma á og loka veiðisvæðum tímabundið eftir því sem þörf gerist.

Fyrir Austurlandi eru hreinar línur að Hvítingum út af Eystra-Horni við Lón. Þar er engin veiði leyfð innan 12 mílna frá viðmiðunarlínum. Breytingar voru lagðar til frá því sem nú gildir. Áður var grunnlína dregin beint úr Fonti í Glettinganes. Nú er hins vegar ákveðinn nýr viðmiðunarstaður við Skálatáarsker á Digranesi. Þessi breyting heimilar auknar togveiðiheimildir á allvænni sneið af Digranesflaki. Á móti kemur að veiðiheimildir fyrir togskip allt að 350 brúttórúmlestir, eins og það gildir í dag, sem hafa náð allt inn að þrem mílum frá fjöruborði við allan Héraðsflóann, eru úr sögunni samkv. þessum till. Þá er aukin friðun við Hvalbak úr 4 mílum í 5. Það fer ekki á milli mála að á vissum árstímum er Hvalbakssvæðið mikið smáfiskasvæði. Þar þarf stöðugt eftirlit og beitingu skyndilokana.

Frá Hvítingum og allt að Bjargtöngum háttar allt annan veg til en fyrir Norður- og Norðausturlandi. Þar veiðast bæði fleiri fisktegundir og þar eru aðalveiðisvæði hins fullþroska fisks. Enginn má þó halda, að þetta sé nein algild regla auk þess sem hér eru víða uppeldisstöðvar mikilvægra nytjafiska. Enn fremur ber þess vel að minnast að þar eru hrygningarstöðvar þorsksins sem elst upp fyrir Norðurlandi. Það er því forsenda alls að kynþroska fiskur nái að tímgast, en sé ekki strádrepinn á leiðinni á miðin. Við verðum að veita hrygningarstofninum alla þá vernd, sem við höfum efni á.

Það hefði engan tilgang, að ég færi að þylja í belg og byðu hinar margbreytilegu togveiðiheimildir sem gilda og lagt er til í frv. þessu að gildi fyrir svæðið frá Hvítingum og að Bjargtöngum. Hlýt ég að láta nægja að vísa í því sambandi til grg. með frv. Í heild má segja að þær breytast að því leyti að þær verða allmiklu einfaldari en þær sem nú eru í gildi. Veiðar skipa af stærðinni frá 25 m og til 39 m eru þó takmarkaðri en áður, sérstaklega á svæðinu milli Lundadrangs og Reykjanesvita alveg sérstaklega á þetta við um Selvogsbankasvæðið þar sem eru aðalhrygningarstöðvar þorsksins.

Á Faxaflóasvæðinu eru heimildirnar lítið sem ekkert breyttar og í og út af Breiðafirði eru þær með öllu óbreyttar. Veiðiheimildirnar fyrir Vestfjörðum frá Bjargtöngum að Horni eru óbreyttar, engar togveiðar leyfðar innan 12 mílna frá viðmiðunarlínu sem þar sem víðast annars staðar er óbreytt frá hinum gömlu grunnlínum. Ég vil vekja athygli á að í núgildandi lögum eru smæstu gerð báta heimilar togveiðar að fjöruborði á svæði fyrir vestan Grindavík og að Krýsuvík á tímabilinu frá 1. jan. til 15. sept. Eins voru áður í lögum heimildir fyrir sömu stærð báta til veiða að fjöruborði á vissum tímum fyrir Landeyjasandi. Ekki er till. að finna um slíkar heimildir í þessu frv., en mér kæmi ekki á óvart þótt slíkum till. yrði hreyft þar sem því er haldið fram af kunnugum mönnum að á þessi svæði gangi aðeins fullorðinn fiskur.

4. gr. frv. er óbreytt frá gildandi lögum.

Í 5. gr. er ráðh. gefið meira olnbogarými til að skipa veiðisvæðum milli veiðarfæra en í núgildandi lögum. En í núgildandi íögum náði slík heimild aðeins til veiða utan 12 mílna frá grunnlínu. Nú getur hann, ef þetta frv. verður að lögum, ákveðið hvers konar skiptingu milli veiðarfæra hvar sem vera skal, eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni.

6. gr. frv. er óbreytt frá því sem nú er í gildi. 7. gr. er óbreytt að öðru leyti en því, að samkv. frv. getur ráðh. ákveðið ný friðunarsvæði eða breytingar á eldri friðunarsvæðum, þannig að nái til allra veiðarfæra, en áður náði heimild hans einvörðungu til veiða með botnvörpu, flotvörpu og dragnót. Er þetta nýja ákvæði mikilvægt með tilliti til friðunar hrygningarsvæða sérstaklega, að þar verði hægt að koma á banni við öllum veiðum.

