10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (3143)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur tekið þetta frv. til ítarlegrar meðferðar og fengið menn á sinn fund til að ræða frv. og fengið umsagnir sem leitað var eftir um frv.

Hjá þrem mönnum, sem komu á fund n. eða sendu umsagnir, þ.e. hjá formanni Rafmagnsveitna ríkisins, framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins og orkumálastjóra, komu fram ýmsar athugasemdir við þetta frv. Það var svo sem að það væri réttara að Alþ. athugaði nánar hvað gerðist um skipulag þessara mála í öðrum landshlutum áður en þetta frv. væri samþ. Það kom og athugasemd við það ákvæði frv. að gert er ráð fyrir, að hlutverk Orkubús Vestfjarða verði bæði orkuvinnsla og orkudreifing, og lögð var nokkur áhersla á að það gæti verið eins gott að hafa þessa þætti aðskilda. Enn fremur kom fram plagg þar sem framkvæmdastjóri Rafmagnsveitna ríkisins ásamt nokkrum öðrum starfsmönnum Rafmagnsveitnanna hafði skrifað ýmsar athugasemdir við einstaka liði þessa máls. Ég segi þessa máls, því það var eiginlega frekar í sambandi við framkvæmd orkumála á Vestfjörðum heldur en skipulagsmálin sem þetta frv. fjallar um.

Þetta frv. er samið af orkunefnd Vestfjarða sem hafði tvíþætt verkefni: annars vegar sem varðaði skipulagsmálin og hins vegar sem varðaði framkvæmdir í orkumálum á Vestfjörðum. Og í umr, n. komu allverulega á dagskrá einmitt hugmyndir um framkvæmdaþátt þessara mála sem ekki eru hér lagðar fram í frv. formi, En í tilefni af þessu fékk n. á sinn fund 3 sérfræðinga af 7 sem höfðu unnið með orkunefnd Vestfjarða að þessum málum, einkum framkvæmdamálunum, til þess að skýra og gera grein fyrir málum þeim sem tíunduð eru í skýrslu orkunefndar Vestfjarða, en ekki sem fylgiskjal með þessu frv., heldur í skýrslu sem hefur verið afhent öllum þm. Þannig gafst n. gott tækifæri að kynna sér þessi mál. Þá skal ég enn fremur geta þess að n. fékk á fund sinn formann Landsvirkjunar, Jóhannes Nordal. Síðast, en ekki síst leitaði n. eftir umsögnum þriggja aðila sem þetta mál varðar í einu eða öðru formi. Það er í fyrsta lagi Fjórðungssamband vestfirðinga, í öðru lagi Samband ísl. sveitarfélaga og í þriðja lagi Samband ísl. rafveitna. Öll þessi samtök sendu n. umsögn um frv. og mæltu öll með samþykkt þess. Að þessari meðferð í iðnn. lokinni tók n. þá afstöðu að mæla einróma með samþykkt frv.

Í nál. á þskj. 649 er ein brtt. Hún varðar 1. gr. frv. Í 1. gr. frv. segir: „Ríkissjóður Íslands og sveitarfélög á Vestfjörðum skulu setja á stofn orkufyrirtæki er nefnist Orkubú Vestfjarða.“ Í athugasemdum með þessari gr. stendur: „Gert er ráð fyrir að stofnun Orkubús Vestfjarða grundvallist á frjálsum samningum, sbr. 15. gr. 1. mgr.“ En í 15. gr. 1 málsgr. eru ákvæði sem varða sameignarsamning hins fyrirhugaða fyrirtækis. Eins og n. sú, sem vann að samningu frv., hafði gert ráð fyrir, þá taldi hún að það væri tekið fram skýrt í aths. við 1. gr. frv. og að öðru leyti í grg. frv. að hér væri um það að ræða að þeim aðilum, sem til greina koma og gert er ráð fyrir að stofni Orkubú Vestfjarða, Rafmagnsveitum ríkisins og sveitarfélögunum á Vestfjörðum, væri ekki gert skylt að gera slíkt. Það væri algjörlega háð því hvað þessir aðilar vilja samþ. í þessu efni og enginn aðili skuldbundinn endanlega í þessu efni fyrr en hann hefur skrifað undir sameignarsamning. N. taldi rétt og var sammála einnig um að hnika til orðalagi, sem ekki þýðir efnisbreytingu, en einungis að gera þessa hugsun enn greinilegri ef vera mætti. Þess vegna felst í brtt. n. á þskj. 646 að „þessum aðilum“, eins og segir í brtt., „skal heimilt“, en í frv. segir: „skulu setja á stofn.“

Þetta er það sem fram hefur farið á vegum iðnn. um þetta mál og sé ég ekki ástæðu til þess að fara að fjölyrða frekar um það hér, nema þá að gefnu tilefni.

