10.05.1976
Neðri deild: 103. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3929 í B-deild Alþingistíðinda. (3229)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Magnús T. Ólafsson:

Hæstv. forseti. Ég skrifa með fyrirvara undir nál. meiri hl. menntmn. á þskj. 650, og aðalerindi mitt í ræðustól er að gera grein fyrir hvernig á þeim fyrirvara stendur. Meginástæðan er sú, að ég tel að í brtt. á þskj. 641 hefði átt að ganga lengra en þar er gert í að tryggja að stofnframlög ríkissjóðs til þeirra viðskiptamenntunarskóla, sem um er rætt, myndi ríkiseign. Í brtt. er kveðið svo á að séu skólarnir niður lagðir eða ekki hagnýtt í skólanna þágu húsnæði sem ríki hefur lagt stofnframlag til, þá skuli eignarhluti í þessu húsnæði í samræmi við stofnkostnaðarframlög hverfa til ríkisins. Ég hefði talið réttara að breytingin hefði náð lengra, að kennslu- eða heimavistarhúsnæði við þessar stofnanir, sem reist er fyrir ríkisfé, yrði ríkiseign strax þegar húsnæðið rís. En ég tel þennan mun ekki svo afdrifaríkan að ég geti ekki staðið með meirihlutaálitinu sem leggur til að frv. verði samþykkt.

Það má frá almennu sjónarmiði taka undir það sem frsm. minni hl., hv. 5. landsk. þm., hefur sagt, að æskilegt hefði verið að frv. um skipan framhaldsmenntunar hefði legið fyrir áður en mál sem þetta er afgreitt. En ég tel samt að rétt sé að afgreiða þetta frv. af þeim ástæðum sem nú skal greina.

Þessir tveir einkaskólar, sem frv. á fyrst og fremst við, hafa um áratugaskeið leyst af hendi mestalla menntun til starfa í verslun og viðskiptum sem veitt er á landinu. Aðsókn að þessu námi er feikimikil. Nýskeð hefur verið frá því skýrt að Samvinnuskólinn til að myndi hafi á þessu vori orðið að vísa á bug fjórum ef ekki fimm nemendum á móti hverjum einum sem hann getur veitt skólavist næsta vetur. Á undanförnum árum hefur orðið æ erfiðara þeim einkaaðilum, sem skólana reka, að halda skólastarfinu í því horfi sem þörf er á og vilji fyrir hjá eignaraðilunum, af fjárhagsástæðum vegna vaxandi tilkostnaðar. Því hefur raunin orðið sú að ríkið hefur lagt fram sem styrki til þessara skóla vaxandi hluta af því fé sem skólareksturinn kostar. Úr því að svo er komið að mikill hluti eða meginhluti rekstrarkostnaðar þessara skóla er í rauninni úr ríkissjóði, þá tel ég heppilegast og heilbrigðast að stiga það skref til fulls og setja lagareglur um hvernig framlögum ríkisins til viðskiptamenntunarinnar sé hagað enda þótt hún sé áfram um skeið a.m.k. í höndum einkaskóla, en ekki ríkisskóla.