06.05.1976
Neðri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3787 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

154. mál, sálfræðingar

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að vefengja í sjálfu sér skilning tveggja síðustu ræðumanna á tilgangi þessara laga og orðalaginu á frv. Það. sem mér finnst einfaldlega óaðgengilegt, er að ef einstaklingur er búinn að stunda ákveðið nám, búinn að fá sin prófskírteini, eins og námið gefur tilefni til, og próf hjá viðurkenndri háskólastofnun, þá geti hann ekki borið það starfsheiti sem hann hefur þannig öðlast nema með leyfi frá menntmrn. Ég hef vakið athygli á því í umr. í sambandi við þetta og sýnt dæmi um það, hliðstætt dæmi. Ef ég stunda laganám við Háskóla Íslands, þá útskrifast ég sem lögfræðingur og hef prófskírteini upp á það og það getur ekkert rn. bannað mér að kalla mig lögfræðing. Hins vegar geta viðkomandi aðilar eftir ákveðnum reglum, sem gilda á þessum vettvangi, ákveðið hvort ég fái starfsréttindi til að starfa sem lögfræðingur, og til þess getur t.d. rn. veitt leyfi.

Í þessu tilfelli er það svo að í 1. gr. þessa frv. er tekið fram að menn verði að fá leyfi menntmrn. til þess að kalla sig sálfræðinga enda þótt þeir séu með prófskírteini upp á það að þeir séu sálfræðingar. Þetta nær ekki nokkurri átt að minni hyggju. Ég held að það, sem átt er við, eins og ég sagði áðan. sé að menn þurfi að fá leyfi til þess að starfa sem sálfræðingar. Þess vegna eigum við að orða þessa grein þannig að það taki af allan vafa um þetta og orðalagið sé á þá leið að þeir einir geti fengið leyfi til þess að starfa sem sálfræðingar sem rn. er búið að leggja blessun sína yfir.