Efni þessa frv. er um að það skuli stofnað Orkubú Vestfjarða af sveitarfélögunum þar og ríkissjóði Íslands.

Um hlutverk þessa fyrirtækis segir í 2. gr. frv. að það nái til alls orkuiðnaðar á Vestfjörðum, hvort heldur orkugjafinn er vatnsafl, jarðvarmi, olía eða annað. Orkuvinnsla og orkudreifing heyrir hvor tveggja til verkefna fyrirtækisins. Og það er hlutverk fyrirtækisins að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum. Um þetta hlutverk fyrirtækisins er einnig komið að í 6. gr. frv., þar sem tekið er fram að það sé skipulagslega mögulegt fyrir einstök sveitarfélög að annast einstakar, tiltekna, afmarkaða þætti þessara mála sjálf, ef þau kjósa það frekar. Það er í samræmi við grundvallarhugmyndina að frv. þessu.

Um félagsformið og eignarhlutdeild aðila að þessu fyrirtæki er að finna ákvæði í 3. gr. frv. Þykir rétt að samvinna ríkisins og sveitarfélaganna á Vestfjörðum í orkumálum þessa landshluta sé í formi sameignarfélags. Þetta er sama félagsform og haft er annars staðar á slíkum landshlutarfyrirtækjum ríkis og viðkomandi sveitarfélaga, svo sem á Landsvirkjun, Laxárvirkjun og Hitaveitu Suðurnesja. En það yrði þó ekki gert ráð fyrir, að eignarhlutdeild sameignaraðila sé í beinn hlutfalli við stofnframlag hvers og eins. Hins vegar er gert ráð fyrir að þeir aðilar, sem eiga orkumannvirki á Vestfjörðum, hvort heldur er ríki eða sveitarfélög, leggi þau fram til hins nýja fyrirtækis samkvæmt sérstökum reglum sem nánar er komið inn á í 5. gr. frv.

Skipting eignaraðildar milli ríkis annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar, þ.e.a.s. að ríkið eigi 40%, en sveitarfélögin samtals 60%, tekur mið af því að mannvirki Rafmagnsveitna ríkisins á Vestfjörðum hafa verið reist til þess að þjóna fólkinu í þessum landshluta. Hið háa orkuverð, sem fólkið þar hefur greitt, hefur verið framlag þess til þessara mannvirkja. Með tilliti til þessa og annarra sjónarmiða varðandi markaðshlutdeildina er skipting eignaraðila milli ríkissjóðs og sveitarfélaganna ákveðin.

Í 4. gr. er svo kveðið á að ábyrgð sameigenda á skuldbindingum Orkubús Vestfjarða gagnvart kröfuhöfum skiptist innbyrðis samkvæmt eignarhlutföllum. Eignarhlutfall ríkisins er fastákveðið 40%, en eignarhlutfall sveitarfélaganna innbyrðis getur verið breytilegt og skiptist ábyrgðin eftir eignarhlutföllum eins og þau eru þegar ábyrgðin verður virk. Og þessi ákvæði um skiptingu eignarhlutdeildar sveitarfélaganna innbyrðis byggist á þeirri hugsun að rétt sé að hlutur hvers einstaklings Í þessu almenningsfyrirtæki vegi jafnmikið hvar sem hann er búsettur á Vestfjörðum.

