10.05.1976
Neðri deild: 104. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 3934 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

271. mál, Happdrætti Háskóla Íslands

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hv. frsm., þá hef ég ekki eingöngu áskilið mér rétt til að flytja eða fylgja brtt., heldur hef ég einnig skrifað undir með fyrirvara. Þegar allshn. var að athuga þessi frv., þá kom það glöggt í ljós hvað tölvumenning er utan við alla venjulega mannlega þekkingu og mannlegt líf. Við fengum á okkar fund starfsmann, deildarstjóra úr dómsmrn., Ólaf Walter Stefánsson, sem gaf okkur upplýsingar eftir bestu getu, en játaði jafnframt að hann hefði raunar sjálfur enga þekkingu á því sem hann væri að greina okkur frá, heldur væri hans þekking komin frá sérfræðingi úr háskólanum. Hins vegar voru ummæli hans á fundinum þó það sannfærandi og sá sérfræðingur í háskólanum sem hann vitnaði til, dr. Þorkell Helgason, að mínu viti það trúverðugur að ég taldi óhætt að fylgja n. og mæla með samþykkt þessa frv.

Ég ætla mér ekki þá dul að lýsa því hvaða breyting verður á þegar dráttur fer fram með tölvu í stað handafls, en mér skilst að það sé tryggt í upphafi dráttar að allir hafi jafnan rétt. Ég skrifa undir með fyrirvara vegna þess að þrátt fyrir þetta, sem ég hef núna sagt, þá finnst mér varhugavert að Alþ. sé að setja lög um tölvunotkun meðan við höfum enga heildartölvulöggjöf. Ég minni á nauðsyn þess að setja slíka löggjöf. Það liggur fyrir till. um það á þessu þingi og það lá fyrir till. um það á síðasta þingi. Og ef framhaldið á að vera svona, að við verðum að fara að ákveða með lögum tölvunotkun hér og þar, þá er vissulega grundvallaratriði að til sé löggjöf um tölvunotkun.

Það, sem vakti fyrir mér þegar ég áskildi mér rétt til þess að flytja brtt., var að það mun svo fyrir mælt í núgildandi lögum um Happdrætti háskólans, að a.m.k. tveir nm. séu lögfræðingar. Með því frv., sem hér liggur fyrir, eru engin ákvæði um neina sérmenntaða menn. En sakir tímaskorts hef ég ekki getað aflað mér nægilegra upplýsinga um hvort hér þyrfti menn með einhverja sérstaka tæknimenntun og hef þess vegna ekki flutt brtt., en vil beina því til hæstv. dómsmrh., hann er ekki staddur hér að vísu, en ég vil leggja áhersíu á og vona að þessi tilmæli komist þá til skila, að hann athugi það þegar þessi n. verður sett.