Þá er komið að nýjum þáttum þessa frv. Eins og ég hef áður getið um, lagði fiskveiðilaganefndin allt kapp á að fínna úrræði sem dygðu til að hindra smáfiskadrápið þar sem sannfæring hennar stóð til þess að allt annað væri í rauninni léttvægt á borð við þá knýjandi nauðsyn. N. lagði fram ítarlegar till. þessu aðlútandi. Hún gerði ráð fyrir mjög ströngu eftirliti, skyndilokunum í allt að 7 daga og útgerð þriggja sérstakra eftirlitsskipa. Við nánari athugun þótti ekki fært að taka till. hennar fullkomlega til greina eftir orðanna hljóðan. Á alveg sérstaklega við í þessu sambandi að svo mikið eftirlit og útgerð í sambandi við það verður ekki sett í lög um nýtingu landhelginnar nema til skjalanna hafi fjárveitingavaldið fyrst komið.

8. og 9. gr. þessa frv. stefna þó í sömu átt og till. n. gerðu ráð fyrir. Og þótt vægilega sé til orða tekið verður meiningin, þegar til framkvæmdanna kemur, að verða hin sama. Um það verðum við hið allra fyrsta að taka ákvörðun að verja stórauknu fé og mannafla til hvers kyns eftirlits með fiskveiðum á Íslandsmiðum og þeim afla sem á land berst. Allt annað er ófyrirgefanlegt sinnuleysi. Vegna ólöglegs afla hygg ég að komið sé til móts við till. n. í því frv. til l. um upptöku ólöglegs afla sem kemur vonandi brátt til lokaafgreiðslu á hinu háa Alþingi. Það kann vel að vera að kerfið sé svo fljótvirkt að ákvörðun trúnaðarmanns ráðh. um skyndilokun veiðisvæðis í tvo sólarhringa sé nægjanlegt. Ég vil þó nú þegar varpa því fram hvort ekki sé varlegra að hafa tímann lengri, t.d. 4–5 sólarhringa. Sannleikurinn er sá, að eins og nú stendur á má segja að við getum ekki gert of mikið af því að loka þegar í stað veiðisvæðum þar sem gera má ráð fyrir að smáfiskadráp fari fram. Það á að loka slíku svæði þegar í stað, þótt aðeins leiki óljós grunur um smáfiskadráp eða minnsti orðrymtur sé uppi um að slíkt sé gert. Og gildir alfarið í þessu efni að betur er ofgert en vangert.

Smáfiskadráp er enn stundað í stórum stíl af íslendingum á eigin miðum. Undirmálsfiskur heldur áfram að berast á land, og enn miklu meira er aftur í sjó skilað. Hvað sem það kostar verður að sjá svo um að slíkum ókjörum linni. Annars er allt annað unnið fyrir gýg. Á hinn bóginn: Takist okkur alveg að hindra smáfiskadráp og seiða og vernda hrygningarfisk, þá er öllu borgið.

Í 10. gr. frv. er nýmæli sem heimilar ráðh, í samráði við Hafrannsóknastofnun og að fenginni umsögn Fiskifélagsins að setja reglur um hámark þess afla sem veiða má af hverri fisktegund á tilteknu tímabili. Er slíkt ákvæði auðskilið, eins og nú er komið fyrir ýmsum fiskstofnum okkar.

Þeim fækkar nú, þeim atriðum málsins sem ég mun orðfæra nú, enda flest, sem á eftir fer í frv., lítið breytt frá því sem áður var.

Í núgildandi lögum eru ákvæði sem banna að nota heimild til dragnótaveiða í Faxaflóa fram til 1. júlí í ár. Allar dragnótaveiðar verða að sjálfsögðu háðar sérstökum leyfum og reglugerðum áfram. Það er álit fiskifræðinga að skarkolastofn okkar sé mjög vannýttur. Telja þeir að veiða megi allt að 10 þús. tonnum á ári af rauðsprettu. Þetta er dýrmætur fiskur og sætmeti hið mesta frá því í júní og fram á haust, að hann gengur á djúpmið til hrygningar. Nú greinir menn hins vegar mjög á um dragnótaveiðar Á hitt vil ég strax minna, að ákveðið hefur verið að stækka möskva í dragnót í 170 mm og talið af fiskifræðingum að þann möskva smjúgi allur fiskur nema sá sem er í vextinum eins og kolinn og kannske rígaþorskur, sem á skammt eftir hvort sem er. Enn er frá því að segja, að ýmsir fiskifræðingar halda því eindregið fram að notkun dragnótar og trolls róti upp botngróðri og dýrum sem séu nauðsynleg fæða fiska. T.d. er því haldið fram af fiskifræðingum sem rannsakað hafa og fylgst með lífríki Norðursjávar. Menn fullyrða að víða á gamalli og góðri fiskislóð í Faxaflóa sé nú urinn akur og illgresi eitt og illyrmi. Að leggja linu með tálbeitu á Bakkarif eða Bollasvið hér í Flóanum gefur ekki aðra raun en krossfisk á hvern krók, en engan ætan fisk. Þótt dragnót verði leyfð í Faxaflóa, þá er þó einsýnt að takmarka hana við ákveðin svæði og ákveðna tölu skipa. Áníðsla má hvergi eiga sér stað.