Í 5. gr. frv. er svo að finna ákvæði um yfirtöku á orkumannvirkjum þeim sem eru fyrir hendi á Vestfjörðum. Er gert ráð fyrir að Orkubú Vestfjarða hefji starfsemi sína með yfirtöku á þeim rekstri sem Rafmagnsveitur ríkisins og orkuveitur sveitarfélaganna á Vestfjörðum hafa með höndum. En á vegum þessara aðila er öll orkuvinnsla og orkudreifing á Vestfjörðum í dag. Þessari eignayfirfærslu skal fylgja að Orkubú Vestfjarða yfirtaki skuldir, sem svari til stofnkostnaðar á mannvirkjum þeim sem það tekur við.

Í 15. gr. er að finna ákvæði, eins og ég áður vék að, um sameignarsamning sem verður grundvöllur að þeirri félagsstofnun sem hér er um að ræða. Hann byggir á því, eins og ég áður sagði, að það náist samkomulag milli þeirra aðila sem fyrirhugað er að taki þátt í þessu nýja fyrirtæki, þ.e.a.s. þessi samningur verði á frjálsum grundvelli. Í raun og veru þýðir þetta það, að þetta frv. um skipulag orkumálanna á Vestfjörðum er um heimildarlög sem mundi vera farið eftir ef samkomulag næst milli viðkomandi aðila, endanlegt samkomulag um stofnun þessa fyrirtækis. Í raun og veru þýðir það að með því að þetta frv. yrði samþ. og gert að lögum kæmust þessi skipulagsmál orkumálanna á Vestfjörðum á raunverulegt samningsstig.

Ég legg áherslu á að hér er einungis um að ræða þann þátt orkumálanna á Vestfjörðum sem veit að skipulagsmálum. Um framkvæmdir í orkumálunum, virkjanir og annað slíkt hlýtur að koma til kasta Alþ. síðar eins og venja er, en það mundi t.d. við meiri háttar virkjanir verða að leita til Alþ. samkvæmt almennum lögum um sérstaka heimild til slíks, og svo er um allar helstu framkvæmdir sem til greina gætu komið. Sú n., sem vann að þessu frv. og gerð þess, gerði líka till. um framkvæmdir, en þær eru ekki hér til umr. og liggja ekki fyrir hér. Það eru aðeins hugmyndir og till. Það, sem þyrfti að ske til þess að koma þeim á frekara umræðustig, væri að sjálfsögðu, ef verður af stofnun þessa fyrirtækis, að stjórn þess vildi gera þessar till. að sínum till., sínum fyrirætlunum, að meira eða minna leyti.

Ég ætla ekki að lengja umr. með því að fara að ræða vítt og breitt um verkefni í orkumálum Vestfjarða. En ég tek það fram, enda augljóst mál, að hvati þess að þetta mál er komið á þann grundvöll, sem hér liggur fyrir í því frv. sem við hér ræðum, er að það eru óhemjumikil óleyst verkefni í þessum efnum í þessum landshluta. Það er mikið sem þarf að framkvæma og aðhafast til þess að ná því marki að orkuþörf vestfirðinga verði fullnægt með innlendum orkugjöfum. En þetta er að sjálfsögðu meira en að tala um.

Inn í þetta mál hlýtur að koma hver fjárhagsgrundvöllur hins nýja fyrirtækis verður. Orkunefnd Vestfjarða lagði mikla vinnu í það að leggja þau mál niður fyrir sér og gera nokkra grein fyrir því efni, eins og hægt er á því stigi sem þessi mál standa núna. Það er gert í skýrslu n. sem ég hef áður vitnað til og hefur verið afhent öllum þingmönnum. Inn í spurninguna um fjárhagsgrundvöllinn kemur náttúrlega ekki síst það hvert orkuverðíð á að verða, og auðvitað verður það það markmið sem vestfirðingar hljóta að keppa að, að með því skipulagi, sem þeir taka upp, verði þeim unnt að búa við orkuverð sem verði sem næst því, sem best gerist annars staðar í landinu eða sambærilegt við það. Inn í þetta koma mörg atriði fyrir utan orkuverðið sem ráða um hver fjárhagsgrundvöllur þessa fyrirtækis verður. Það verður að gera ráð fyrir því að vestfirðingar njóti eftir sem áður þeirra aðgerða sem ríkisvaldið kann á hverjum tíma að gera til þess að jafna orkuverð í landinu, á hliðstæðan hátt sem það gerir nú, með verðjöfnunargjaldi eða á annan hátt, þ.e.a.s. að vestfirðingar njóti eftir sem áður jafnréttis við aðra landsmenn í þessu efni, þó breytt sé skipulagi þessara mála frá því sem nú er.

