11.11.1975
Sameinað þing: 13. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

292. mál, þátttaka ríkissjóðs í greiðslum til löggæslumanna

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann gaf við þessari fsp. Mér sýnist þau undirstrika það, sem grunur var uppi um, að hér væri með nokkuð mismunandi hætti staðið að kostnaðargreiðslu af hálfu ríkissjóðs vegna þessara starfa, — mismunandi hætti og misrétti, sem í enn einu tilvikinu sannar það að hinar strjálu byggðir verða afskiptar vegna þessara reglna sem gilt hafa. Ég fagna því að sjálfsögðu að í undirbúningi er eða hafin endurskoðun þessara reglna og ég vona að niðurstöður þeirrar endurskoðunar sjái dagsins ljós hið fyrsta.

Ég er ekki alveg sammála hæstv. dómsmrh., hans síðustu orðum áðan, um þá góðu reglu lögreglustjóra í sumum lögsagnarumdæmum að láta viðkomandi aðila, sem skemmtun heldur, greiða stærstan hluta af þessum kostnaði, vegna þess að með þeim reglum, sem hafa verið, hefur þetta að verulegu leyti bitnað á félags- og íþróttamálastarfsemi í hinum strjálu byggðum. Þeir aðilar, sem staðið hafa fyrir slíku skemmtanahaldi hafa orðið að borga svo og svo mikið vegna einmitt þessa kostnaðar sem á hinum þéttbýlli stöðum þeir losna við sem halda slíkar skemmtanir. Þetta er sá mismunur sem hið allra fyrsta þyrfti að hverfa. En ég sem sagt fagna því, að málið er í endurskoðun, og vænti þess að breyttar reglur í réttlætisátt sjái dagsins ljós hið fyrsta.