04.05.1976
Neðri deild: 96. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3545 í B-deild Alþingistíðinda. (2931)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðalefni þessa frv. er, eins og hér hefur áður verið sagt, að fjölga bankastjórum við Búnaðarbanka Íslands. Það er nauðsynlegt, held ég, í þessu sambandi að líta aðeins til baka og renna augum yfir það hvað hefur gerst í þessum málum, þó að ekki sé langt um liðið, þ.e.a.s. frá árinu 1971.

Eins og hér var vitnað til áðan, þá voru þeir flokkar, sem stóðu að fyrrv. ríkisstj, undir forsæti Framsfl., um það sammála og tóku upp í málefnasamning þeirrar ríkisstj. að endurskoða bæri allt bankakerfið og vinna þannig að sameiningu banka og fjárfestingarsjóða. Þetta var eitt af ákvæðum málefnasamnings ríkisstj. Framsfl., Alþb. og SF sem mynduð var 1971. Og í áframhaldi af þessu ákvæði málefnasamningsins var sett á fót n. 29. maí 1972, 7 manna n., sem í áttu sæti Jóhannes Nordal bankastjóri, Ármann Jakobsson, Björgvin Vilmundarson, Guðmundur Hjartarson, Jóhannes Elíasson og Magnús Jónsson, allt bankastjórar. Þessi n. skilaði áliti í jan. 1973, og gerðist kannske það ólíklega, að þessi n. varð sammála í meginatriðum varðandi þessi mál. Hún varð sammála um það að hér væru peninga- og lánastofnanir miklu fleiri en hagkvæmt gæti talist, og í álitsgerð þessarar n., var lögð á það áhersla að nauðsyn væri á endurskoðun löggjafar varðandi þessar stofnanir. Í þessu nál. segir m.a. að allt bendi til þess að viðtækrar samstöðu sé að vænta í þessum efnum sem geti m.a. leitt til samruna í stærri og virkari heildir.

Í álitsgerð þessarar n. kemur fram að hún vildi fækka viðskiptabönkum í 3–4, og miðað við aðstæður, sem þá voru, taldi hún eðlilegast að fækka hlutafélagsbönkum í einn til tvo og fækka ríkisbönkunum úr þremur í tvo og líklegustu leiðina til þessa, þ.e.a.s. að fækka ríkisbönkunum úr þremur í tvo taldi þessi n. bankastjóranna að væri að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann. Þetta var í meginatriðum sú niðurstaða sem þessi n. komst að. Og ef þessi ráðstöfun hefði verið gerð, þá var um að ræða að kominn væri á fót með sameiningu Útvegsbanka og Búnaðarbanka banki á stærð við Landsbankann sem væri á svipuðum grundvelli og væri svipað sterkur til þess að sinna verkefnum. Og þá hefði að áliti þessara vísu manna skapast það ástand að í landinu væru tveir tiltölulega sterkir ríkisbankar sem hefðu mjög svipaða dreifingu útlána og þar með væri sköpuð eðlileg og heilbrigð samkeppni.

Frv.í þessa átt var lagt fram hér á Alþ. veturinn 1973–1974, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Síðan hefur mér vitanlega ekkert í þessu máli gerst fyrr en nú að fram kemur stjórnarfrv. þar sem lagt er til og er meginefni frv. að grípa nú til þess ráðs að fjölga bankastjórum við Búnaðarbankann. Það hlýtur að vakna sú spurning hjá hv. þm. hvað hér hafi gerst,. með hliðsjón af því að forustuflokkurinn, sem margir töldu, í fyrrv. ríkisstj. Framsfl., hann var á þeirri skoðun þá að stefna bæri að því að fækka bönkunum og sameina þá. Lagt var fram stjfrv. þess efnis þá, og það hlýtur því að vera spurning, hvað hefur breyst. Hefur breyst sú skoðun Framsfl. að það beri að fækka ríkisbönkum, sameina þessa tvo og gera þá þar með að álíka stórum banka og Landsbankinn sem gæti betur náð þeim tilgangi sem ætlað er. Ef svo er, að þessi þáv. skoðun Framsfl. hefur breyst, hver er þá ástæða þess og hvert á framhaldið að verða? Eins og hér var komið inn á áðan, hvað sem þessu líður er þá rétti tíminn til þess nú, í því árferði sem nú ríkir hér á landi, að það megi teljast til bjargráða í þjóðfélaginu í sambandi við fjárhags- og efnahagsmál að fjölga bankastjórum?