Ég vil svo að lokum varðandi fjárhagsgrundvöllinn og allar þær athuganir, sem hafa verið gerðar á raunhæfni þessara hugmynda, aðeins víkja að einu atriði og það er spurningin um eignir Rafmagnsveitna ríkisins. Þau orkumannvirki, sem í dag eru á Vestfjörðum, eru að mestu leyti í eigu Rafmagnsveitna ríkisins. Það skiptir því höfuðmáli með hvaða kjörum yfirfærsla fer fram á þessum eignum. Það er gert ráð fyrir því, eins og ég hef áður getið um, að í þessu efni verði tekið mið af stofnkostnaði þessara mannvirkja og okkur þykir að það sé eðlileg viðmiðun. En eins og ég hef lagt á áherslu áður, verður að semja milli væntanlegra aðila um þetta atriði. Og það er líka þess að geta, að nefnd sú, orkunefnd Vestfjarða, sem hefur unnið á vegum iðnrh. að þessum málum, hefur lagt sérstaka áherslu Í grg. sinni á það, að um leið og þetta mál er gert upp verði að sjá Rafmagnsveitum ríkisins borgið. Þetta er mál sem við teljum að ekki sé hægt að gera upp fyrr en það liggur fyrir hvers konar samningar getur verið um að ræða og með hvaða kjörum yrði reiknað á eignum Rafmagnsveitna ríkisins. En þetta er ein höfuðástæðan fyrir því að það er talið að það sé ekki hægt að nálgast þetta viðfangsefni of fást við það á annan hátt en hér er gert ráð fyrir, þ.e. fyrst og samþ. heimildarlög um þetta og svo verður að ráðast um framkvæmdina. Við vonum að vísu að framkvæmdir takist, en við getum ekki fullyrt um það fyrr en allir þessir samningar hafa farið fram.

Ég sagði áðan, að grundvöllur Orkubúsins væri hin mikla þörf á markvissum aðgerðum í orkumálum Vestfjarða. Þetta á almennt við alla þætti þessara mála. En þetta er sérstaklega aðkallandi núna og nýtilkomið að vissu leyti hvað varðar jarðvarma á Vestfjörðum og þá möguleika sem kunna að felast í hagnýtingu hans. Ég sagði að þetta væri tiltöluleiga nýtilkomið. Fram á síðustu mánuði eða síðustu missiri hefur það svo verið, bæði í almenningsvitund og meðal kunnáttu- og fræðimanna, að það hefur ekki verið litið á Vestfirði sem jarðhitasvæði sem hefði mikla hagnýta þýðingu fyrir þéttbýlisstaði þar fyrir hituveitu með upphitum húsa fyrir augum. Nú hefur þetta viðhorf mjög breyst. Þetta kann að hafa ómetanlega þýðingu fyrir framvindu orkumálanna á Vestfjörðum og framtíð byggðaþróunar í þessum landshluta sem svo mjög hefur átt í vök að verjast á undanförnum áratugum. Og það má geta þess hér, að það er þegar ákveðið að á þessu ári verði boraðar vinnsluboranir á Ísafirði, í Bolungarvík, í Súgandafirði, á Patreksfirði, Tálknafirði og Borðeyri. Og það hefur verið þegar gert ráð fyrir að það verði boraðar rannsóknarholur bæði á Þingeyri og Hólmavík. Af þessu má marka hve yfirvöld þessara mála leggja mikið upp úr því að hagnýta þá möguleika sem hér kunna að vera fyrir hendi.

