10.05.1976
Efri deild: 100. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3851 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

257. mál, jarðalög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Vegna fjarveru minnar um sex vikna skeið hér úr þingsölum var ég ekki við þegar þetta frv. kom til n. í þetta sinn, en tvívegis áður hefur frv. til jarðalaga borið hér á fjörur okkar og efnislega er ég því nokkuð kunnugur. En eins og frsm. meiri hl. drap á hafa verið gerðar á því nokkrar breyt. í áttina að því að samkomulag hefur tekist með þeim gömlu, andstæðu flokkum er lengi hafa haft nokkuð andstæð sjónarmið í heimspeki sinni, og kann það að vita á eitthvað betra sambýli á kærleiksheimilinu, en mörg önnur teikn hafa gefið til kynna undanfarið. En hvað sem því líður, þá er hluti af þessu frv. að okkar skapi í Alþfl., þó annað sé miður.

Ég sé að staðgengill minn hefur skilað sérstöku nál. og einnig nokkrum brtt., og ætla ég rétt að hlaupa á brtt., en nál. er stutt og varla þörf á því að rekja það nánar í löngu máli.

Hann hefur lagt til að 1. gr. verði svo hljóðandi:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja að nýting landsins utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni þjóðarheildarinnar.“ 4. gr. orðist svo:

„Í hverju kjördæmi, þar sem bújarðir eru, skal starfa jarðanefnd, skipuð 5 mönnum og jafnmörgum til vara. Búnaðarsamband eða búnaðarsambönd viðkomandi kjördæmis tilnefna tvo menn í jarðanefnd, kaupstaðir kjördæmis tilnefna tvo menn, en ráðh. skipar form. n. án tilnefningar.“

Þetta atriði var á sínum tíma mikið ágreiningsefni, hvernig með skyldi fara með þessar jarðanefndir, en þrír menn eiga að vera í þessum n. og óumdeilanlega munu þeir fá mikil völd. Það fer á milli mála. Kann að skapast um það allmikil togstreita í héraði þegar fram líða tímar. Það er trú okkar og þess vegna teljum við þetta ekki heppilegt ákvæði. Hefur staðið mjög lengi í mönnum að kyngja þessu, en nú virðist sem með einhverjum hætti hafi náðst samkomulag, og á eftir að koma í ljós á hvaða grundvelli það er, hvort helmingaskiptaregla hefur ráðið þar í við úthlutun formannssæta. En það, eins og ég segi, mun koma í ljós í tímans rás. En ég tel heilbrigðara að þetta sé á breiðara grundvelli gert og með hliðsjón einnig af möguleika fyrir þéttbýlissvæði að eiga nokkra fulltrúa í þessari væntanlegu jarðanefnd.

2. og 3. málsgr. 6. gr. orðist svo:

„Nú telja sveitarstjórn og jarðanefnd að ráðstöfun fasteignar sé andstæð hagsmunum sveitarfélagsins né samrýmist almannaheill umhverfisins, og er þá rétt að synja um áformaða ráðstöfun eignarinnar.

Nú verða sveitarstjórn og jarðanefnd ekki sammála um meðferð máls, og getur þá hvort um sig skotið ágreiningsefninu til ráðh. sem fellir úrskurð að fenginni umsögn Búnaðarfélags Íslands og Landnáms ríkisins. Eigandi fasteignar getur einnig skotið máli sínu til úrskurðar ráðh. telji hann sig rangindum beittan í úrskurði sveitarstjórnar og jarðanefndar um ráðstöfun fasteignar sinnar.“

Hér er mikilvægt mál og réttindamál hvers einstaklings, að hann eigi áfrýjunarrétt ef hann unir ekki ákvörðun jarðanefndar um meðferð sinna eigna, og sýnist þetta sanngjarnt ákvæði.

Á eftir 14. gr. komi ný gr. er verði 15. gr. og orðist svo: „Nú er góð bújörð og vel í sveit sett í sameign og enginn ábúandi á jörðinni né heldur nást kaup á henni vegna tregðu eigenda, og er þá viðkomandi sveitarfélagi skylt að leysa jörðina til sín samkv. mati og koma henni í ábúð.“

Þetta er einnig mjög viðkvæmt og mikilvægt mál, ef menn vegna einhverra annmarka sitja á þessu og land nýtist ekki og kann að orsaka það að nágranni lendi í miklum vanda. Hér er mjög mikilvægt og viðkvæmt mál á ferðinni og er afar erfitt að ráða sanngjarnlega fram úr öllum þeim tilvikum er upp kunna að koma. Hefur staðgengill minn lagt til að svo yrði ,um fjallað eins og ég hef nú upp lesið. Ekki skal ég segja hvort þetta er tæmandi eins og tilvik geta verið breytileg, en þetta mun áreiðanlega vera áfangi í lausn á viðkvæmu vandamáli.

20. gr., er nú verður 21. gr., orðist svo: „Kostnaður við störf jarðanefndar greiðist að hálfu af hlutaðeigandi landshlutasambandi og að hálfu af ríkissjóði. Landbrh. ákveður þóknun nm.

Hér er um einfalda greiðslubyrði að ræða við störf þessara n.

21. gr., sem nú verður 22. gr. 1. málsgr. orðist svo:

„Eigi að selja fasteignaréttindi sem lög þessi taka til, sbr. 3. gr., á sveitarstjórn þess sveitarfélags, þar sem eignin er, forkaupsrétt að þeim.“

7. brtt. er við 28. gr. „Í stað „Ráðh.“ í upphafi gr. komi: Alþingi.“ Það er um ráðstöfun á ríkisjörðum og er hér um tímamótaspor að ræða ef ráðh. á að hafa úrslitavald um sölu á ríkisjörðum. En það hefur alltaf verið svo, að það þurfi sérstök lög um það, og mætti tilnefna frægt dæmi um hversu oft hefur orðið að bera fram frv. hér á Alþ. til að ná fram sölu jafnvel á einni jörð, en það hefur þurft margsinnis svo að meiri hl. næðist hér á Alþ. um það mál. Það er varhugavert í meira lagi að taka það vald úr höndum Alþ. og láta það í hendur eins manns að ráðstafa eignum ríkisins þegar jarðir eru annars vegar — mjög varhugaverð vinnubrögð.

Síðan er 8. liðurinn, við 29. gr., að 2. töluliður falli burt. Og 9. liður er um að 30.–60. gr. falli niður.

Þetta eru þær till. sem hann leggur til, en augljóst er að meiri hl. hefur ekki viljað fallast á mörg þau sjónarmið er hann hefur haft uppi. Verður að reyna á það hér í hv. d. hvort einhver hljómgrunnur er a.m.k. fyrir sumum þessara atriða. Sérstaklega eru þau tvö og jafnvel þrjú sem ég trúi vart öðru en hv. dm. vilji hafa enn óbreytt í lögum, en það er að tilgangur þessara laga verði að tryggja sem besta búsetu, og er þá eðlilegt að viðbót komi við 1. gr., og einnig ítreka ég enn einu sinni að það er varhugavert að breyta svo til að Alþ. hætti að fjalla um sölu á ríkisjörðum. Það ætti alls ekki að eiga sér stað.