10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

12. mál, orkulög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þau lagaákvæði, sem nú gilda um réttinn yfir jarðhita, þurfa endurskoðunar við. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að greina milli háhitasvæða og lághitasvæða. Varðandi háhitasvæðin, þá skulu þau verða eign ríkisins, en varðandi lághitasvæðin skuli hver landeigandi hafa rétt til umráða og hagnýtingar á þeim svæðum.

Í frv. eru dregin mörk milli háhita- og lághitasvæða. Háhitasvæði teljast jarðhitasvæði ef innan þeirra finnst 200 stiga hiti ofan 1000 m dýpis. Því hefur verið hreyft af ýmsum hvort mörk séu jafnan svo skýr og glögg milli háhita- og lághitasvæða samkv. þessari skilgreiningu að á því sé hægt að byggja svo mikilvæg lagaákvæði eins og í þessu frv. felast.

Aðrar till. hafa áður verið uppi um rétt ríkisins til hagnýtingar og umráða jarðhita. Þær voru í frv. sem lagt var fyrir Alþ. árið 1956. Þá var svo ákveðið að ríkið skyldi eiga allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhíta sem sóttur er dýpra en 100 m undir yfirborð jarðar.

Þegar greina skal milli þess hvað landeigendur skuli eiga og hvað ríkið skuli taka til sinna umráða, þá held ég að sé nauðsynlegt að athuga nokkru nánar hvar mörkin skuli draga, og þurfi það nýrrar athugunar við.

Í öðru lagi er rétt að taka það fram að við umr. um þetta mál hefur komið fram nokkur gagnrýni af hálfu sveitarfélaga. Þess eru dæmi að sveitarfélög eiga jarðhitaréttindi, en frv. gerir ráð fyrir því að þau réttindi séu af sveitarfélögunum tekin án bóta. Hins vegar er svo ákveðið að sveitarfélög, sem eiga land á háhitasvæði við gildistöku laganna, skuli þó hafa forgangsrétt til vinnsluleyfis á landinu og vera undanþegin leyfisgjaldi. En einnig í sambandi við sveitarfélögin kemur þetta vandamál upp, hvort mörkin séu þarna eðlilega dregin í milli. Þess eru nefnilega dæmi að sveitarfélög eiga lághitasvæði og sveitarfélög eiga háhitasvæði, og hef ég orðið þess var að sum þeirra telja að frv. mundi leiða af sér nokkurt misrétti milli þeirra ef að lögum yrði.

Varðandi það atriði, sem töluvert hefur verið rætt, hvort þetta frv. stríði gegn stjórnarskránni eða ekki, þá liggur nú fyrir álit lagadeildar Háskólans um það efni, þar sem það kemur fram, að það sé auðvitað fyrst og fremst á valdi dómstólanna að skýra 67. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins og meta hvort bætur skuli fyrir koma ef frv. verður að lögum. Náttúrlega mundi frv. ekki hagga þeim rétti sem menn hafa samkv. túlkun dómstólanna á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar. Ég tel nauðsynlegt að þessi mál, eins og raunar ýmis fleiri atriði í orkulögum, en frv. þetta er um breyt. á þeim, þurfi skoðunar við og orkulögin í heild hafa verið og eru til athugunar í iðnrn. Hins vegar er ljóst að meðan ekki hafa verið sett ný lagaákvæði og skýr, eftir því sem unnt er, um þessi mál, er nauðsynlegt að reynt sé að leita samninga við landeigendur og tryggja rétt til hita og lands áður en hið opinbera ræðst í jarðboranir. Því miður hefur nokkur misbrestur orðið þar á og eru þess nokkur dæmi að afkastamiklir jarðborar hafi verið látnir hefja framkvæmdir og borað með árangri eftir heitu vatni og gufu án þess að hugsað hafi verið fyrir því að gera samkomulag áður við landeigendur. Þetta hefur skapað, eins og kunnugt er, ýmis vandamál. Ég hef því falið Orkustofnun og lagt fyrir hana að gæta þess, að áður en hafnar eru boranir eftir jarðvarma hafi verið gengið frá samningum um land- og hitaréttindi. Þessi fyrirmæli eiga auðvitað fyrst og fremst við um það þegar Orkustofnun er falið af ríkinu að rannsaka og hefja boranir á vissu landssvæði og á við hver sem í hlut á. Það er einnig átt við með þessu að þegar borað er eftir beiðni sveitarfélaga eða einstaklinga, þá á Orkustofnun einnig, áður en hún hefur boranir, að gæta að því hvort samkomulag hefur verið gert um landsréttindi og nýtingu jarðhita ef árangur fæst of borun. Miðað við reynslu undangenginna ára taldi ég nauðsynlegt að gefa Orkustofnun slík fyrirmæli á meðan mál þessi öll eru í nánari athugun.