Ég held að það sé augljóst að þetta frv. og meginefni þess er ótímabært, ef menn líta til þess sem áður hefur verið hugleitt í þessum efnum og allir voru sammála um fyrir þremur árum að bæri að stefna í aðra átt en hér er lagt til.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. Þó get ég ekki stillt mig um að víkja hér aðeins örfáum orðum að öðru vegna umr. sem fram fóru í hv. Ed. þegar þetta mál var þar á dagskrá. Þar var um að ræða í fyrsta lagi valdsvið bankaráðs, hvert það væri, og þá vitnað til sérstakra atvika sem upp höfðu komið innan bankakerfisins í sambandi við launamál, uppbætur á yfirvinnu og hlunnindi bankastjóra. Það gerðist nokkru áður en samningar milli aðila vinnumarkaðarins voru undirritaðir, að út spurðist að talsverð, er óhætt að segja held ég, hækkun launa hjá bankastjórum átti sér stað. Ég skal ekki í þessu sambandi nefna neinar tölur, en þó mun óhætt að segja að hér hafi verið um að ræða ríflega hækkun til þessara embættismanna miðað við þá hækkun sem átti sér stað í kjarasamningum. En burtséð frá því, þá var að því vikið af einum bankaráðsmanni einmitt þessa banka, Búnaðarbankans, í umr. í Ed. hvert í raun og veru væri valdsvið bankaráðs í sambandi við launagreiðslur. Þar er um að ræða, eins og ég hygg að öllum sé kunnugt, að þar teljast 13 mánuðir í ári miðað við greidd laun. Seðlabankinn hafði á síðasta ári, eftir því sem ég best veit, tekið upp þær reglur að greiða uppbætur á þessi 13 mánaða laun fyrir yfirvinnu sem talið var að innt væri af hendi. Þessi bankaráðsmaður vissi ekki til þess að neinar slíkar samþykktir hefðu verið gerðar í bankaráði Búnaðarbankans a.m.k., og mér skildist á þessum umr. að þess vegna spyrði hann um valdsvið hankaráðs með hliðsjón af því að það hafði ekki fjallað um þessa ákveðnu, tilteknu hluti í sambandi við launamál innan bankans.

Einnig bar þar á góma hlunnindi bankastjóra sem þessi bankaráðsmaður, hv. 7. landsk. þm., taldi stífustu ráðherrahlunnindi og þykir þá mörgum mikið sagt. Ekki hafði hann vitað til þess að þessi atriði varðandi hlunnindi bankastjóra hefðu verið samþykkt í þessu tiltekna bankaráði, eða gaf þá yfirlýsingu að honum væri ókunnugt um að neitt fyndist í bókun bankaráðs á fundum um samþykktir í þessa átt. Sé þetta rétt, þá virðist það augljóst, - ég segi: sé þetta rétt, ég vil ekkert fullyrða í þeim efnum, ég geri ráð fyrir að hæstv. landbrh. sem bankamálaráðh. þessa banka geti upplýst þetta hér á eftir, — en sé þetta rétt, þá sýnist mér augljóst að bankaráð hefur a.m.k. ekki í þessu tiltekna tilviki tekið ákvarðanir í þessum efnum sem mér finnst a.m.k. augljóslega eðlilegt að það ætti að gera og ætti að vera í þess verkahring. Mér finnst út af þessu að það væri æskilegt að fá um það vitneskju, helst beint frá hæstv. ráðh. Ég vil a.m.k. í lengstu lög trúa því, sem hæstv. ráðh. segir og hef ekki ástæðu til annars. En ef þessi dæmi, sem hér hafa verið nefnd og spunnust inn í umr. í hv. Ed., ef þau eru rétt, þá sýnist mér augljóst að það þurfi að gera á bragarbót í sambandi við valdsvið bankaráðs, þannig að það verði ekki tilteknir einstaklingar sem starfsmenn viðkomandi stofnana sem ákvarði þessa hluti, heldur eigi það að vera í verkahring bankaráðanna sem í meginefnum fjalla um starfsháttu viðkomandi stofnunar.

