04.05.1976
Efri deild: 97. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

266. mál, fjáröflun til landhelgisgæslu, ríkisfjármál o.fl.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég vil í upphafi leyfa mér að þakka fjh.- og viðskn. beggja d. fyrir störf þeirra í sambandi við það frv. sem hér er til umr. og fyrir það að hægt hefur verið að vinna að þessu máli að það sýnist geta hlotið afgreiðslu á þessum klukkutíma e.t.v.

Í sambandi við ræðu hv. 5. þm. Norðurl. v., sem lauk hér máli sínu áðan sem frsm. minni hl., þá held ég að ég verði að leiðrétta það sem hann sagði síðast þegar hann ræddi um erlendar lántökur. Framan af hafði hann rök að mæla í sambandi við þau sjónarmið sem hann þar kom fram með, en hann endaði ræðu sína á því að benda á að núv. ríkisstjórn hefði tekið erlend lán til eyðslu. Hér er ábyggilega um að ræða mikinn misskilning hjá hv. þm. því að erlendar lántökur í ár og á s.l. ári voru til framkvæmda sem annaðhvort voru, eins og hann vék að, til gjaldeyrisöflunar eða til þess að spara gjaldeyri. Hitt liggur svo ljóst fyrir, að vegna þess hvernig okkar viðskiptakjörum er komið og vegna þess hvernig gjaldeyrisstaða Seðlabankans hefur verið, þá hefur Seðlabankinn orðið að útvega sér viðskiptalán, þ.e.a.s. gjaldeyrislán til þess að sinna þeim þörfum, og það eru allt annars konar lán en þau sem ríkissjóður tekur til opinberra framkvæmda. Og ef litið er á lánsfjáráætlun þá, sem samþykkt hefur verið fyrir árið 1976, þá kemur þar auðvitað í ljós að þau erlendu lán, sem taka skal, eru í sambandi við opinberar framkvæmdir eða framkvæmdir sveitarfélaga sem, eins og hv. þm. vék að, eru til þess að spara gjaldeyri eða til þess að afla aukins gjaldeyris.

Það hefur mátt heyra það hér á ræðum hv. stjórnarandstæðinga að þeir vilja ógjarnan vera andvígir þeim atriðum þessa frv. sem þeir telja að ópraktískt sé fyrir þá að vera í andstöðu við. Þeir hafa hins vegar ekki viljað axla þá byrði sem því fylgir að halda þar með að sjálfsögðu ríkisfjármálunum í jafnvægi. Þeir hafa ekki viljað taka þátt í því að axla þá byrði sem ljóslega liggur fyrir okkur að taka á okkur í sambandi við landhelgisgæsluna, í sambandi við fiskvernd og það sem verður að vinna í sambandi við það hvernig komið er okkar fiskstofnum.

Hér hafa verið settar fram hugmyndir, bæði í hv. Nd. og hér í hv. Ed., til lausnar á þessum vanda, sem mig furðar að hér skuli heyrast, þ.e. að leysa rekstrarvandamál ríkissjóðs með því að hætta við framkvæmdir og nota erlendu lánin til þess að eyða í rekstrargjöld hjá ríkissjóði. Ég hefði nú talið að þeir aðilar, sem vilja gagnrýna fjármálastjórn núv. ríkisstj., hefðu a.m.k. ekki komið með þessar till. hér til úrlausnar og til úrbóta, því ef núv. ríkisstj. tæki þær til eftirbreytni, þá væri hægt að gagnrýna hana fyrir hvernig fjármálastjórnin væri.

Það rekur sig hvað á annars horn þegar verið er að gagnrýna, eins og gjarnan vill verða þegar menn hafa ekki till. fram að færa í sambandi við lausn á vandamálunum. Það á að gera ýmsa hluti, en hins vegar má hvergi við koma og ekki er bent á nein úrræði til lausnar.

Ég skal nú ekki fara lengra út í þessar umr. Ég vildi þó aðeins vekja athygli á því, sem ég sagði í upphafi máls míns hér og kom kannske gleggra fram í ræðu minni í hv. Nd., þar sem ég vék að fjármálum ríkissjóðs og gerði grein fyrir bráðabirgðatölum ríkisbókhalds í ríkisreikningum 1975. Ég taldi mig hafa komið fram þar með þær tölur sem ríkisbókhaldið hefur látið frá sér fara. Ég skal fúslega viðurkenna að þær upplýsingar, sem gefnar voru í sambandi við fjármál ríkisins á s.l. ári, voru ekki með þeim hætti sem skyldi. En það, hvernig þær komu fram og þær miklu breytingar sem urðu á ríkisfjármálunum á því ári, er hægt að rekja kannske örfáa mánuði aftur í tímann.