Menn benda á annað í þessu sambandi. Áður fyrr var oft mikil fiskgengd í Húnaflóa innanverðan. Nú hefur hann verið friðaður fyrir botnvörpu síðan 1952, en allt kemur fyrir ekki. Engan árangur virðist það bera. Ég er þeirrar skoðunar, að gera ætti tilraunir með að róta upp fiskafæðu í botni Húnaflóa og sjá hvað setur. Gaman og fróðlegt á marga vísu væri að heyra álit hv. þm. Vestf. og Norðurl. v. á þessu atriði.

Varðandi sektarákvæði vil ég leyfa mér að vitna í eftirfarandi grg. fiskveiðilaganefndarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðurlög við brotum eru ætíð mikið matsatriði. Á það að sjálfsögðu jafnt við um fiskveiðilagabrot sem önnur brot. N. er ekki tilbúin til að taka afdráttarlausa afstöðu til þessa máls. Hún vill þó benda á eftirfarandi atriði: Rammi sektarákvæða er afar rúmur eða frá 1000–60 000 gullkrónur auk ákvæða um upptöku veiðarfæra, afla o. fl. Gengi gullkrónu er nú“ — segir n., það var 26. jan. 1976 - „þannig að 100 gullkrónur jafngilda kr. 9365.49“ — og er þetta mjög nákvæmt. „Sektir eru auk þess mjög misháar eftir því hve stór skip eiga hlut að landhelgisbrotum og má það vera eðlilegt að vissu marki. N. telur sektarbilið óeðlilega mikið, ekki síst þegar þess er gætt að svo virðist sem dómstólar hafi mjög skorðaðar reglur um beitingu sekta án tillits til aðstæðna. Það er ekki sama hvort skip er tekið að ólöglegum veiðum að vetri til í vondu veðri rétt innan fiskveiðimarka djúpt úti í hafi eða við allt aðrar aðstæður og e.t.v. langt innan markanna. Og í eðli sínu er brotið sama eða svipað, hvort heldur það er framið á stóru skipi eða smáu, auk þess sem minni skipin hafa að jafnaði rýmri veiðiheimildir en hin stærri og eiga þar með auðveldara með að staðsetja sig en stærri skipin þar sem þau veiða nær landi. En hvað sem þessu líður telur n. að dómstólar ættu að haga sektarákvörðunum sínum með mið af aðstæðum í miklu ríkara mæli en nú virðist vera gert.

N. leggur til að gerð sé nokkur tilraun til lagfæringa á þessu með því að hækka neðri mörk sekta úr 1000 gullkr. í 4000 gullkr. og lækka hin efri mörkin úr 60 þús. gullkr. í 40 þús. gullkr. Um þetta var þó allmikill ágreiningur. Það virðist nokkuð ljóst að þeir, sem eiga yfir höfði sér lægri sektir, séu í sumum tilfellum allbíræfnir við fiskveiðilagabrot, og líklega nær þetta þó til fremur fárra manna. Hins vegar eru efri mörkin svo há að þau gætu, ef beitt væri, leitt til algerrar eignarsviptingar skipstjórnarmanna þótt sæmilega bjargálna væru. Ólíklegt verður að telja að slíkt vaki fyrir löggjafanum. En hvað svo sem þessum lauslegu till. og hugleiðingum líður telur n. rétt að til verði kvaddir sérfræðingar í refsirétti til að fjalla um þennan þátt.“

Ég vil taka það fram að 100 gullkr. jafngiltu kr. 9847.20 kl. að verða 10 í morgun. Ég hef ekki athugað það síðan.

Ég hef þá lokið máli mínu. Það undrar engan þótt sitt sýnist hverjum, einnig hér á hinu háa Alþ., þegar um svo viðamikinn og mikilvægan málaflokk er að tefla sem vöxt og viðgang fiskstofuanna hér við strendur landsins, sem mannfólkið, sem byggir landið, á mest sitt undir. Smiðum þessa frv. kemur ekki á óvart þótt margt verði að verki þeirra fundið. Þeir eru þess einnig albúnir að beita allri sanngirni og taka fyllsta tillit til skoðana hv. þm. og vilja ýmislegt á sig leggja til að góð samstaða náist um lagasetningu þessa. Þó mundu þeir einkum og sér í lagi fagna öllum till. og ábendingum sem til þess sýndust fallnar að efla það sem öllu máli skiptir, baráttuna fyrir friðun ungfisksins.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til að að umr. þessari lokinni verði frv. þessu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.