Nú tek ég það fram að það er ekki öruggt að alls staðar verði endanlega jákvæður árangur í þessu efni. En það er nú talið öruggt að 15% vestfirðinga geti a.m.k. notið hitaveitna. En það kann vel að vera ef aðeins tveir staðir koma til viðbótar, tveir af stærstu stöðunum, þá verði það komið yfir 50%. Er þess vegna ákaflega mikil þörf á að flýta þessum aðgerðum. En þar sem jákvæður árangur fæst, þar er næsta viðfangsefnið að byggja hitaveitur, og vestfirðingar telja að það sé ákaflega þýðingarmikið að skipulagi þessara orkumála á Vestfjörðum sé komið í það horf sem frv. þetta gerir ráð fyrir, til þess að hið nýja félag, þar sem allir Vestfirðingar bindast samtökum um að ráðast til atlögu við þessi stóru verkefni, komist á. Þess vegna leggja vestfirðingar mikla áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Og í raun og veru er það svo, að það, sem vestfirðingar eru að fara fram á, er aðstoð ríkisvaldsins til þess að þeir geti hjálpað sér sjálfir.

Auðvitað eru það ekki einungis jákvæðir hlutir fyrir Vestfirði, ef svo mætti segja, sem gerast við lögtöku þessa frv. Vestfirðingar taka ekki einungis víð réttindum, þeir taka á sig skyldur. Þeir taka á sig þær skyldur að bera fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum og rekstri hins nýja fyrirtækis. Og ég veit að hv. þm. vita það eins vel og ég og eins vel og orkunefnd Vestfjarða, sem vann að þessum málum, að þegar reynt er að ná samstöðu um slík efni sem þessi, þá er nokkuð löng leið að því marki. Og svo hefur reynst í þessu sambandi. Það er engin launung og það er ekki nema eðlilegt að á Vestfjörðum hafi komið fram mismunandi sjónarmið og mismunandi hagsmunir. Það er t.d. mismunandi aðstaða fyrir þá þéttbýlisstaði, sem hafa möguleika á jarðvarma til húshitunar, og hina staðina, sem hafa ekki þessa möguleika. Þarna er um mismunandi hagsmuni að ræða og spurningin er hvort þeir, sem hafa jarðvarmann, vilja láta aðra, sem hafa ekki þessi gæði, njóta góðs af.

Annað atriði, sem mjög spannst inn í allar umr. um þetta mál, var sú staðreynd að það eru ekki nema sum sveitarfélög á Vestfjörðum, og þau eru örfá, sem eiga nokkrar eignir í orkumannvirkjum, en flest eiga engar vegna þess að Rafmagnsveitur ríkisins tóku þær eignir, sem þau áttu áður, í sínar hendur á sínum tíma. M.ö.o.: þegar talað er um að sveitarfélögin leggi fram sínar eignir, þá eru það ekki nema sum sveitarfélögin á Vestfjörðum sem geta gert það og flest geta ekki gert það. En frv. þetta gerir ráð fyrir, að allir sitji við sama borð samt hvað varðar eignarhlutdeildina, að eignarhlutdeildin fari eftir íbúatölunni í hverju sveitarfélagi.

Nú hefur það skeð, ég leyfi mér að segja að það hefur komið í ljós sá félagslegi þroski hjá vestfirðingum í þessu máli að þeir hafa ákveðið að horfa ekki hver í sínu byggðarlagi á sin þrengstu sérhagsmunasjónarmið, heldur hafa að leiðarljósi að með því að gera sameiginlegt átak muni þeir að lokum allir hafa hag af. Og það er ánægjulegt að geta þess nú, að s.l. föstudag tók það sveitarfélag, sem mest leggur fram af eignum, þessi mál fyrir. Það var gert í bæjarstjórn Ísafjarðar á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var s.l. fimmtudagskvöld. Þar var samþ. með atkv. allra bæjarfulltrúanna níu að lýsa stuðningi við þetta frv. og lögð sérstök áhersla á, að það næði fram að ganga á þessu þingi. Ég get þessa dæmis til þess að leggja áherslu á þann þunga vilja sem er á Vestfjörðum í þessu máli. Vestfirðingar leggja kapp á það að fá möguleika til að fara þá leið í skipulagsmálum orkumálanna sem hér er farið fram á. Þeir vænta þess að með samþykkt þessa frv. komist þessi mál á samningastig, eins og ég áður sagði, og síðar á framkvæmdastig. Þeir telja að þetta sé besta leiðin í skipulagi þessara mála á Vestfjörðum. Og þeir telja líka svo og nefnd sú, sem hefur unnið að samningu þessa frv., að með þessari leið sé farin sú leið sem einnig sé best þjóðhagslega séð.