Þegar menn gagnrýna hvernig útkoma fjárlaganna 1975 reyndist, þá held ég að það sé ekki úr vegi fyrir okkur að líta á tölurnar 1974, en hv. 11. landsk. þm., Geir Gunnarsson, var einmitt formaður fjvn. þegar fjárlagafrv. fyrir 1974 var samþ., — þær tölur, sem í því fjárlagafrv. voru, til samanburðar við ríkisreikninginn 1974 — og útkomu hans verður núv. fjmrh. vart kennt um þar sem hann hafði ekki tækifæri til að koma þar að nema seinustu fjóra mánuði ársins. Tekjur fjárl. 1974 voru áætlaðar 29.9 milljarðar kr., þær reyndust 37 milljarðar og 700 millj. Ef menn telja að hér sé um að ræða vandvirknislega fjárlagagerð, þá þeir um það. Gjöldin voru áætluð 28.8 milljarðar, en reyndust rúmur 41 milljarður, nærri 50% hærri en fjárlagatalan var. 1975 eru tekjurnar áætlaðar 47.6 milljarðar, en reynast 49.7, gjöldin eru áætluð 47.4, reynast 56.1. Ef bornar eru saman tölur fjárl. og ríkisreiknings fyrir árið 1974 og árið 1975, þá stenst árið 1975 mjög vel samanburð við árið 1974 sem ég held að sé algjört Íslandsmet, þ.e. mismunurinn á milli fjárlaga 1974 og ríkisreikningsins 1974. Mér er fullkomlega ljóst að hér eru ýmsar skýringar. Þá voru gerðar breytingar og annað eftir því sem leiddi af sér meiri tekjur fyrir ríkissjóð, sem aftur leiddi af sér meiri gjöld fyrir ríkissjóð, þannig að þegar tölur eru teknar, þá segja þær ekki allt, En ef menn á annað borð vilja gjarnan gera samanburð á tölum, þá verða þeir líka að gera samanburð á milli ára. Hér er dæmi um það hvernig fjárlagagerð á ekki að vera, og ég er sammála þeim hv. þm. sem hér hafa látið þá skoðun sína í ljós að við verðum að vinna vandvirknislega að okkar fjárlagagerð. Ég vék að því bæði í minni framsöguræðu í hv. Nd. og svo hér í dag að fjárlög okkar, sem stjórnunartæki eru kannske ekki í dag eins heppileg og skyldi og við þyrftum að finna leiðir til þess að geta brugðist við vanda án þess að þurfa að gera uppskurð á fjárl. kannske á hverju miðju ári.

Út af fyrirspurn, sem hv. 11. landsk. þm. Geir Gunnarsson, beindi til mín varðandi Hitaveitu Suðurnesja, þá hef ég hér upplýsingar sem ég veit réttastar, að á þessu ári er framkvæmdakostnaður við hitaveituna áætlaður milli 1100 og 1300 millj. Það er gert ráð fyrir því að fjáröflun verði unnin með þeim hætti að innlent fé verði a.m.k. helmingur og þá unnið að því að fá erlent lánsfé að helmingi. Þetta eru þær hugmyndir sem uppí eru nú. Í þessu frv. er m.a. gert ráð fyrir að fara inn á nýjar brautir í sambandi við útgáfu verðtryggðra bréfa og gefa m.a. Hitaveitu Suðurnesja tækifæri til þess að afla sér fjármagns í sambandi við útgáfu slíkra bréfa. (Gripið fram í.) Á meðan frv. er ekki orðið að lögum eru það till. og hugmyndir, en um leið og það hefur öðlast lagagildi kemur það til framkvæmda. A.m.k. hef ég þannig lítið á.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um það sem fram hefur komið. Eins og ég sagði í upphafi máls míns ítreka ég þakkir mínar til fjh.- og viðskn. beggja d. og þm. um samstarf varðandi framgang þessa máls.