10.11.1975
Neðri deild: 15. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

41. mál, söluskattur

Lárus Jónsson:

Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð út af þeim umr. sem hér hafa orðið um þetta frv. Ég átti við, þegar ég var að tala um að þetta frv. fæli í sér till. sem ég vissi ekki til að hefði verið neins staðar framkvæmd í nágrannalöndum, að á því væru augljósir ágallar að framkvæma þessa till. Ég vil segja það, að það væri afskaplega gott ef væri hægt að leysa byggðamál í eitt skipti fyrir öll með einu slíku pennastriki eins og þarna er, nokkrum línum á blaði, án nokkurrar athugunar og án þess að gera nokkra grein fyrir því hvernig eigi að afla fjár til þess að gera þetta. Það væri afskaplega þægilegt. Það er því miður ekki hægt. Ég benti á að þetta hefði ekki verið framkvæmt í neinu nágrannalanda, og þá átti ég við að það eru augljósir gallar á framkvæmd slíkra reglna.

Við skulum taka tvö byggðarlög sem eru sitt hvorum megin við línuna. Í öðru byggðarlaginu er lægri söluskattur, en í hinu er hærri söluskattur. Hvernig kemur þetta fram í framkvæmd? Þetta er allt annað en ef t. d. yrðu dregnar einhverjar línur og maður, sem er að byggja öðrum megin við línuna, fengi hærra lán. Það sjá allir menn að þetta er allt annað í framkvæmd. Söluskattar hafa ekki verið notaðir sem slíkt jöfnunartæki í nágrannalöndum, einfaldlega af því að það eru framkvæmdagallar á þessu. Á þetta vildi ég benda.

Ég vísa á bug öllum dylgjum um að ég sé minni byggðastefnumaður, minni vinur fólksins sem býr úti um land, þó að ég bendi á slíka augljósa galla á jafnflausturslegu frv. eins og þessu.