10.05.1976
Efri deild: 101. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3891 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

238. mál, ferðamál

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. menntmrh. að hér er fyrst og fremst um það að ræða hvort heimavistarherbergin almennt falla undir það að heita fyrsta flokks eða annars flokks. Og staðreynd er það líka að héðan í frá — og það er kannske löngu orðið svo — er mjög erfitt að reka hótel sem býður eingöngu annars flokks gistirými vegna þess hversu miklu lægra gjald er tekið fyrir það. Þetta er einmitt kjarni málsins, að rekstur, sem á að byggjast eingöngu á annars flokks gistiherbergjum, stenst mjög illa og þar af leiðir að hann er rekinn með tapi. Það, sem hér er fyrst og fremst verið að hugsa um, er að koma í veg fyrir þetta með því ósköp einfaldlega að veita þeim aðilum, sem ætla sér að reka heimavistirnar að sumarlagi, lán til þess að þeir geti staðið undir þessum byrjunarkostnaði. Það er allra manna mál að hann margborgar sig þegar fram í sækir, og það er alveg rétt, sem hæstv. menntmrh. segir, það hefur einmitt vantað að einhvers staðar væri hægt að fá fé í þessu skyni. Einmitt þess vegna er till. mín fram borin, að ætla Ferðamálasjóði þetta verkefni og ætla honum sérstaka fjárveitingu í þessu skyni.

Ég vil taka það fram í tilefni af orðum hæstv. menntmrh., — ég skildi hann nú ekki alveg, — þegar hann sagði að þetta væri ekki nægileg útvegun fjár, að taka svo til orða sem hér er gert. Ég vil undirstrika það að þetta er hin venjulega aðferð þegar ríkissjóður veitir lán einhverjum aðila, þá þarf fyrst og fremst að ákvæði um það sé samþykkt í lögum sem fara fyrir þrjár umr, í báðum d. Og það er það sem hér er að gerast. Það er ósköp einfaldlega verið að veita ríkissjóði heimild til að veita þetta lán. Verði þessi till. samþ., þá liggur það fyrir að ríkissjóður getur annað tveggja útvegað þetta lán – hann þarf ekki endilega að taka það úr eigin vasa, hann getur útvegað þetta lán — eða lagt það fram úr ríkissjóði, til þess þarf ekki ákvörðun á fjárlögum eða neina aðra ákvörðun. Lagaheimild af þessu tagi er að sjálfsögðu fullkomlega nægileg.