Ég dreg enga dul á að hún var vægast sagt mjög óheppileg, þessi ákvörðun um verulega hækkun launa bankastjóra án þess að gerð væri, að því er ég hest veit, nokkur tilraun til þess af hálfu hæstv. ríkisstj., að hafa þar hemil á. Það var a.m.k. vægast sagt óheppileg ráðstöfun á þeim tíma sem hún var gerð að framkvæma slíka hækkun, á þeim tíma sem hæstv. ríkisstj. og ráðh. prédika næstum dag og nótt sparnað á sparnað ofan og á þeim tíma sem barist var um á hæl og hnakka til þess að halda niðri að verulegu leyti eðlilegum kauphækkunum til handa launafólki almennt.

Ég er ekki með þessu að segja að þeir séu ekki vel að því komnir, bankastjórar, að hafa sæmileg laun. Ég hygg að þeir hafi haft það fyrir og það hafi ekki verið nein sérstök ástæða til þess á þessum þrengingartímum að stíga svo stórt skref til hækkunar á launum þeirra sem raun ber vitni, með hliðsjón af ástandinu almennt í landinu. Og ég tel að þarna hefði hið margumtalaða sparnaðartal hæstv. ríkisstj. átt að koma til og að hún hefði a.m.k. haft hönd í bagga í þessum efnum í stað þess að láta viðkomandi stofnanir og, eftir því sem þessi tiltekni bankaráðsmaður, sem ég vitnaði til áðan, álítur, bankastjóra einráða um veigamiklar ákvarðanatökur innan stofnunarinnar sem ættu að heyra undir stjórn stofnunarinnar.

Það er því ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðh. um hvort þetta, sem hér hefur verið dregið fram, sé í raun og veru það sem gerst hefur. Er það ekki í verkahring bankaráðs að ákvarða laun til starfsfólks viðkomandi stofnunar, eða er það gert eingöngu af viðkomandi bankastjórum? Mig langar til að fá vitneskju um hver það hafi verið sem tók þessar ákvarðanir sem bankaráð Búnaðarbankans eða a.m.k. þessi tiltekni bankaráðsmaður taldi sig ekki vita um að hefðu verið teknar af hálfu bankaráðsins.

Að öðru leyti vil ég segja það um þetta frv., að ég tel að það sé algerlega óþarft og sé ekki neina brýna nauðsyn til þess að endilega nú þurfi að grípa til þess ráðs að fjölga bankastjórum, það séu ærin önnur verkefni sem fjármunum væri betur varið til á þessum þrengingartímum og æskilegra væri að horfið væri til hins fyrra og farið að vinna betur að því að framkvæma það ákvæði málefnasamnings fyrrv. ríkisstj. undir forsæti núv. dómsmrh. að reyna a.m.k. að stemma stigu við útþenslu bankakerfisins frá því sem er og þessir tilteknu, þaulreyndu bankastjórar töldu að væri mjög óhagkvæmt miðað við ástand í þjóðfélaginu, a.m.k. eins og það var þá. Og ekki mun það talið hafa skánað mikið síðan. A.m.k. tel ég fyrir mitt leyti þetta frv. óþarft og mun í samræmi við það greiða atkv. gegn því, að hér verði stigið það skref núna að fjölga bankastjórum.