10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3923 í B-deild Alþingistíðinda. (3224)

274. mál, Framkvæmdastofnun ríkisins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að gera örlitla aths. vegna ummæla sem hér hafa komið fram, sérstaklega hjá Jóni Skaftasyni, hv. þm. Það er leiðinlegt að flytja sömu ræðuna upp aftur og aftur, en nokkuð kennir endurtekninga í máli manna hér í þessum umr, frá umr. sem urðu um Framkvæmdastofnun ríkisins í haust, þar sem fyrir lá mál sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason flutti um sama efni. Þá var uppi hafður þessi sami söngur eins og hv. þm. Jón Skaftason hafði hér uppi nú rétt áðan, og ég kemst ekki hjá því að endurtaka sumt af því, sem ég sagði þá, og bæta þá lítillega öðru við.

Hann kvartar yfir því sérstaklega hvað óskaplega sitt kjördæmi, Reykjaneskjördæmi, sé afskipt og þetta svæði hér, Reykjavík og Reykjanes, vegna svívirðilegra útlánareglna hjá Byggðasjóði. Byggðasjóður er arftaki Atvinnujöfnunarsjóðs sem settur var á stofn sérstaklega vegna byggingar álversins í Straumsvík. Frá því draup skattgjald til þessa Atvinnujöfnunarsjóðs og Byggðasjóður er beint framhald af því plani. Atvinnujöfnunarsjóður var settur upp til atvinnujöfnunar til þess að reyna að vega á móti þeirri búseturöskun sem fyrirsjáanlegt var að mundi fylgja í kjölfar álversbyggingarinnar.

Það er svo sem engan veginn hægt að játa því að Framkvæmdastofnunin greiði ekki fyrir þessu kjördæmi og þessu þéttbýlissvæði hér við Faxaflóann. Úr Framkvæmdasjóði eru lánuð beint smálán, en safnast þegar saman kemur, og þau eru einkum til þessa svæðis. Það er lánað milli 60 og 70 millj. fljótt á litið samkv. ársskýrslu Framkvæmdastofnunar 1975 beint úr Framkvæmdasjóði í Reykjanes- og Reykjavíkurkjördæmi, en sáralítið í önnur kjördæmi. Úr Byggðasjóði er líka lánað í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi. Samkv. töflu 16 í skýrslu þeirri, sem ég vitnaði til, ársskýrslu Framkvæmdastofnunar 1975, þá var staðan þannig með veðlán Byggðasjóðs eftir kjördæmum 21.12. 1975, að útistandandi skuldir Reykjavíkur við Byggðasjóð voru 21.12. 1975 166.2 millj. kr. og Reykjaness tæpar 300 millj., á Vesturlandi 517, Vestfjörðum 420, Norðurl. v. 517, Norðurl. e. 845, Austurl. 677, Suðurl. 325, þannig að það er engan veginn hægt að segja að Byggðasjóður veiti ekki fyrirgreiðslu í þessi kjördæmi. Ég tel að það hafi ekki verið upphaflegt markmið með stofnun Byggðasjóðs að svo færi, og ég tel að Byggðasjóður eigi að vera fyrir landsbyggðina, enda er beinlínis nafnið valið með það fyrir augum.

Það væri fróðlegt að athuga fleiri sjóði, hvernig lánveitingum þeirra er háttað. Fiskimálasjóður t.d., það er að vísu ekki öflug stofnun, en hann lánar ansi drjúgt á Suðurnesin og hér í Reykjavík. Ég hef ekki tölur um það handbærar hér, en ég sá þá skýrslu um daginn og það er mestallt féð lánað á þetta svæði við Faxaflóa. Ég hef ekki nýjustu tölur um lánveitingar Atvinnuleysistryggingasjóðs, en á árunum 1972, 1973 og 1974 var lánað í Reykjavíkurkjördæmi 114 millj., í Vesturl. tæpar 20 millj., Vestf. 30 millj., Norðurl. v. tæpar 25 millj., Norðurl. e. 72 millj., Austurl. 46 millj., Suðurl. 5.3 millj. og Reykn. 46 millj., svo að ekki eru þeir nú afskiptir þarna, öðru nær.

Það væri fróðlegt að athuga þetta með Byggingarsjóð ríkisins, hvernig honum er varið, en þetta svæði hefur gersamlega forgang í húsnæðismálalánakerfinu. Ég vonast til að fá tækifæri til að eyða að því nokkrum orðum áður en þingi lýkur. En það gengur svo langt að þeir fá meira að segja að byggja leiguíbúðir suður á nesjum, bæði í Keflavík og í Njarðvíkum, en eru þó með tepptar svo hundruðum skiptir íbúðir í hermannaleigu sem búið er að fá fyrirgreiðslu út á úr hinu íslenska húsnæðismálalánakerfi.

Það má enn fremur undirstrika það að stjórnsýslan er hér mestöll í Reykjavík og það drýpur frá henni á þetta svæði miklu fremur heldur en annars staðar á landinu. Þessi söngur er leiðinlegur og óþarfur fyrir þm. Reykn, að hafa uppi.

Hvað varðar hina pólitísku stjórn á Framkvæmdastofnuninni, þá tel ég að hún sé réttmæt og vil undirstrika það, að ég tel að þannig eigi að stjórna. Ég tel jafnframt að Seðlabankinn ætti að lúta svipaðri stjórn. Ég er á því að það þyrfti að setja kommissara við Seðlabankann og hann væri í einhverjum tengslum við fjármálastefnu og fjármálaþróun þá sem ríkjandi þingmeirihl. óskar eftir að stuðla að, og tryggingin fengist með því best að hann lyti með einhverjum hætti svipuðum stjórnarháttum.

Þetta var sem sagt aths. sem ég ætlaði að koma hér á framfæri.